31 desember 2008

Tölvusnillingur

Ég held ég sé að breytast í tölvusnilling. Ég er búin að taka tölvuna mína alveg í gegn og nú er hún farin að virka alveg ljómandi vel. Nú síðast lagaði ég hljóðið en það heyrðist varla orðið nokkuð hljóð frá henni. Msn-ið var horfið en Daníel benti mér á að sækja aMSN fyrir Linux og nú er ég loksins aftur komin í samband við umheiminn :) Ellen fannst nú ekkert skrítið að ég væri orðin tölvunörd miðað við tímann sem ég eyði við tölvuna hahahaha.
Nú er ég loksins að verða búin með allan yfirlestur á prófum og lokaskýrslum og er að ganga frá einkunnum. Þá má segja að ég sé formlega komin í jólafrí!
Gleðilegt nýtt ár öll sömul og njótið áramótanna en munið að ganga hægt um gleðinnar dyr!!

30 desember 2008

Nostalgía



Eins og í "gamla" daga....allir að spila "Mario Bros" í einu hahahaha.

27 desember 2008

Bruni (BB)

Ég er illa haldin í dag :( mér tókst að brenna mig á hægri úlnlið og handarbaki þegar ég var að hella mér upp á kaffi í dag. Að sjálfsögðu var atgangurinn svo mikill að kaffikorgurinn var út um allt gólf og skáphurðir. Ellen sagði að mér væri nær að fá mér ekki almennilega kaffivél í staðinn fyrir að sullast þetta á gamla mátann hahaha. Ég ætla nú samt að þrjóskast áfram við uppáhellinguna! Ég hafði það af að skúra eldhúsið með harmkvælum þó og með því að kæla brunann á 2ja mínútna fresti. Nú er ég að fara yfir lokaskýrslur nemenda og þarf að sitja við það í allt kvöld eins og í gærkvöldi. Mesti sársaukinn er farinn þannig að þetta ætti að hafast, bara ein blaðra sem þvælist aðeins fyrir.

25 desember 2008

Aðfangadagskvöld



Þessi mynd var tekin áður en ég lagði til atlögu við jólamatinn. Það endaði með því að ég var komin í rúmið fyrir klukkan ellefu með mígrenikast af ofáti!!!

24 desember 2008

Þorláksmessa



Einar Axels bjargaði jólunum þetta árið með nokkrum rjúpum handa okkur og Valur sá í fyrsta sinn um hamflettinguna og fórst bara nokkuð vel úr hendi.

Síðasti sófagesturinn fór í nótt og nú fær Daníel bláa herbergið yfir jólin. Hér gengur jólaundirbúningur stresslaust fyrir sig enda lítið lagt upp úr stórþrifum. Í gær var laufabrauðið bakað en ég hef held ég aldrei verið svona sein með laufabrauðsbaksturinn sem var sá fyrsti sem Ellen tekur þátt í. Ég náði mér í veturgamalt sauðalæri í Fjarðarkaupum í dag sem nú moðsýður á eldavélinni. Jólagrauturinn er soðinn og tilbúinn fyrir morgundaginn. Hér hefur það orðið að hefð að borða möndlugrautinn í "hádeginu" á aðfangadag. Að venju skundaði ég niður og upp Laugaveginn í kvöld til að fá Þorláksmessustemmninguna. Mér finnst það alveg ómissandi partur af jólaundirbúningnum. Hjálpræðisherinn var á sínum stað að syngja jólalög og alveg mesta furða hvað margir lögðu leið sína í bæinn þrátt fyrir slagviðrið. Hér er ekki skata á borðum og ég hef engin áform um að taka upp þann sið. Lyktin truflar mig svo sem ekkert en má ég þá frekar biðja um sjósigna ýsu með hamsatólg!

16 desember 2008

Lokaspretturinn

Þessi vika silast alveg áfram enda langþráð jólafrí að byrja á föstudaginn. Það er svo sem nóg að gera hjá mér þessa dagana og tíminn ætti því að vera fljótur að líða þó mér finnist það ekki. Ég er í prófyfirsetu fyrir hádegi sem getur stundum dregist fram yfir hádegi. Seinnipartinn er svo íslenskukennsla og þar að auki er ég að fara yfir próf í námskeiðinu sem ég er aðstoðarkennari í í HÍ. Jólastúss hefur því farið hægt af stað hér á bæ og ekki eitt einasta jólaskraut sjáanlegt enn sem komið er. Ég get svo sem gefið Scarlet það hlutverk að vera jólakötturinn til að bjarga málunum. Veit bara ekki hvort hún er nógu ógnvænleg í það hlutverk. Annars er ég ekkert að stressa mig yfir þessu og ætla að baka nokkrar laufabrauðskökur á sunnudaginn. Þá verður Valur kominn heim úr "helvíti" og getur hent upp seríum og skorið laufabrauð.
Myndin hér fyrir neðan er reyndar af mér og það má reikna með að fleiri gamlar myndir birtist fljótlega. Daníel lánaði mér nefnilega skannann sinn og ég bíð spennt eftir að hafa tíma til að skanna inn gamlar og góðar myndir :D

11 desember 2008