27 september 2007

Til hamingju með glaðninginn!!

Ég er á útsendingarlista hjá Núinu. Ef maður svarar pósti frá þeim þá getur maður unnið hitt og þetta. Fyrst var ég voða ánægð þegar ég var að fá póst frá þeim þar sem stóð: Til hamingju með glaðninginn!! Nú tek ég orðið þátt til að skemmta mér yfir þeim glaðningum sem ég vinn. Um daginn fékk ég tvær vikur fríar í SKVASSI!! Já já ég í skvassi, glætan! Það myndi þurfa að skafa mig upp af gólfinu eftir hálfan tíma í svoleiðis sjálfspíningu ef ég væri ekki rotuð eftir að hafa fengið boltann í hausinn. Annar vinningur var 15% af naglaásetningu muahahahahaha ég með langar neglur. Það mætti reyna það á mér þegar ég verð orðin liðið lík og á leiðinni í gröfina. Annars fór ég í fótsnyrtingu síðasta mánudag (bingóvinningurinn minn síðan í vor) og reyndist vera með svona svakalega flottar tær og táneglur að konan stakk upp á því að ég fengi mér svona skraut á táneglurnar ha ha ha ha. Kannski ég taki upp á því næsta sumar að ganga í opnum sandölum með skartaðar neglur (ekki kartneglur). Maður verður víst að tjalda því sem til er og fyrst ég er með svona svakalega fínar tær þá er eins gott að láta þær sjást almennilega he he he.

26 september 2007

Komin á ferð....

Það er bara ekkert lát á frábærum hlutum í mínu lífi. Nú fékk ég póst frá formanni Samfélagsins (félag framhaldsnema) með boð um að ríða á vaðið á fyrstu samdrykkju vetrarins 18. okt. og kynna rannsóknina mína. Að sjálfsögðu þakkaði ég gott boð og fer strax að undirbúa mig. Bara fínt fyrir mig að þurfa að taka saman það sem ég er búin að komast að. Nú og svo fékk ég íslenskukennslu á Grund kl. 8 - 9 fimm morgna í viku sem er aldeilis gott aðhald fyrir mig til að druslast á lappir á skikkanlegum tíma á morgnana. Svo er þetta rétt hjá háskólanum þannig að staðsetningin gæti ekki verið betri. Hjólin eru sko meira en tekin að snúast þau eru bara komin á góðan snúning.

25 september 2007

Hjólin farin að snúast

Ja hérna það er bara allt að gerast hjá mér. Ég fékk tilboð áðan frá henni Adrijenne sem ég var að aðstoða aðeins í vor. Hún er að sækja um styrk frá Rannís fyrir rannsóknina sína um útrás Íslendinga og var að spyrja mig hvort ég vildi verða aðstoðarmaður hennar ef hún fær styrkinn. Þetta yrði ekkert svo mikið, bara 50 klukkutímar en maður minn hvort ég vil!! Frábært tækifæri fyrir mig því hún er að vinna við mannfræðideildina í Árósum og heldur utan um allt doktorsnámið í Danmörku. Fyrir utan að vera frábær kona sem ég kann mjög vel við, já og svo þekkir hún Robert í Finnlandi, var með honum í íslensku fyrir útlendinga í HÍ 1994 minnir mig. Nú krosslegg ég bara fingur að hún fái styrkinn. Já og svo er best að auglýsa fyrir hana því hún er væntanleg sem gestakennari við HÍ í nóvember og vantar litla íbúð fyrir sig og manninn sinn. Ef einhver er tilbúinn að leigja þeim íbúð frá 5. nóv. til 5. des. eða að skipta á íbúð við þau í Árósum þennan mánuð þá hafið endilega samband við mig. Líka ef þið vitið um einhvern sem hefði áhuga á því. Aldeilis fínt tækifæri fyrir þá sem eiga ættingja í Árósum (fullt af þeim í fjölskyldunni) að taka mánaðarfrí í Danmörku.

