31 desember 2008

Tölvusnillingur

Ég held ég sé að breytast í tölvusnilling. Ég er búin að taka tölvuna mína alveg í gegn og nú er hún farin að virka alveg ljómandi vel. Nú síðast lagaði ég hljóðið en það heyrðist varla orðið nokkuð hljóð frá henni. Msn-ið var horfið en Daníel benti mér á að sækja aMSN fyrir Linux og nú er ég loksins aftur komin í samband við umheiminn :) Ellen fannst nú ekkert skrítið að ég væri orðin tölvunörd miðað við tímann sem ég eyði við tölvuna hahahaha.
Nú er ég loksins að verða búin með allan yfirlestur á prófum og lokaskýrslum og er að ganga frá einkunnum. Þá má segja að ég sé formlega komin í jólafrí!
Gleðilegt nýtt ár öll sömul og njótið áramótanna en munið að ganga hægt um gleðinnar dyr!!

30 desember 2008

Nostalgía



Eins og í "gamla" daga....allir að spila "Mario Bros" í einu hahahaha.

27 desember 2008

Bruni (BB)

Ég er illa haldin í dag :( mér tókst að brenna mig á hægri úlnlið og handarbaki þegar ég var að hella mér upp á kaffi í dag. Að sjálfsögðu var atgangurinn svo mikill að kaffikorgurinn var út um allt gólf og skáphurðir. Ellen sagði að mér væri nær að fá mér ekki almennilega kaffivél í staðinn fyrir að sullast þetta á gamla mátann hahaha. Ég ætla nú samt að þrjóskast áfram við uppáhellinguna! Ég hafði það af að skúra eldhúsið með harmkvælum þó og með því að kæla brunann á 2ja mínútna fresti. Nú er ég að fara yfir lokaskýrslur nemenda og þarf að sitja við það í allt kvöld eins og í gærkvöldi. Mesti sársaukinn er farinn þannig að þetta ætti að hafast, bara ein blaðra sem þvælist aðeins fyrir.

25 desember 2008

Aðfangadagskvöld



Þessi mynd var tekin áður en ég lagði til atlögu við jólamatinn. Það endaði með því að ég var komin í rúmið fyrir klukkan ellefu með mígrenikast af ofáti!!!

24 desember 2008

Þorláksmessa



Einar Axels bjargaði jólunum þetta árið með nokkrum rjúpum handa okkur og Valur sá í fyrsta sinn um hamflettinguna og fórst bara nokkuð vel úr hendi.

Síðasti sófagesturinn fór í nótt og nú fær Daníel bláa herbergið yfir jólin. Hér gengur jólaundirbúningur stresslaust fyrir sig enda lítið lagt upp úr stórþrifum. Í gær var laufabrauðið bakað en ég hef held ég aldrei verið svona sein með laufabrauðsbaksturinn sem var sá fyrsti sem Ellen tekur þátt í. Ég náði mér í veturgamalt sauðalæri í Fjarðarkaupum í dag sem nú moðsýður á eldavélinni. Jólagrauturinn er soðinn og tilbúinn fyrir morgundaginn. Hér hefur það orðið að hefð að borða möndlugrautinn í "hádeginu" á aðfangadag. Að venju skundaði ég niður og upp Laugaveginn í kvöld til að fá Þorláksmessustemmninguna. Mér finnst það alveg ómissandi partur af jólaundirbúningnum. Hjálpræðisherinn var á sínum stað að syngja jólalög og alveg mesta furða hvað margir lögðu leið sína í bæinn þrátt fyrir slagviðrið. Hér er ekki skata á borðum og ég hef engin áform um að taka upp þann sið. Lyktin truflar mig svo sem ekkert en má ég þá frekar biðja um sjósigna ýsu með hamsatólg!

16 desember 2008

Lokaspretturinn

Þessi vika silast alveg áfram enda langþráð jólafrí að byrja á föstudaginn. Það er svo sem nóg að gera hjá mér þessa dagana og tíminn ætti því að vera fljótur að líða þó mér finnist það ekki. Ég er í prófyfirsetu fyrir hádegi sem getur stundum dregist fram yfir hádegi. Seinnipartinn er svo íslenskukennsla og þar að auki er ég að fara yfir próf í námskeiðinu sem ég er aðstoðarkennari í í HÍ. Jólastúss hefur því farið hægt af stað hér á bæ og ekki eitt einasta jólaskraut sjáanlegt enn sem komið er. Ég get svo sem gefið Scarlet það hlutverk að vera jólakötturinn til að bjarga málunum. Veit bara ekki hvort hún er nógu ógnvænleg í það hlutverk. Annars er ég ekkert að stressa mig yfir þessu og ætla að baka nokkrar laufabrauðskökur á sunnudaginn. Þá verður Valur kominn heim úr "helvíti" og getur hent upp seríum og skorið laufabrauð.
Myndin hér fyrir neðan er reyndar af mér og það má reikna með að fleiri gamlar myndir birtist fljótlega. Daníel lánaði mér nefnilega skannann sinn og ég bíð spennt eftir að hafa tíma til að skanna inn gamlar og góðar myndir :D

11 desember 2008

10 desember 2008

Jólaókindur á kreiki

Ég hef verið að segja nemendum mínum frá ýmsum jólaókindum eins og Jólakettinum, Grýlu, Leppalúða og svo gömlu jólasveinunum. Þau horfa á mig með hryllingi enda ekki furða þegar maður fer að spá í það. Ég get ekki ímyndað mér að börnin hafi hlakkað mikið til jólanna hér áður fyrr því þá fóru þessar ókindur á kreik. Ef þú lentir ekki í krumlunum á Grýlu þá var viðbúið að Jólakötturinn næði að læsa klónum í þig. Það skipti ekki máli hvort þeirra náði þér því örlögin voru þau sömu, þú varst étinn!!!

07 desember 2008

Siglt úr höfn

Haldiði að ég hafi ekki fundið vefmyndavél frá höfninni á Rifi
ég get bara fylgst með þegar báturinn sem Valur er á siglir úr höfn. Ég sagði honum að veifa mér þegar hann færi um borð en hann hélt nú ekki hahahaha.

