20 apríl 2009

Útkallsæfing

Beth hringdi í mig á laugardagsnóttina og var á leiðinni upp á spítala. Ég hentist í föt og heim til hennar og svo upp á spítala. Hún var tengd við síritann og þar sem hríðarnar voru nokkuð reglulegar þá leit allt út fyrir að sá stutti væri loksins að láta sjá sig. Við nánari athugun reyndist útvíkkun ekki vera nema 1 og smám saman dró úr verkjunum svo við vorum bara sendar heim aftur. Aðeins smáæfing greinilega. Ég var hjá henni allan daginn í gær og nótt og ætla að vera hjá henni þar til yfir lýkur. Skrapp í vinnuna í dag enda allt í rólegheitum hjá henni bara smá verkir sem vonandi þýða að útvíkkunin sé að mallast áfram.
Á sama tíma var ég með fjóra sófagesti, krakka frá Belgíu og Sviss sem eru í skiptinámi í Noregi. Ég skildi þau bara eftir heima og hitti þau smástund í morgun áður en þau fóru. Alveg indæliskrakkar sem skildu betur við sig en þau komu að íbúðinni. Svo teiknuðu þau voða sætt þakkarkort handa mér með sjálfsmyndum af sér :)
Bíllinn er ennþá bilaður svo ég fæ nóga hreyfingu þessa dagana. Er að kenna í Borgartúni á morgnana og labba þangað (bara svona 15 mínútur) klukkan 12 rölti ég til baka á Hlemm og tek strætó í Hafnarfjörðinn á skrifstofuna sem er á besta stað í miðbænum. Svo er það auðvitað strætó til baka að Klambratúni enda stutt að labba þaðan heim. Í morgun bættist við að ég þurfti fyrst að fara heim frá Beth áður en ég fór í Borgartúnið og svo að koma við heima áður en ég fór í Hafnarfjörðinn og það í þessu hífandi roki (og smá rigningu) sem er í dag.
Nú vona ég að sá stutti fari að láta sjá sig, hann átti að koma 18. apríl svo það hlýtur eitthvað að fara að gerast. Ég set inn mynd af honum við fyrsta tækifæri þegar hann er fæddur.

1 ummæli:

Hvar er Axel!!! sagði...

Við bíðum spennt hér í dk eftir fréttum af þessu :) skilaðu kveðju frá okkur til Beth.
Kveða
Sindri,Dilja og Eldar Bóas