03 júlí 2008

Kaffifíkinn búálfur með símadellu

Ég fór í bankann í dag og tryggði mér framfærslu fram á haust þannig að ég geti algjörlega einbeitt mér að ritgerðinni. Þvílíkur munur að þurfa ekki að vera að hlaupa á milli vinnu og verkefnis. Er líka alveg endurnærð og full af orku eftir Ítalíuförina þannig að nú sit ég við skriftir öllum stundum. 

Hér á heimilinu hafa undarlegir hlutir átt sér stað. Svo virðist sem einhver kaffiþyrstur hafi laumast hér inn og hnuplað kaffikrukkunni og líka neskaffinu nema hingað hafi flutt inn kaffifíkinn búálfur. Um síðustu helgi hvarf svo heimasíminn (tólið). Við erum búin að leita á öllum stöðum sem okkur getur dottið í hug án árangurs. Ég sá því ekki annað í stöðunni en að skunda í ELKO í dag og kaupa eitt stykki síma. Ódýrasti síminn hjá þeim er á tæpar 4.000 krónur (eins og sá sem hvarf) og hefur reynst mér mun betur en rándýrir símar frá Símanum. Ég kemst vel af án allra fídusa sem prýða þessa rándýru síma og finnst alveg nóg að hægt sé að hringja úr honum og í hann. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég lét glepjast af nýjum og fínum gemsa áður en ég fór út. Nú get ég hlustað á útvarpið, Mp3 spilara, tekið myndir og vídeó ásamt fullt af öðrum hlutum sem ég á eftir að læra á. Svo er hann svo flottur á litinn, hvítur og limegrænn, það gerði náttúrulega útslagið um kaupin ha ha ha.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þegar ég kaupi græjur, hvort heldur eru heimilistæki eða frístundadót, þá hef ég í huga það sem ég las einhvers staðar að Ford bílaframleiðandi hefði sagt: Það sem ekki er í bílnum það bilar ekki.
Þess vegna kaupi ég alltaf dót sem uppfyllir mínar þarfir en ekki þarfir tæknifíkla.
kv.
Rannveig Árna