06 desember 2008

Gestagangur

Að vanda hefur verið gestkvæmt hjá mér þessa vikuna. Að vísu óvæntir gestir því Lurdes og Diogo komu óvænt suður í læknastúss og vantaði svefnpláss. Þar sem bláa herbergið var upptekið af rússneska sófagestinum mínum leysti ég málið með því að sofa sjálf á stofusófanum og lánaði þeim rúmið mitt. Þetta var nú bara ein nótt svo það var lítið mál.
Ilya yfirgaf svo landið í dag og nú á ég ekki von á neinum gestum fyrr en eftir viku, þá kemur ungur maður frá Singapore sem er í námi í Bandaríkjunum og verður í þrjá daga síðan ætla ég að taka hlé fram yfir áramót. Ilya náði sérlega góðu sambandi við kisurnar mínar og við áttum skemmtilegar rabbstundir um allt milli himins og jarðar en þó helst ýmsu tengt fornsögunum. Ég var að útskrifa einn hóp í íslenskunáminu og þar vorum við að bera saman jólahefðir heimalandanna sem er mjög áhugavert og skemmtilegt. Að sjálfsögðu yfirheyrði ég Ilya þegar ég kom heim um rússneskar jólahefðir eins og þær voru á tímum kommúnismans og eins og þær eru í dag. Hann er ótrúlega góður að tala íslenskuna en það er greinilegt að hann hefur lesið mikið af fornsögum því hann er oft svolítið forn í tali :) Hann sagði mér frá svolitlu athyglisverðu um íslenskan framburð á ll eða l eins og í bíll og bíl. Þetta hljóð sem verður til þegar við berum það fram finnst bara í löndum eins og Kazakstan og Azerbajdan! Ekkert annað indóevrópskt mál hefur þetta hljóð. Það var svo gaman að tala við hann því hann er svo fróður um allt mögulegt tengt íslenska tungumálinu og víkingatímanum.
Valur er á leiðinni á sjóinn á morgun. Hann fékk afleysingapláss á línubát vestur á Rifi og verður þar næstu 12 dagana en þá fer sá bátur í slipp. Ég er einmitt að verða búin með allan fiskinn minn svo hann getur fyllt aftur á kistuna :)
Í gærkvöldi fór ég á jólahlaðborð á Fjörukránni í Hafnarfirði með honum Binna mínum. Við fórum síðast fyrir tveimur árum síðan og fáum alltaf svo frábæra þjónustu hjá sjálfum eigandanum :) Frábær matur og skemmtilegt andrúmsloft með söng og gítarspili í léttum dúr. Það var alveg troðfullt þarna og engin kreppubragur sjáanlegur á fólki.

30 nóvember 2008

Myrkur og kuldi

Ég gæti sofið endalaust þessa dagana eins og venjulega í desember. Leyfði mér að sofa lengi í dag en ætli það verði ekki síðasti svefndagurinn fram að jólum. Ég er búin að vera með tvær ástralskar stelpur í heimsókn síðustu 3 daga en þær fara í nótt. Á morgun kemur mjög áhugaverður gestur, rússneskur prófessor í forngermönsku sem er búsettur í Kanada og talar íslensku. Hann er að grúska eitthvað í textanum á fornritunum á Árnasafni. Ég hitti hann aðeins á Café Paris á laugardaginn ásamt núverandi gestgjafa hans sem reyndist vera tengdasonur Þorgríms Gestss. Þorri kom að okkur lepjandi kaffi þegar kl. vantaði 5 mín. í þrjú og við vorum auðvitað rekin af stað til þess að missa ekki af mótmælunum og Iliya að sjálfsögðu með okkur. Mikið helv. var kalt!!!! Meira að segja Rússinn var að frjósa í hel.
Hér á bæ hefur að sjálfsögðu verið dregið úr útgjöldum í matarinnkaupum og hafa kisurnar ekki heldur sloppið við sparnaðaraðgerðir. Mér varð það á að kaupa ódýran euroshop kattamat en þær svelta sig frekar í hel en borða hann. Scarlet er stöðugt að opna skápinn þar sem ég geymdi einu sinni kattamatinn til að gefa mér til kynna að hún vilji ekki sjá það sem er í dallinum og það er horft á mig ásökunaraugum þegar ég loka aftur og þykist ekki skilja hvað hún er að gefa í skyn. Það lítur út fyrir að ég verði að gefa mig og kaupa frekar dýrari matinn handa þeim.
Á þriðjudag byrjar svo yfirsetan í prófunum!

24 nóvember 2008

Farvel

Þá er Mogens floginn á braut og ég þarf að byrja nýja morgunrútínu og hella sjálf upp á kaffið. Þegar ég fer næst til Köben verður bókastöflunum rutt úr sófanum hans til þess að koma mér fyrir þar :D Henrik og Kirsten hringdu í mig í gærkvöldi til að kveðja og bjóða mér í heimsókn þegar ég kem til Danmerkur, þessar elskur. Enn og aftur er ég búin að kynnast hreint frábæru fólki í gegnum sófagestasíðuna.
Ég sé fram á nokkuð rólega viku og ætti því að ná að slappa aðeins af áður en prófyfirsetan byrjar í næstu viku. Þá verður það stress fram að jólum.

23 nóvember 2008

Kátt í koti

Þessi vika er búin að vera ótrúleg. Ég hef varla haft tíma til að anda eða spjalla við sófagestina mína. Ég gleypi í mig morgunmatinn með Mogens og er svo rokin og sé hann ekki fyrr en seint á kvöldin. Hann er svo að fara á morgun.
Ég átti samt góðan laugardag með honum um daginn þegar við fórum á opnunina á sýningunni. Fyrst mættum við samviskusamlega á mótmælin og ég sendi hann til að taka myndir af stemmningunni. Á eftir fórum við á sýninguna og hittum Henrik og frú sem eru eitt það yndislegasta fólk sem ég hef kynnst. Eftir sýninguna var það kaffi hjá þeim á meðan við biðum eftir að matarboðið byrjaði. Spænska tengdafólkið sem er víst tengdafólk dóttur Henriks var með í för svo við þurftum tvo bíla til að komast í matarboðið sem var haldið af sonum Sveins heitins. Það var alveg meiriháttar gaman enda Henrik hrókur alls fagnaðar að vanda og um kvöldið tróðu þeir bræður upp með honum með gítarspil og söng. Hann kenndi þeim nefnilega að syngja lög á ítölsku, dönsku og spænsku þegar þeir voru litlir og þetta var alveg stórkostlegt. Henrik er einn af þeim fáu sem hefur varðveitt barnið í sér þó hann sé kominn vel yfir sjötugt og gerir sér alltaf far um að eyða tíma með krökkunum. Hann vílar ekki fyrir sér að rúlla sér niður brekku ef sá gállinn er á honum og krakkarnir hreinlega dýrka þennan skrýtna kall sem er einn af þeim :D Mér finnst hreinlega forréttindi að fá að kynnast honum og Kirsten. Þau voru kærustupar þegar þau voru unglingar en giftust svo öðrum. Þegar þau voru bæði búin að missa maka sína náðu þau saman aftur og eru eins og ástfangnir unglingar :)
Best að elda kvöldmatinn. Mogens kom með fullan poka af lambakótilettum, sagðist ekki hafa þorað annað því það væri aldrei að vita hvað væru margir í mat hérna hahaha. Ég eldaði taílenskan kjúklingarétt í gær og var í því að bæta við diskum því alltaf bættist einhver við.

14 nóvember 2008

Mótmælastaða og kokkteilboð

Henrik hringdi í gærkvöldi með breytt plan. Hann hafði verið að tala við konuna hans Einars Más og við eigum því fyrst að mæta í mótmælastöðu. Opnuninni seinkar því um klukkutíma. Mogens er búinn að vera að telja upp allt það mektarfólk sem mætir svo þetta verður ábyggilega mjög athyglisverður dagur hjá mér. Hann fór í dag með Henrik og frú og spænska tengdafólkinu í humarsúpu á Sægreifanum í hádeginu. Ég var búin að senda hann þangað og hann hreifst auðvitað af staðnum eins og allir sófagestirnir mínir gera :)

12 nóvember 2008

Full Monty

Ég fékk þessa skondnu fyrirspurn í íslenskutímanum í dag frá einum kvenkyns nemanda mínum, konu á fimmtugsaldri. Gulla! Ísland maður striptease? Það tók mig smástund að skilja hver spurningin væri og vakti þetta mikla kátínu í tímanum. Hún var alveg hissa á því að það væru bara staðir þar sem konur strippa og er greinilega orðin langeyg eftir að sjá íslenskt lambhrútakjöt í allri sinni dýrð. Ég sagðist nú lítið vita um þetta en rámaði í að hafa séð viðtal við einhvern karlstrippara í Grindavík í einhverju blaði fyrir stuttu síðan. Henni leist nú ekki á að leita hann uppi þar og sagði svo að þetta væri allt í lagi því hún væri á leiðinni heim í frí og myndi bara kíkja á strippstað þar hahahahaha
Hér er kannski atvinnutækifæri fyrir íslenska full monty karla í kreppunni ;)

Svantes lykkelige sang

Nýjasti sófagesturinn minn er 64 ára gamall danskur ljósmyndari og fornbókasali frá Kaupmannahöfn (eins og þið sjáið þá eru sófagestir á öllum aldri). Vinur hans listmálarinn Henrik Vagn Jenssen er að opna sýningu í Hafnarborg á laugardaginn í tengslum við sýningu á myndum Sveins Björnssonar og einhverjum samtíðarmönnum hans í Danmörku. Ég er sem sagt boðin á opnunina á laugardaginn ásamt útvöldu fyrirfólki auðvitað ;) Ef ég skil Mogens rétt þá erum við boðin í kvöldmat á eftir með Henrik og spænskri eiginkonu hans og fjölskyldu hennar. Fékk líka boð í mat til þeirra á föstudaginn en var nýbúin að ráðstafa deginum þegar það kom. Það er ósköp huggulegt að fá sér morgunkaffið með Mogens og spjalla um lífið og tilveruna "livet er ikke det værste man har, om lidt er kaffen klar". Hann þræðir auðvitað fornbókasölurnar hérna og vonast til að finna einhverja gullmola á spottprís til að selja í búðinni sinni í Köben.
Já maður er aldeilis að forframast í félagsskapnum :)

09 nóvember 2008

Með hor í nös og krepputal

Ég er búin að liggja í rúminu alla helgina og snýta mér í heilu klósettrúllurnar en er eitthvað að skríða saman sem betur fer. Nú er ég komin yfir í hvítlauks og hunangskúrinn. 

Nú heyri ég í fréttunum að það séu komnar neyðaráætlanir í skólum vegna kreppunnar til að fylgjast með hvort börnin komi með lélegra nesti eða hætti að borða heitan mat. Mér varð nú hugsað til nestispakkans hans Vals á sínum tíma sem þótti víst ekki merkilegur. Ávextir voru munaður enda Bónus og aðrar lágvöruverslanir ekki til og hvað þá mæðrastyrksnefnd og ef boðið hefði verið upp á heitan mat á þeim tíma hefði hann örugglega ekki getað nýtt sér það. Nógu erfitt var að skrapa saman fyrir mjólkurmiðum fyrir mánuðinn. Einhvern tíman var svo hart í búi hér á heimilinu að ég bakaði kleinur til að hann fengi eitthvað nesti með sér og viðbrögð skólans voru skammir fyrir lélegt nesti. Nú þurfa margar fjölskyldur að upplifa raunveruleika einstæðra foreldra (sem oft heyrist að hafi það svo gott) og þá er það allt í einu orðinn skelfilegur raunveruleiki. Ég var einmitt að rifja það upp með Val hér áðan að oft var hvítur sykur eina áleggið sem til var á brauðið í lok mánaðarins. Ekki það að ég sé eitthvað mótfallin því að fylgst sé með hvort börn fái ekki nægan mat og reyndar finnst mér að öll grunnskólabörn eigi að fá ókeypis heitan mat í skólanum. Samt sem áður er ég á því að með því að hamra stöðugt á hvað kreppa sé skelfileg að þá sé verið að senda börnum skilaboð um að peningar skipti öllu máli. Í staðinn fyrir að horfa stöðugt á hvað ekki sé lengur hægt að leyfa sér þá finnst mér mikilvægara að horfa á hvað hægt er að leyfa sér án þess að það kosti krónu. Það þarf hreinlega hugarfarsbreytingu.

05 nóvember 2008

Nýja Valbjörg

Skilaboð til fjölskyldunnar: Ef þið smellið á Valbjargar linkinn þá ætti nýja síðan að koma upp. Ég var að lagfæra stillingarnar. Látið mig vita ef þið komist ekki inn á hana.

Ég var líka að setja inn tengla hérna á Netfrænkunni á blogg litlu baunanna þar á meðal glænýja baunans í Árósum :D Það koma örugglega fljótlega inn myndir þar. 

04 nóvember 2008

Spenna í lofti!!!!

Það er aldeilis spenna í gangi núna. Ég tími varla að fara að sofa. Dilja búin að missa vatnið og komin á fæðingardeildina og Obama vonandi að vinna forsetakosningarnar!! 

Reyndar er ég með einhverja kvefpest og neyðist því til að koma mér í háttinn. Nemendur mínir hafa verið afskaplega duglegir að gefa mér hinar ýmsu uppskriftir sem duga gegn kvefi. Núna er ég með tilraunastarfsemi í gangi að setja fjallagrös út í hunang og láta standa í einn dag á hlýjum stað. Veiða svo grösin upp og búa til te. 

Annars er þessi aðferð með hvítlauk (eða lauk segja sumir) í stað fjallagrasanna mjög öflugt kvefmeðal. Svo var einhver uppskrift frá Lettlandi með rauðrófusafa og einhverju sem ég man ekki hvað er. 

Ég fór í dag og óskaði eftir yfirsetu í prófum í HÍ og var tekið opnum örmum enda lækkar meðalaldur þeirra sem sitja yfir verulega með mig innanborðs og er ég þó ekkert unglamb. Man eftir einni í fyrra sem kom á 10 mínútna fresti og spurði hvort hún ætti ekki að leysa mig af. Ég svaraði alltaf á sömu lund að ég myndi hóa í hana ef mig vantaði afleysingu. Held líka að margar þeirra gömlu séu hálf nervusar við tölvuprófin en það er alltaf að aukast að tölvurnar séu notaðar við próftöku. 

En mikið verður gaman þegar litli Sindra- og Diljusonur verður kominn í heiminn :D

02 nóvember 2008

Fiskiveisla

Ég var að átta mig á hvað tíminn flýgur, það er kominn nóvember og nú þarf að finna heppilega dagsetningu fyrir laufabrauðsbakstur. Jiii það eru bara að koma jól!!! Þar sem ég er í harkinu í vinnumálum þá ætla ég að reyna að fá sama djobbið og í fyrra, að sitja yfir í prófum í Háskólanum. Alveg ágætis uppgrip og fínt að fá einhvern aur í janúar. 

Vinafólk mitt frá Danmörku er búið að vera hjá mér síðustu viku en þau eru að fara í nótt og ég á eftir að sakna þeirra. Í gærkvöldi var veislumáltíð hjá okkur því ég á svo mikinn skötusel og humar sem þarf að koma í lóg. Að sjálfsögðu var Brian settur í kokkaríið enda algjör meistarakokkur og nammi namm hvað þetta var gott hjá honum. Ég er að hamast við að borða fiskinn úr kistunni og er langt komin með þorskinn og humarinn. Valur ætlar nefnilega að skella sér á sjóinn aftur eftir áramótin enda lítið að gera smíðavinnunni þó enn hafi hann vinnu við það.

26 október 2008

Pönnukökudagur í Einholtinu

Þá er ég orðin mannfræðingur :D 

Þraukaði gegnum athöfnina í Háskólabíói og fór svo beint heim og lá í spennufalli það sem eftir var dags. Í dag eru það svo pönnsur í tilefni áfangans. Vaknaði tímanlega í morgun til að gefa sófagestinum mínum íslenskar pönnukökur áður en hún færi. Þetta var heilmikil upplifun fyrir hana að sjá hvernig rjómi er þeyttur og pönnukökudeig er búið til. Hún er nefnilega frá Bandaríkjunum og þar kaupa menn bara tilbúið deig og þeyttan rjóma. Þessi sófagestur er fisksali að atvinnu og ekki beint hægt að sjá það á henni. Maður ímyndar sér alltaf fisksala sem gamla karla en hér er ung kona með hring í miðnesinu, tattú og lokka út um allt bak. Stuttklippt með dreadlokka öðrum megin en nauðrökuð á hinum helmingnum af höfðinu. Afskaplega kurteis og viðkunnanleg ung kona en ég verð að viðurkenna að það var ekki gott að sjá hvort hún væri maður eða kona því hún klæðist eins og karlmaður og ekki er sílikoninu fyrir að fara í þessum barmi. Svo heitir hún Jack sem ég hélt að væri karlmannsnafn en það er víst engin mannanafnanefnd í Bandaríkjunum sem ákveður hvað er karlmanns- og hvað er kvenmannsnafn enda er algengt að sömu nöfn eru notuð á karla og konur.

Núna er Kristín systir að koma í pönnsur :)

22 október 2008

Öppdeit

Það er bara búið að vera svo mikið að gera hjá mér að ég hef ekki komist í að blogga. Reyndar var tölvan líka að hrella mig svo ég gat ekkert notað hana um síðustu helgi en nú er ég búin að taka rækilega til á henni og krossa putta að það dugi. Hér er búið að vera gestkvæmt upp á síðkastið, vinir, fjölskylda og sófagestir. Alveg ægilega gaman hjá mér og dásamlegt að geta farið á kaffihús án þess að vera í stresskasti eða með sektarkennd yfir því að slæpast. Ég fór á off venue tónleika með sófagestum í síðustu viku og á sunnudaginn hóaði Adriënne vinkona mín í mig þar sem hún sat á uppáhaldskaffihúsinu okkar Babalú en þar voru aftur off venue tónleikar svona í lok Airwaves. Ég fór einmitt á Babalú með sófagestunum mínum en þar er alveg frábær þjónustustúlka að vinna. Hún er alltaf svo utan við sig og spaugileg. Þegar hún var að leggja hnífapörin á borðið hjá okkur þá fékk hún sér sæti við hliðina á okkur á meðan hahaha, aðeins að hvíla lúin bein.

Fyrripart sunnudags fór ég með Hrefnu, Finni, Bríeti og Rán í verslunarleiðangur í Smáralindina og fleiri búðir í Kópavoginum. Deginum áður hafði ég hitt Betu á kaffihúsi í Kringlunni og náttúrulega gleymdi mér alveg því það er svo langt síðan við höfum hist. Var næstum of sein að sækja Adriënne á BSÍ. Hún var hjá mér þangað til í dag og kemur svo aftur í næstu viku í nokkra daga og þá verður Brian maðurinn hennar með. 

Í gær var ég að klára að búa til veggspjald sem verður á Þjóðarspeglinum í Háskólanum á föstudaginn. Það er stutt kynning á rannsókninni minni. Svo er búið að vera heilmikið stúss í kringum kennsluna hjá mér. 

Á laugardaginn er svo útskriftardagurinn minn!! 

10 október 2008

Skítverkin

Loksins er komin helgi!!! Fyrsta helgin í laaaaaaangan tíma sem ég á fríííí!!

Er byrjuð að stinga út úr "fjárhúsinu" enda kominn tími til. Kettirnir voru meira að segja farnir að þrífa þeim blöskraði svo útgangurinn á heimilinu. Komu með rykbólstrana í hrönnum til mín og ég skildi svo sem að hverju þær væru að ýja enda var ryksugunni fagnað með látum þegar hún fór loksins í gang. Það er búið að vera mikið að gera hjá mér alla vikuna að vinna upp ýmis verk sem hafa setið á hakanum í kennslunni. Ég læri alltaf eitthvað nýtt í íslenskukennslunni og í gær komst ég að því að íslenskir hundar þykja ekki góðir til átu hahahahaha. Í öðrum hópi vorum við að tala um stíflað klósett og skemmti ég nemendunum með sögunni af mér þegar ég ætlaði að losa stíflu úr klósettinu með ryksuguna á öfugum blæstri hér um árið. Veggir, loft, gólf og ég sjálf var útsvínað á eftir en klósettið var enn jafnstíflað hahahahaha. 

Vordís kom frá Danmörku í dag og ætlar að vera hjá mér í 6 daga :D Svo kemur mamma í bæinn á morgun og Beta líka. Frábært að hafa loksins tíma til að sinna gestum. 

Á morgun ætla ég að sofa út. Er lítið sofin eftir vikuna. Alltaf dauðþreytt á kvöldin en um leið og ég leggst á koddann þá PLING er glaðvöknuð. Greinilega ennþá spenna í mér en ætli það fari nú ekki að rjátlast af mér.

06 október 2008

Níu merkur

Sjö marka barnið sem mig dreymdi í sumar reyndist vera níu merkur :)

Já nía varð það heillin ;-) Ég er enn í spennufalli og skýjunum og allt þar á milli hahaha. Ég kippi mér ekki einu sinni upp við að þjóðarskútan sé að sökkva. Pólverjarnir í tímanum hjá mér í dag sögðu að nú væri komið að okkur Íslendingum að flykkjast til Póllands í leit að betra lífi hehehe. Nú kemur sér vel að hafa hangið á horriminni síðustu árin, held því bara áfram. 

Næst á dagskrá hjá mér er að ná meðgönguspikinu af mér. Sund og ganga er ódýr og góð líkamsrækt. 

03 október 2008

Harkaleg fæðing

Jæja þá er þetta afstaðið og það með látum. Skilaði af mér í gær eftir nærri tveggja sólarhringa vöku og er gjörsamlega búin á því. Svaf til klukkan fjögur í dag takk fyrir. Það var stuð á mér í kennslunni í gær, var að kenna til 20 um kvöldið og orðin gufurugluð eftir alla þessa vöku ha ha ha, held ég hafi verið farin að syngja fyrir þau tíhíhí. Nú er bara að aðlagast nýju lífi og njóta þess að vera laus við alla þessa pressu. Ég hlakka til að fara að hitta fólk aftur :D

01 október 2008

Matarboð

Ég átti þennan fína afmælisdag í gær. Var að kenna stanslaust frá 13 til 20 eða þrjú námskeið út um allan bæ. Strax að því loknu var brunað í afmælismat til Ricardo og Tamöru ásamt Gunnari og Val. Ekta mexíkóskur matur og tónlist :D fyrir utan að chilið var sparað til að drepa okkur ekki. Valur þurfti samt að prófa að borða smábita af grænum pipar og var nánast í andarslitrunum á eftir öllum til mikillar skemmtunar. Þau kenndu okkur að borða salt til að draga úr áhrifunum. Þetta var frábært kvöld enda góðir gestgjafar og mikið hlegið og skemmt sér. Tamara skipti um vinnu frá því að vaska upp á kaffi Oliver og færði sig yfir á Santa Maria sem er mexíkóskur veitingastaður á Laugaveginum. Mæli með honum mjög ódýrt og ekta mexíkóskur matur. Ritgerðin er að smella saman bara eftir fínpússning :)

25 september 2008

Er á lífi!

Ég þori ekki annað en að gefa frá mér smá lífsmark, fólk er farið að hafa áhyggjur :-) Ég er enn að ströggla við ritgerðina en NÚNA er loksins farið að sjá fyrir endan á þessu. Ætti að ná að klára um helgina. Ég er líka byrjuð á fullu í kennslunni og er komin með þrjá hópa alla eftir hádegi frá mánudegi til fimmtudags. Á föstudagsmorgnum er ég með hópinn í háskólanum og ætla að láta þetta duga. Fínt að hafa morgnana til að undirbúa kennslu svo ég fái kvöldin frí.

Heimilishjálpin mín er búin að fá vinnu (bæði tvö) og íbúð og flytja sennilega inn á morgun. Þau eru komin til Íslands til að setjast að fyrir fullt og allt og ég ætla að sjá um að kenna þeim íslensku þegar ég verð búin. Ég er náttúrulega búin að tryggja mér "barnabörn" þegar þau koma og ætla að vera íslenska amman :-D 

Valur sá um matseldina í kvöld og steikti snitsel sem beið mín þegar ég kom heim úr vinnunni. Hann langaði í brúnaðar kartöflur með og þessi fyrsta tilraun hans tókst bara ágætlega. Ég var ekki einu sinni nálægt til að hjálpa honum, sem betur fer því ég tek alltaf stjórnina. Hann segist vera kominn með mission, að elda reglulega. Í fyrradag var það bolognese sem er hans spesíalitet. 

Ég lofa því að um leið og ég er búin að skila þá verður það tilkynnt hérna stórum stöfum :-)

Já og Ólöf og Benni, TIL HAMINGJU MEÐ BARNABARNIÐ!!!!!!!

17 september 2008

Au pair

Ég er komin með mexíkóska heimilishjálp, tvöfalda meira að segja. Þetta eru ung hjón sem eru að flytja til landsins og verða hjá mér fyrst um sinn. Hér verður sem sagt mexíkóskur matur á borðum á næstunni og séð um uppvask og þrif fyrir mig jibbbíííí!!!!!!!

Skrifin ganga bara nokkuð vel og 98% öruggt að ég skili á mánudaginn. Í gær leit út fyrir að ég væri að fá pest var með hálsbólgu og dúndrandi höfuðverk. Sauð mér fjallagrasaseyði og dældi í mig C vítamíni og sólhatt og eftir góðan nætursvefn er ég allt önnur. Guði sé lof að þetta er að verða búið!

14 september 2008

Myrkraverk

Það er ekki ljós á einum einasta ljósastaur í götunni hjá mér og má sennilega kenna um framkvæmdunum milli Einholts og Þverholts. Þar sem ekkert hefur verið að gerast í þeim síðustu mánuði þá lítur út fyrir að við verðum ljóslaus lengi enn sem mér líst ekkert á. Í gærkvöldi var ég á leið út í sjoppu í myrkrinu og sá móta fyrir stórum og að því er mér virtist, frekar hoknum manni framundan mér. Ég gekk auðvitað rösklega enda ekkert vel við að paufast þarna í myrkrinu. Sem ég kem upp að hlið mannsins heyrist hátt stutt urr frá honum og trúið mér hjartað tók tíu aukaslög og hárin risu á höfðinu. Tunglið var fullt og vel er þekkt að þá fara varúlfar á kreik. Fyrstu viðbrögð voru því að snúa við og flýja öskrandi heim en sem betur fer harkaði ég þó af mér enda kom í ljós að þetta var bara nágranni minn sem er langt frá því að líkjast varúlfi og urrið kom frá smá kjölturakka kvikindi sem hann var með í kvöldgöngu :)

09 september 2008

Á fleygiferð

Ég náði góðri hvíld um helgina og svaf fram að hádegi í gær. Allt annað líf og nú flæðir textinn frá mér jibbbíííí :)

06 september 2008

Í kapp við tímann

Jæja ég fékk frest í rúmar tvær vikur og er ekkert lítið fegin. Þá er bara að ná að klára áður en líkaminn gefur sig aftur. Ég er farin að ganga verulega á mig og hef lítið úthald þannig að allt stefnir í sömu átt og fyrir ári síðan með tilheyrandi handskjálfta og svima. Ég er ákveðin í að klára þetta svo ég geti farið að vinna í að ná heilsunni aftur. Verð bara að vera dugleg að taka djúpslökun inn á milli, það virkar alveg ótrúlega vel. 

Fékk bréf frá Davíð frænda í gær, verðum víst að fara að hysja upp um okkur og koma út tilkynningu um Rauðholtsættarmótið. Hann óskaði eftir sjálfboðaliða í að halda utan um skráningargjöld og að sjálfsögðu bauð ég mig fram í það. Mér líst miklu betur á það en að vera í matar- eða skemmtinefnd, annars skilst mér að austanfólk ætli að sjá um matinn. Það toppar nú samt örugglega ekki matinn á Þorkelsmótinu!!

Valur var að byrja í kvöldskólanum í FB og tók bara einn áfanga á fyrstu önninni svona til að aðlagast skólaumhverfinu á ný. Það er ekkert auðvelt að byrja aftur eftir allt niðurbrotið í grunnskólanum. Ég verð enn bara reið þegar ég hugsa um þá martröð og legg ekki í að byrja að skrifa það sem mér finnst um íslenska skólakerfið því það yrði svo langur reiðipistill. Núna ætla ég að skríða snemma í háttinn og sofa út í fyrramálið svo ég verði í góðum vinnugír.

Góða helgi!

30 ágúst 2008

Fallegu systurnar

Mikið óskaplega á ég fallegar systurdætur :D 

Gunnar Björn tók þessa mynd af þeim systrum í sumar og ég gat ekki stillt mig um að setja hana hér inn.

28 ágúst 2008

Vinnuhornið mitt

Takið eftir fallega manninum á myndinni fyrir ofan vinnuborðið mitt! Getið þið giskað á hver þetta er ;-) Ef smellt er á myndina þá stækkar hún.

27 ágúst 2008

Kóngulær

Ég er enn á lífi og geðheilsan þokkaleg. Þetta mjakast allt áfram og tekur senn enda. Valur er að vinna í Borgarnesi þessa vikuna svo ég er að mestu leyti ein heima, Ellen og Daníel koma af og til. Nú er ég farin að vinna fram eftir nóttu og sef fram að hádegi. Það er svo rólegt á nóttunni að þessi rytmi á ágætlega við mig. Draumarnir eru enn frekar spennukenndir með risakóngulóm sem hrynja úr loftinu. Mér þykir samt frekar vænt um kóngulær svo ótrúlegt sem það er og þær boða yfirleitt gott. Það er ein lítil í glugganum hjá mér sennilega að leita sér að bústað fyrir veturinn. Hún er meira en velkomin að hafa vetursetu hér enda fer lítið fyrir þessum greyjum. Jú víst er geðheilsan góð!!!!
Eftirmæli
Stuttu eftir að ég skrifaði þetta varð mér á að loka stofuglugganum. Sú litla, blessuð sé minning hennar, hafði ekki valið sér gáfulegan stað til að hreiðra um sig. Gluggafalsinn!! Hún kramdist því til bana þegar ég lokaði glugganum. Ég er með móral!

20 ágúst 2008

Hríðaverkir

Þetta ætlar að verða erfið fæðing hjá mér. Ég er með mikla hríðaverki sem eiga pottþétt eftir að aukast því útvíkkun gengur hægt. Ég er sett 5. september en vonast til að fá að ganga einhverja daga framyfir ef ég ber mig nógu aumlega.

Í gær var hringt í mig og ég beðin um að taka aftur umræðuhóp í HÍ fyrir jól. Þetta verður bara einn hópur núna svo ég ákvað að slá til ef ég fengi tímann á föstudögum kl. 10 sem var samþykkt. Það er nefnilega engin íslenskukennsla á þeim dögum en hún fer líka að byrja. Ég reikna með að taka eitt kvöldnámskeið tvisvar í viku plús svona tvö dagnámskeið. 

ÆÆÆÆÆÆ þar kom hríð!!!!

12 ágúst 2008

Krækiber og hænur

Mig er búið að dreyma óskaplega mikið upp á síðkastið enda næ ég engum djúpsvefni. Er komin í vel þekkt spennuástand sem fylgir prófum og verkefnaskilum, stöðugt adrenalínflæði. Sem sagt draumarnir. Tvisvar hefur mig dreymt að ég væri svona líka svakalega hárprúð. Með þykkt og mikið sítt hár, meira að segja dreadlokka í annað skiptið. Svo dreymdi mig að ég væri að flytja heim í Hafursá og var að leggja drög að því að fá mér íslenskar hænur. Verst þær voru svo ansi dýrar 65.000 kall stykkið. Það besta var þegar ég fór í krækiberjamó og fann krækiber á stærð við grasker sem þurfti báðar hendur til að halda á. Ég var að segja Kolbrúnu frá þessu áðan og hún sagði: "Nú þú hefur þá fundið eitt af krækiberjunum hans Finns". Ég hváði við og þá útskýrði hún fyrir mér að þegar Finnur var ungur maður þá voru krækiberin fyrir austan svo stór að hann þurfti að rúlla þeim niður brekkuna!! 

10 ágúst 2008

Dansað niður Laugaveginn


Í gær tók ég pásu frá ritstörfum til þess að taka þátt í Gay pride ásamt fleira fólki (bæði íslensku og erlendum gestum) úr Couch surfing hópnum. Við ákváðum að fagna fjölbreytileika mannlífsins með því að vera hluti af Gleðigöngunni og dönsuðum því saman niður Laugaveginn. Þó svo Gleðigangan hafi í upphafi eingöngu verið ganga samkynhneigðra þá hefur hún breyst yfir í það að snúast um mannréttindi. Að allir hafi rétt á því að vera þeir sjálfir, svo framarlega sem það skaði ekki aðra. Þar sem ég er ekki beint týpísk miðaldra kona þá fannst mér vel við hæfi að taka þátt :D Ég viðurkenni að ég var hálf stressuð í byrjun við tilhugsunina að dansa fyrir framan tugþúsundir manna en um leið og við lögðum af stað leið það hjá og ég fann til ótrúlegs frelsis að geta verið bara eins og ég er. Þetta var alveg meiri háttar gaman en aldurinn eða eigum við að segja kyrrsetan er farin að segja til sín því ég var aum í öllum skrokknum á eftir og er búin að vera hálflasin í dag. Ekkert samt sem íbúfen lagar ekki svo ég er búin að sitja samviskusamlega við skriftir í dag. Valur var nú ekkert yfir sig hrifinn af uppátæki móður sinnar ha ha ha en Daníel fannst verst að hafa misst af mér. Nú bíð ég bara eftir að heyra orðróm um að ég sé komin út úr skápnum muahahahahahaa!

06 ágúst 2008

Heim á ný

Heldur voru menn nú framlágir þegar gengið var á land úr Herjólfi í Þorlákshöfn klukkan hálfþrjú í nótt ha ha ha! Samt á að skella sér aftur næsta ár auðvitað og læra af þessari fyrstu reynslu. Einn sími enn týndist.

04 ágúst 2008

Innipúkar

Í kvöld bakaði ég pizzur fyrir okkur innipúkana mig, Gunnar Björn og Daníel og var þeim gerð góð skil að venju. Dagga vinkona er stödd á landinu og leit við hjá mér seinnipartinn mér til mikillar gleði. Hún sýndi mér myndir af fallegu ömmustrákunum sínum. Ég fékk svo Brekkusöng í beinni frá Þjóðhátíð í símanum áðan. Greinilega mikið stuð þar og sumir orðnir hálfraddlausir (Valur). Ritgerðarvinna hefur gengið ágætlega í dag og kvöld, er núna að skrifa um íslenska þjóðernishyggju. Ætla að drífa mig í háttinn núna, er búin að lofa Daníel að vekja hann klukkan hálfátta í fyrramálið og horfa á eftir honum út um dyrnar. Hmmm ég held að strætó byrji ekki að ganga fyrr en klukkan 10 eins og á sunnudögum, sennilega verð ég að skutla honum í vinnuna.

01 ágúst 2008

Home alone!

Ég keyrði unga fólkið til Þorlákshafnar í gærkvöldi, ja eða nótt. Það var brottför með Herjólfi kl. tvö sem að vísu var svo seinkað um klukkutíma enda troðfullt skip. Þetta er fyrsta Þjóðhátíð þeirra beggja (Valur og Ellen) og tilhlökkunin eftir því. Ég sá nú ekki betur en hátíðin væri byrjuð þarna á bryggjunni í Þorlákshöfn því þegar við mættum á hafnarbakkann var okkur vísað á gám á bak við bíl björgunarsveitarinnar. Að vísu var þetta ekki dauðagámur heldur farangursgámur en mér kæmi ekki á óvart að menn hafi breytt  hlutverki hans eftir komuna til Eyja því margir voru orðnir vel við skál og enn hátt í fjórir tímar þar til lagst yrði að bryggju í Eyjum. 
Nú ætla ég að nota tímann og kyrrðina vel um helgina enda veitir ekki af. Um síðustu helgi var ég í örvæntingar og kvíðakasti en tókst að komast út úr því og er bara ágætlega bjartsýn núna og búin að vinna vel í dag. Ég ætla að gefa skít í allt heilsufæði og borða bara sælgæti, ís og aðra óhollustu eins og mér sýnist já og drekka marga lítra af kaffi og reykja eins og strompur. Það eina sem kemst að hjá mér þessa dagana er að klára þessa blessuðu ritgerð hvað sem tautar og raular. 

