10 október 2007

Illur grunur

Haldiði ekki að Valur hafi hringt í mig í kvöld utan af sjó til að segja mér að kokkurinn á bátnum þyrfti að tala við mig. Drengurinn er þá búinn að vera að væla í honum um að búa til baunajafning eins og mamma. Ég gaf manninum ítarlega lýsingu á jafningnum góða en síðan fór hann að bara að spjalla um hitt og þetta og lofaði Val auðvitað í hástert ásamt því að fræða mig aðeins um sína hagi. Eftir símtalið læddist að mér illur grunur. Ég ætla rétt að vona að þetta sé ekki sami kokkur og var í fyrra! Þá vildi Valur helst að ég klæddist búrku þegar ég var að sækja hann eða keyra um borð svo kokkurinn sæi mig ekki. Hann væri nefnilega hinn mesti kvennaflagari og minn kæri sonur vildi náttúrulega ekki að móðir hans lenti í klónum á þess háttar kóna. Það skyldi þó aldrei vera að ég hafi verið seld fyrir skál af baunajafningi!!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þarna þekki ég Val frænda minn. Fá sínu fram með öllum klókindum.

Frábært blogg ég lá hérna í krampa í 5 mínútur áður en ég gat skrifað þetta komment.
Ég sé Valla alveg fyrir mér rífast í kokknum um baunajafning.

Nafnlaus sagði...

Ja það veit ég að Adam yrði fljótur að selja mig fyrir einhvern uppáhaldsrétt
Þetta eru matmenn í fjölskyldunni

Netfrænkan sagði...

Ef kokksi hringir og biður um pizzu uppskriftina mína þá verður mér nú hætt að lítast á blikuna. Málfríður það er sama hvað ég reyni, það vantar alltaf eitthvað aðeins upp á að þetta verði eins og hjá mömmu :-) Adam sagði að það sem vantaði væri móðurástin sem færi í matinn :-)