25 desember 2007

Gleðilega hátíð!

Í dag er besti dagur ársins hinn hefðbundni náttfatadagur. Ég dröslast fram úr og fæ mér að borða en síðan er skriðið aftur upp í með bók meðferðis. Ég hef nokkrar bækur að lesa svo ég er vel birg þetta árið. Sem betur fer á ég ekki sjónvarp sem glepur mig frá bókalestrinum. Annars einkennast þessi jól af mikilli innri ró hjá mér sem lýsir sér í því að ég hef aldrei verið jafn afslöppuð með þrif og fyrir þessi jól og viti menn jólin komu fyrir því!
Á Þorláksmessukvöld rölti ég Laugaveginn eins og alltaf, þetta er ein af mínum hefðum enda bý ég rétt hjá honum. Það er alveg ótrúlegt hvað veðrið er alltaf gott þetta kvöld. Í ár fannst mér miklu meiri ró yfir fólki en oft áður en kannski var það bara ég sem var rólegri. Ég tók eftir því að barðastórir hattar eru í tísku hjá körlum á miðjum aldri og upp úr. Sveitarstjórinn í Hvalfjarðarstrandarhreppi var ansi reffilegur með sinn hatt og í brúnum frakka.
Núna sitjum við Skotta við stofugluggann og horfum á snjóinn mulla niður í kyrrðinni úti. Fuglarnir syngja í trjánum í garðinum, nokkrar gæsir flugu gargandi yfir áðan og meira að segja krunkaði hann krummi fyrir okkur.
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og innri friðar.

Engin ummæli: