30 nóvember 2008

Myrkur og kuldi

Ég gæti sofið endalaust þessa dagana eins og venjulega í desember. Leyfði mér að sofa lengi í dag en ætli það verði ekki síðasti svefndagurinn fram að jólum. Ég er búin að vera með tvær ástralskar stelpur í heimsókn síðustu 3 daga en þær fara í nótt. Á morgun kemur mjög áhugaverður gestur, rússneskur prófessor í forngermönsku sem er búsettur í Kanada og talar íslensku. Hann er að grúska eitthvað í textanum á fornritunum á Árnasafni. Ég hitti hann aðeins á Café Paris á laugardaginn ásamt núverandi gestgjafa hans sem reyndist vera tengdasonur Þorgríms Gestss. Þorri kom að okkur lepjandi kaffi þegar kl. vantaði 5 mín. í þrjú og við vorum auðvitað rekin af stað til þess að missa ekki af mótmælunum og Iliya að sjálfsögðu með okkur. Mikið helv. var kalt!!!! Meira að segja Rússinn var að frjósa í hel.
Hér á bæ hefur að sjálfsögðu verið dregið úr útgjöldum í matarinnkaupum og hafa kisurnar ekki heldur sloppið við sparnaðaraðgerðir. Mér varð það á að kaupa ódýran euroshop kattamat en þær svelta sig frekar í hel en borða hann. Scarlet er stöðugt að opna skápinn þar sem ég geymdi einu sinni kattamatinn til að gefa mér til kynna að hún vilji ekki sjá það sem er í dallinum og það er horft á mig ásökunaraugum þegar ég loka aftur og þykist ekki skilja hvað hún er að gefa í skyn. Það lítur út fyrir að ég verði að gefa mig og kaupa frekar dýrari matinn handa þeim.
Á þriðjudag byrjar svo yfirsetan í prófunum!

1 ummæli:

Kitty sagði...

Ertu búin að prófa íslenska katta matinn?
Minnir að hann sá á 600 kall í Bónus, 2 kg poki. Dýrin hjá Dísu hakka hann í sig og mig minnir meira að segja að hefðarkisann hennar Kristínar borði hann líka.