29 júlí 2008

Geitunga- og sólarfár

Miðað við fréttir um geitungaþurrð hjá meindýraeyðum á höfuðborgarsvæðinu þá þykir mér einkennilegt hversu mikið af þessum kvikindum læðist inn um gluggana hjá mér. Það líður ekki sá dagur að ég rekist ekki á geitung hér inni. Ég verð nú að segja það að mér þykir ég bara orðin ansi borubrött í návist þeirra, annað en fyrstu árin sem þeir slæddust hér inn. Þá flúði ég nánast húsið ef ég varð vör við þá eða greip hársprey brúsa og murkaði úr þeim líftóruna. Nú læt ég sem ég sjái þá ekki og það bregst ekki að eftir smátíma hunskast þeir út aftur. Hvernig stendur eiginlega á því að það setjast ekki hér að litfögur fiðrildi fólki til ánægju og yndisauka í staðinn fyrir þessa hvimleiðu geitunga sem alltaf þurfa að vera í andlitinu á manni. 

Bölvað ólán er þetta annars að geta ekki notið veðurblíðunnar þessa dagana. Tók samt hlé í dag frá lærdómi og rölti niður á Ingólfstorg að kaupa mér ís. Þar var löng biðröð að sjálfsögðu en ég lét mig samt hafa það því mig langaði svo mikið í ísinn. Var nánast kominn með hitaslag þegar ég kom heim aftur þannig að þetta varð ekki beint hressingarganga. Mér skilst að morgundagurinn eigi jafnvel að vera "verri" ætli ég þori nokkuð út fyrir dyr. Ég held ég hafi fengið of stóran skammt af sól og hita á Ítalíu. 

 

27 júlí 2008

Humarveisla


Hér var humarveisla í kvöld í boði Vals. Hann kom nefnilega heim af sjónum í vor með rúm 5 kíló af humri og er ekki seinna vænna að hann læri að matreiða humar. Við borðuðum öll yfir okkur að sjálfsögðu og samt var afgangur. Ég tek það fram að við elduðum ekki öll 5 kílóin! Ég stakk upp á því við Val að hann  tæki afganginn með í nesti í vinnuna á morgun ha ha ha. Mér tókst að grafa upp eina flösku af krækiberjasaft af kistubotninum þannig að í eftirrétt var rjómagrautur með krækiberjasaft (svona þegar aðeins var farið að sjatna í mannskapnum). Annars sá ég á mbl.is að krækiberjasprettan á Austurlandi verður víst með betra móti. Vonandi kemst ég austur í berjamó í einhverja daga þegar ég verð búin að skila af mér verkefninu. 

21 júlí 2008

Ættarmót


Begga í blindandi ruslatínslu leidd áfram af Pétri

Mikið lifandis skelfing var gaman á þessu ættarmóti og frábært hvað það var vel mætt. Veðrið lék við okkur og mér fannst alveg ferlegt að þurfa að yfirgefa Austurlandið í blíðskaparveðrinu sem var þar í gær. Ég fór þó heim með einn titil í farteskinu sem er meistari í rúmfataásetningu (heitir það annars ekki það). Þarna kom sér vel að vera í þjálfun eftir alla sófagestina sem ég hef búið um síðustu mánuði. Það dugði þó ekki til því Kristínarleggurinn skíttapaði fyrir Soffíuleggnum sem er náttúrulega skammarlegt fyrir langfjölmennasta legginn. Nú er bara að nota næstu fimm ár í æfingar í þúfnahlaupi því ég gæti best trúað því að menn taki doktor Hjálmar á orðinu og bæti því inn í íþróttagreinakeppnina. Hver veit hvað gerist svo næsta sumar á Rauðholtsættarmótinu, ég er sko í undirbúningsnefnd fyrir  það mót. 

Eftir að hafa keyrt bæði suður og norðurleiðina þessa helgi þá er ég með það á hreinu að framvegis fer ég norðurleiðina svo framarlega sem hún verður fær. Það má vel vera að suðurleiðin sé beinni en það eru ábyggilega 50 einbreiðar brýr á leiðinni þannig að ég var alltaf að hægja niður. Svo er hundleiðinlegur og seinfarinn kaflinn frá Höfn og í Egilsstaði (ég hafði auðvitað ekki rænu á að fara fjarðarleiðina). Á bakaleiðinni keyrði ég norðurleiðina og var með krúsið á nánast allan tímann (á löglegum hraða auðvitað) þannig að bæði vorum við fljótari og bíllinn eyddi miklu minna. 

16 júlí 2008

Færeysk til fótanna

Fyrirbærafræðileg nálgun og grunduð kenning!! Þetta eru hugtökin sem ég er að vinna með núna enda heyri ég urgið í heilanum þegar hann þjösnast í gegnum þetta. Hann fær þó pásu um helgina því ég er á leiðinni austur á ættarmót. Við Valur og Ellen ætlum að leggja í hann upp úr hádegi á morgun ef allt gengur upp. Þetta verður því miður stutt stopp núna. Við keyrum til baka á sunnudaginn. Á meðan ég er fyrir austan ætlar Oddur hinn færeyski og írska kærastan hans að gæta bús og katta. Oddur ætlar að baka færeyskar pönnukökur handa mér í kvöld. Ég er bara í því að bera saman pönnukökur hinna ýmsu þjóða, ekki amalegt það ha ha ha.

Mér áskotnuðust appelsínugulir flókaskór úr þæfðri ull (gráir að innan) ekkert smá flottir enda færeyskir að uppruna.

13 júlí 2008

Kveðjubros


Sigurbjörg systir og Freya stoppuðu hjá mér í tvo daga á leiðinni heim til Álaborgar. Það var ægilega erfitt að kveðja þær en ég tók mynd af litlu skvísunni á flugvellinum og hún sendi mér þetta fallega kveðjubros.

Au revoir!