24 september 2007

Nýtt líf

Jæja þá er ég byrjuð nýtt líf. Formlega hætt á sambýlinu og farin að kenna íslensku fyrir útlendinga hjá Alþjóðahúsi. Enn sem komið er kenni ég einum hópi en ég reikna með að fá fleiri á næstunni. Heilsan er smám saman að koma til baka. Ætli ég sé ekki komin í svona 50% orku en í þar síðustu viku var hún ekki nema 10% þannig að ég er á uppleið. Verð samt að passa mig á því að fara mér hægt svo ég fái ekki bakslag. Ég fékk grænt ljós á að fresta útskrift þar til í vor þannig að þá er sú pressa frá. Það var eiginlega ekki fyrr en í síðustu viku sem ég áttaði mig á hvað ég var búin að ganga nærri mér líkamlega. Svo nærri mér að ég þurfti að endurskoða líf mitt algjörlega. Ég er samt mjög sátt við þá endurskoðun og hlakka til að takast á við ný verkefni. Það verður svo bara að koma í ljós hvernig mér gengur að skrapa saman fyrir reikningum. Hingað til hefur það bjargast og ætli það geri það ekki áfram, ég ætla að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur.

19 september 2007

Nálykt í nösum

Á mánudag fór að bera á undarlegum fnyk í kjallaranum sem olli okkur Adam miklum heilabrotum. Í gær hafði þessi viðbjóðslegi fnykur magnast það mikið að hann lagði um allt hús. Mér var orðið um og ó því fýlan minnti mig á nályktina sem lagði um allt þegar hann Kalli minn dó í kjallaraherberginu sínu. Ég var alvarlega farin að íhuga að brjótast inn hjá leigjandanum sem tók við herberginu þegar Kalli var allur og var farin að halda að það hvíldu einhver álög á þessu blessaða herbergi svo þeir sem þar byggju enduðu ævi sína þar. Sem betur fer ákvað ég nú að fara fyrst inn í herbergið hans Vals og þar mætti mér hreinlega veggur af þessum ógeðslega fnyk. Það fyrsta sem mér datt í hug var að nú hefði frystikistan dottið aftur úr sambandi eins og í vor þegar allur humarinn sem Valur var búinn að nurla saman eyðilagðist. Ég opnaði kistuna en guð sé lof þá var þar allt eðlilegt og gaddfreðið. Þá fór ég að leita að upptökum fýlunnar og viti menn, sé ég ekki plastpoka á gólfinu við hliðina á kistunni með einhverjum pakkningum í. Haldið þið að það hafi ekki verið humarinn hans Vals sem hann er búinn að vera að safna í haust!! Það lá við að kvikindin skriðu á móti mér svo úldnir voru þeir orðnir. Ég held að herra Valur ætti bara að hætta að koma heim með humar því hann virðist allur enda í ruslatunnunni. Ég var samt grútsvekkt því ég var búin að plana að elda dýrindis veislu úr skötusel og humri næst þegar hann kæmi í land. Jæja það verður þá bara skötuselsveisla í þetta skiptið. Sem betur fer eru heldur ekki álög á herberginu hans Kalla.

16 september 2007

Jethro Tull

Ég fór á frábæra tónleika með Steini vini mínum í kvöld. Við vorum sko búin að tryggja okkur miða á Tullinn fyrir löngu síðan og þeir klikkuðu ekki. Ian gamli skoppaði um sviðið með þverflautuna eins og unglingur en ekki sextugur gamlingi og sagði sögur á milli laga. Það vantar ekki húmorinn í karlinn né hina, þeir geisluðu allir af húmor og spilagleði enda var mikil stemming í troðfullum salnum alveg frá því þeir birtust á sviðinu. Ég er sko ekkert feimin við að klappa og góla á frábærum tónleikum. Ég læt fylgja með 16 ára gamalt sýnishorn af tónleikum hjá þeim svo þið fáið smá nasaþef af því hvernig þeir eru á sviði og heyrið stemminguna hjá áhorfendum. Þeir hafa pottþétt ekkert misst dampinn síðan þá. Já og Steinn: takk fyrir frábært kvöld, ég lofa að missa mig ekki í nammið þitt á næstu tónleikum sem við förum á ;-)

15 september 2007

Einstein páfagaukanna

Páfagaukurinn Alex er víst horfinn til fiðraðra feðra sinna. Þetta myndband ætti að vekja áhuga páfagaukavina í fjölskyldunni. Brúsi og Pippilínus verða heldur betur að spýta í fæturna ef þeir eiga að ná viðlíka árangri.