13 september 2009

Ítalska dramað

Í ágúst fékk ég hjálparbeiðni á sófagestasíðunni frá ítalskri konu sem hafði komið til landsins í boði gamallar vinkonu (hún er líka ítölsk) sem eins konar au pair í 3 vikur. Planið var að hún passaði börnin hennar þrjú svona 5 - 6 tíma á dag og gæti svo túristast þess á milli. Annað kom á daginn þegar hún var kominn til landsins og hún endaði í algjörri þrælavinnu 11 tíma á dag. Ekki var nóg með að hún þyrfti að passa börnin heldur stóð hún í stórhreingerningum upp á hvern dag því bæði var húsið alltaf fullt af sófagestum og gestum í Bed and Breakfast sem frúin rekur. Einn daginn eftir uppákomu milli þeirra að ítölskum sið fékk mín nóg og sendi út neyðarkall. Ég svaraði því og þannig fékk ég einn af mínum skrautlegu og skemmtilegu sófagestum í heimsókn :)
Hún mætti útkeyrð og vansvefta og næsta dag var hún orðin fárveik með hita og var rúmliggjandi í 3 daga. Frúin hringdi reglulega og reyndi að lokka hana til sín aftur án árangurs auðvitað. Hún leigir líka út heimilisbílana og þær höfðu verið búnar að ganga frá því að Vale og tveir aðrir Ítalir fengju bíl á leigu og stóð við það. Ekki leist mér nú á gripinn enda pústið ónýtt og hávaðinn eftir því. Upphófust nú hringingar og ítalskur æsingur og á endanum var bíllinn tekinn aftur og lappað upp á pústið áður en þau lögðu í hann hringinn í kringum landið og fóru fyrst suðurleiðina.
Þau komust á Mývatn en þá datt stýrið hreinlega af. Þar voru þau nú strandaglópar og Frúin sagði þetta ekki vera sitt mál, þau gætu bara skilið bílinn eftir þarna og sett lyklana í geymslu á hótelinu. Enn voru þrír dagar eftir af leigunni en hún þvertók fyrir að endurgreiða þeim þá daga.
Annar samferðamaður Vale er lögfræðingur sem skilur ekkert hvað lögfræðingar gera á Íslandi fyrst það eru ekki nema tvö til þrjú morð á ári hahhahahaha. Hann var að sjálfsögðu ekki sáttur við að fá ekki endurgreitt og eftir mörg símtöl og ítalskan æsing hafði hann það loks í gegn að fá þessa þrjá daga endurgreidda.
Nú var loks komið að því að Vale myndi yfirgefa þetta (að því að henni fannst) guðsvolaða land en nei þá tók nú ekki betra við. Daginn áður en hún átti flug fékk hún tölvupóst frá Iceland Express þar sem þeir tilkynntu að flugið hennar klukkan 7 morguninn eftir hefði verið fellt niður og hún væri bókuð klukkan 17 í staðinn. Þá fékk mín nú fyrst taugaáfall því hún átti bókað flug frá London til Bologna klukkan 15. Sú litla enska sem hún getur talað hvarf gjörsamlega og hún grét og barmaði sér svo ég tók það að mér að tala við British Airways til að reyna að fá breytt fluginu. Þeir voru afskaplega almennilegir þar og breyttu fluginu þar til morguninn eftir þrátt fyrir að búið væri að loka fyrir breytingar. Að vísu þurfti hún að borga ein 200 pund á milli því auðvitað voru bara dýrustu sætin eftir. Ég bauð henni að vera hjá mér í tvo daga í viðbót til að fá ódýrara far en í hysteríunni vildi hún bara komast frá þessu hræðilega landi strax. Þegar svo átti að borga mismuninn með kreditkorti þá reyndist hún bara vera með debetkort. Afgreiðslumaður British Airways heyrði viðbrögðin þegar ég útskýrði fyrir henni að hún gæti ekki borgað með því nema rafrænt og var svo elskulegur að bjóða henni að borga bara þegar hún kæmi á flugvöllinn í London.
Ekki er allt búið enn, ég ákvað að keyra hana á flugvöllinn til að vera viss um að hún kæmist örugglega úr landi því ef eitthvað kæmi upp á þá var hún nánast mállaus og hysterísk. Þegar við komum á völlinn þá sé ég að búið er að FLÝTA fluginu án þess að láta hana vita. Brottför var nú 16.20 í stað 17!!!! Eins gott ég var með henni! Á endanum komst hún svo úr landi og gisti á flugvellinum í Gatwick um nóttina og komst heilu og höldnu til Ítalíu daginn eftir.

30 ágúst 2009

Haustið í nánd

Ingileif benti mér á að ekki hefðu allir gefist upp á því að kíkja hér inn og það gladdi mig mikið. Svo nú er sumarfríið búið hjá Netfrænkunni sem lofar að skrifa hér oftar. Eftir danska daga og austurferð lagðist ég í tveggja vikna pest og síðan hefur verið fullt hús af gestum eins og vanalega :) Eins og er eru tvær miðaldra sænskar frúr hjá mér á vegum sonar annarrar þeirra en hann er í sófaklúbbnum og bað mig fyrir þær. Þær eru afskaplega viðkunnanlegar og þægilegar konur sem reka saman fótaaðgerðastofu í Jönköping svo nú á ég heimboð í gestahúsið hennar Moniku og fótanudd- og snyrtingu hjá þeim ef ég fer í Svíþjóðarreisu. Í gærkvöldi buðu þær mér út að borða á Indian Mango sem er alveg frábær staður. Þær voru búnar að bjóða mér fyrr í vikunni en vildu ekki segja mér hvaða staður það væri því þær vildu koma mér á óvart. Mér fannst þetta ægilega spennandi og var búin að bíða spennt eftir þessu. Það var því mjög ánægjulegt þegar þær stoppuðu fyrir framan Indian Mango því ég hef einu sinni farið þangað áður og er mjög hrifin af þessum stað. Í dag eru þær í Gullfoss og Geysi ferð í glampandi sól og blankalogni og eru held ég bara afskaplega ánægðar með þessa Íslandsferð sína. Sonurinn sendi mér skilaboð áðan því enginn hefur heyrt í þeim frá því þær fóru síðasta mánudag og hann var greinilega orðinn áhyggjufullur hahahaha.
Ég er nýbúin að upplifa annað ítalskt drama sem ég get sett í bókina mina sem ég mun skrifa á efri árum um sófagestaævintýrin mín. Sú saga kemur hér fljótlega.

11 júlí 2009

Danskir dagar




Hersingin á Sægreifanum.
Freya úðaði í sig harðfisknum sem Danirnir voru ekkert sérlega spenntir fyrir. Henni þótti Hrefnukjötið líka gott :)


Það hafa svo sannarlega verið danskir dagar hér í Einholtinu síðustu vikuna. Sebastian og Miriam, danskir sófagestir, komu á sunnudagskvöld. Jakob mágur Sigurbjargar og Rasmus komu á mánudag. Á þriðjudagsmorgun fóru Sebastian og Miriam en þá komu Jósef og Ása tengdaforeldrar Sigurbjargar. Á miðvikudag komu Sigurbjörg, David og Freya og Carsten vinur þeirra með 10 ára dóttur sína Lærke þannig að þá nótt gistu 8 manns hjá mér og gekk bara vel. Svo heppilega vill til að Valur er úti á sjó svo ég tók herbergið hans traustataki og sendi Jakob, Rasmus og David þangað. Þeir höfðu það afskaplega notalegt í kjallaranum með tölvu, tónlist og sjónvarp og gátu fengið sér öl í friði hahahaha. Öll hersingin fór út að borða á miðvikudagskvöldið á Sægreifann sem sló heldur betur í gegn. Hvalkjötið þótti algjört lostæti og humarsúpan ekki síðri. Í dag fækkar í hópnum því foreldrar Davids og Jakob og Rasmus leggja af stað austur á bóginn. Ég ætla að keyra austur á morgun og tek Beth og Travis með. Svo hittumst við öll á Egilsstöðum í afmælismat hjá Kristínu systur á mánudagskvöldið. Þetta er búið að vera alveg rosalega gaman að hafa þau öll hérna og verið ótrúlega lítið mál þrátt fyrir lítið pláss.

20 maí 2009

Travis



Ég gisti hjá Beth og Travis litla á laugardagskvöldið, vorum með Júróvisjón partý að sjálfsögðu. Hann er búinn að vera með magakveisu en er eitthvað að lagast. Er farinn að skreppa út í göngutúr og sefur eins og engill á eftir.

Starraflærnar eru byrjaðar að hrella mig. Það er sjálfsagt hreiður í þakrennunni beint fyrir ofan svefnherbergisgluggann minn. Ég get ómögulega sofið með lokaðan glugga sem þýðir að ég vakna útbitin á morgnana. Nú tek ég ofnæmistöflur fyrir svefninn og finn minna fyrir því.

Ég byrjaði að kenna í Keflavík í morgun. Er að kenna mánudaga - föstudaga frá 10 - 12 atvinnulausum útlendingum. Kláraði námskeiðið í Reykjavík í gær og við ákváðum að hafa útskriftina úti í góða veðrinu. Löbbuðum um miðbæinn eins og túristar. Þau grínuðust með að þau ættu eiginlega að haldast í hendur eins og leikskólakrakkar. Ég var auðvitað leiðsögumaðurinn og fræddi þau um hitt og þetta þar á meðal Alþingishúsið sem ekkert þeirra vissi hvar var. Við komum við í Ráðhúsinu og skoðuðum stóra kortið af Íslandi og sáum ljósmyndasýningu um íslenskt mannlíf, náttúru o.fl. Við enduðum svo í garðinum á kaffi Hressó og þar var þessi fína útskriftarathöfn með munnlegu prófi sem allir stóðust, misvel auðvitað. Þau gáfu mér blóm og hálsmen og eyrnalokka þessar elskur. Þetta var alveg einstaklega skemmtilegur hópur og ég er strax farin að sakna þeirra.

Ég var með tvo skemmtilega sófagesti frá Napólí sem fóru frá mér í morgun. Í dag er þýskur ljósmyndari hjá mér og á morgun kemur ung kanadísk kona sem er að fara á sumarnámskeið í íslensku í Háskólanum. Á föstudagskvöldið er planið svo að skreppa á tónleika með hjónum frá Kanada. Einn fyrrverandi nemendinn minn er í hljómsveitinni Esju sem er að spila þá um kvöldið. Sem sagt nóg að gera hjá mér þessa dagana. Á morgun ætla ég að kíkja á kaffihús með Kai (ljósmyndaranum) og líta svo aðeins við hjá Beth og Travis.

30 apríl 2009

Heim á ný

Loksins fékk Beth að fara heim af fæðingardeildinni í dag. Það gekk eitthvað erfiðlega að ná niður blóðþrýstingnum en á þriðjudag fékk hún ný blóðþrýstingslyf sem virðast virka betur. Hún var alveg búin að fá nóg eftir viku spítalamat og sjúkrarúm. Ekki slæmt að komast heim í rúmið sitt og matinn hennar Önnu Gerðar ;) Að öðru leyti hefur hún það fínt og skurðurinn grær vel. Sá litli dafnar prýðilega og var held ég bara ánægður að koma heim til sín. Fyrsta nóttin er að vísu ekki ennþá liðin. Ég kíkti aðeins við hjá þeim í kvöld og sníkti auðvitað mat hjá Önnu. Ég var að kenna í nágrenninu en það var að byrja nýtt námskeið hjá mér sem ég kenni frá 19 - 21. Svolítið strangir dagar framundan en þetta verður nú bara þar til viku af júní.
Ég er búin að vera bíllaus frá því fyrir páska en fékk loksins hjólalegu í gær. Aron ætlar að skipta um hana fyrir mig svo kannski fæ ég bílinn um helgina. Það hefur svo sem verið fínt að labba enda hefur mér ekki veitt af hreyfingunni og orkan aukist heilmikið en það tekur óskaplegan tíma að komast á milli staða og fyrst ég er byrjuð að kenna þetta kvöldnámskeið þá verð ég eiginlega að vera á bíl annars kemst ég aldrei í háttinn fyrir miðnætti.
Valur er úti á sjó núna og enn á nýjum bát, Sighvati GK. Hann er svo heppinn að skipstjórinn á Páli Jónssyni spurði hann hvort hann mætti ekki mæla með honum við aðra skipstjóra sem Valur sagði auðvitað sjálfsagt og það hefur sannarlega skilað sér. Þetta er annar skipstjórinn sem hringir í hann. Ennþá hefur hann bara fengið afleysingar enda ekki mörg pláss sem losna en hann er nokkuð öruggur um fast pláss á einhverjum af Vísisbátunum um leið og það losnar.

24 apríl 2009

Fæðingarsagan



Beth fékk verki klukkan 8 á miðvikudagskvöldið og um 11 voru þeir orðnir reglulegir með 7 mínútur á milli. Við ákváðum því að drífa okkur á spítalann í Hreiðrið en þar sem blóðþrýstingurinn var mjög hár vorum við sendar yfir á fæðingarganginn. Þar kom í ljós að útvíkkun var ennþá bara einn sem venjulega þýðir að konan er send aftur heim en blóðþrýstingshækkunin gerði það að verkum að það var ákveðið að hún færi ekki heim að svo stöddu. Hún fékk lyf til að lækka blóðþrýstinginn og verkjalyf til að ná að sofa. Hún var með stöðugar hríðir og um morguninn var útvíkkun komin í 3 en sá litli var orðinn þreyttur og búinn að hafa hægðir í legvatnið. Þá var ákveðið að sprengja belginn, við það hörðnuðu hríðirnar mikið og blóðþrýstingurinn hækkaði aftur verulega hjá Beth. Til þess að ná honum niður var ákveðið að hún fengi mænudeyfingu, þar sem það var frídagur voru færri á vakt svo hún þurfti að bíða þó nokkurn tíma áður en mænudeyfingin kom. Allan daginn var hún með harðar hríðar en leið betur út af mænudeyfingunni. Um fimmleytið voru þau bæði orðin mjög þreytt en útvíkkun var enn bara 4 svo það var ákveðið að taka hann með keisaraskurði. 17.40 kom hann svo loksins í heiminn og ég fékk hann í fangið og hélt á honum meðan verið var að ganga frá skurðinum. Ég grét að sjálfsögðu þvílíkt en sem betur fer var ég með grímuna svo horið var ekki út um allt hahahahaha og svo byrjaði hann á að pissa á mig sem er víst mikil blessun sagði Beth :D Hún fékk hann svo í fangið um leið og við vorum komnar út af skurðstofunni og lagði hann strax á brjóst sem hann var ægilega ánægður með :D Hún fær einhverja nýja verkjameðferð sem þýðir að hún fær líklega að fara heim eftir 2 til 3 daga og fær þá ljósmóður heim daglega. Anna Gerður kemur til hennar á laugardagskvöldið og verður í einhverja daga hjá henni Beth til mikillar gleði.

23 apríl 2009

Lítill keisari kominn



Ég grét og hann pissaði á mig þegar hann fæddist :D
Núna er ég alveg búin á því eftir að vaka í nærri 40 tíma svo ég læt myndina nægja að sinni. Sá stutti var rétt rúmar 12 merkur og 50 cm. Þeim heilsast vel en eru auðvitað bæði mjög þreytt, ekki síst Beth.