Ég fékk sófagesti frá Frakklandi, hjón rúmlega fimmtug. Við Ely erum búnar að vera í sambandi á msn síðastliðna 3 mánuði og því var þetta eins og að fá gamla vini í heimsókn. Þau gistu tvær nætur í byrjun ferðar og svo eina nótt í lokin og við erum búin að hafa það ægilega notalegt saman, ég er m.a. búin að læra að búa til franskar pönnukökur eða crépes (bæði sætar og saltar) og ávaxtasúfflei. Í gærkvöldi elduðum við sem sagt saman, ég steikti lúðu með bönunum og gráðostsósu og Ely bjó til súffleiið. Eftir að við höfðum borðað á okkur gat af aðalréttinum og biðum eftir að súffleiið bakaðist skrapp Ely á msn að athuga statusinn heima þar sem tvær uppkomnar dætur þeirra voru að passa 8 ára bróður sinn sem reyndist  vera með yfir 39 stiga hita en kartöflurnar spretta vel. "Við sækjum ykkur svo á lestarstöðina á morgun" sagði dóttir hennar sem varð til þess að allt í einu áttuðu þau sig á því að þau áttu flug kl. eitt eftir miðnætti á föstudagskvöldinu en ekki laugardagskvöldinu. Þið getið rétt ímyndað ykkur panikkið sem greip alla en sem betur fer stóð það ekki lengi því klukkan var nú bara hálfníu og nægur tími til stefnu því auðvitað skutlaði ég þeim til Keflavíkur og við gátum gætt okkur á súffleiinu áður en við lögðum í hann. Ég gat vel sett mig í þeirra spor því það sama gerðist hjá okkur á Ítalíu að við misstum úr einn dag. Við uppgötvuðum það nú sem betur fer nokkrum dögum fyrir brottför en gátum engan vegin áttað okkur á hvenær við höfðum misst úr dag því við vorum allar þrjár með það á hreinu að það væri föstudagur þegar það var í raun laugardagur. Líklegasta skýringin er náttúrulega sú að okkur hafi verið rænt af geimverum ha ha ha. En allavega ég er byrjuð að plana heimsókn til Ely og Erics í Besancon næsta ár með viðkomu hjá Karine í París og kannski fæ ég fleiri Frakka í heimsókn sem ég get komið við hjá. 

09 júlí 2008

Myndir

Ítalíumyndirnar eru komnar inn í netalbúmið mitt!

03 júlí 2008

Kaffifíkinn búálfur með símadellu

Ég fór í bankann í dag og tryggði mér framfærslu fram á haust þannig að ég geti algjörlega einbeitt mér að ritgerðinni. Þvílíkur munur að þurfa ekki að vera að hlaupa á milli vinnu og verkefnis. Er líka alveg endurnærð og full af orku eftir Ítalíuförina þannig að nú sit ég við skriftir öllum stundum. 

Hér á heimilinu hafa undarlegir hlutir átt sér stað. Svo virðist sem einhver kaffiþyrstur hafi laumast hér inn og hnuplað kaffikrukkunni og líka neskaffinu nema hingað hafi flutt inn kaffifíkinn búálfur. Um síðustu helgi hvarf svo heimasíminn (tólið). Við erum búin að leita á öllum stöðum sem okkur getur dottið í hug án árangurs. Ég sá því ekki annað í stöðunni en að skunda í ELKO í dag og kaupa eitt stykki síma. Ódýrasti síminn hjá þeim er á tæpar 4.000 krónur (eins og sá sem hvarf) og hefur reynst mér mun betur en rándýrir símar frá Símanum. Ég kemst vel af án allra fídusa sem prýða þessa rándýru síma og finnst alveg nóg að hægt sé að hringja úr honum og í hann. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég lét glepjast af nýjum og fínum gemsa áður en ég fór út. Nú get ég hlustað á útvarpið, Mp3 spilara, tekið myndir og vídeó ásamt fullt af öðrum hlutum sem ég á eftir að læra á. Svo er hann svo flottur á litinn, hvítur og limegrænn, það gerði náttúrulega útslagið um kaupin ha ha ha.

30 júní 2008

Morgunverður á Ítalíu


Ég stóðst ekki mátið að setja inn þessa mynd af Kristínu við morgunverðarborðið. Við tíndum ávextina af trjánum í þessari paradís. Já og ástæðan fyrir því að við erum nokkrum kílóum þyngri eftir þessa ferð er maturinn hennar Ninu sem við "neyddumst" til að borða. Hún sendi okkur meira að segja heim með sína tertuna hver í farteskinu og ég get vottað það að ítalskt bakkelsi er það besta í heimi!!

Lolla á Ítalíu

Já ég er komin heim í íslenska sumarið! Satt að segja þá kann ég bara vel að meta kulið í loftinu eftir molluna í Casalabate og það var ákveðin fró í því að finna kuldann nísta inn að beini eftir margra klukkutíma tónleika á laugardagskvöldið. Síðustu 3 dagarnir voru mér svolítið erfiðir þegar hitinn var kominn vel yfir 30°C enda hélt ég mig ýmist innandyra eða í skugganum þar til seinnipartinn en kvöldin voru best. Reyndar fékk ég líka nýtt nafn á Ítalíu en þar geng ég undir nafninu Lolla. Ástæðan fyrir því er að það er vonlaust fyrir Ítali að bera fram nafnið Guðlaug en þegar ég bauð þeim að nota Gulla í staðinn þá sló fyrst þögn á mannskapinn en síðan hófst mikil diskúsjón á ítölsku sem endaði með því að mér var tilkynnt að þau gætu bara alls ekki kallað mig RASS (eins og Gulla hljómar víst á ítölsku) því væru þau með þá tillögu að kalla mig Lollu sem ég samþykkti auðvitað umsvifalaust því hver vill vera kallaður RASS eða RASSA. Ég set fljótlega inn myndir á netalbúmið mitt, er búin að vera ægilega bissí eftir að ég kom heim, þurfti að skila af mér til Unnar Dísar í dag og hitti hana í fyrramálið að ræða framhaldið. Er líka með fullt hús af sófagestum í nokkra daga en þeir sjást nú bara snemma á morgnana og kvöldin.

12 júní 2008

Farin í sólina!

til Ítalíu með Kristínu systur og Stefaníu Ósk. Kem aftur 26. júní, reyni að blogga eitthvað þaðan ef ég kemst einhvers staðar í netsamband. Verð að viðurkenna að mér finnst pínulítið erfið tilhugsun að vera ekki í reglulegu netsambandi. Ciao!!!!

08 júní 2008

Stöff í eyrað

Ég á við þann vanda að stríða að önnur hlustin á mér stíflast svona einu sinni á ári. Það gerðist einmitt síðasta fimmtudag þannig að upphófust miklar hreinsunaraðgerðir sem báru ekki árangur fyrr en á föstudag. Ég held ég hafi verið búin að sprauta nokkrum lítrum af vatni í eyrað á mér áður en tappinn fór. Daníel benti mér á nýja aðferð sem er svokallað eyrnakerti. Ég sá þetta einhverntíman auglýst á einhverri snyrtistofu og var mikið búin að velta fyrir mér hvað í ósköpunum það væri. Að mér skilst er sérstakt kerti (held maður geti ekki notað gamalt jólakerti) sett yfir hlustina og svo er kveikt á því. Hitinn frá því bræðir víst allann merginn sem síðan lekur úr eyranu. Ég veit ekki mér líst ekki meira en svo á þessa aðferð, myndi sjálfsagt enda með að kveikja í hárinu á mér. Í staðinn keypti ég einhverja olíu sem sprautað er í eyrað reglulega og á að gera sama gagn. Við Daníel fengum okkur saman í eyrað á föstudagskvöldinu og það þrælvirkaði...gott stöff maður.

05 júní 2008

Kona á barmi taugaáfalls

Ég er víst búin að vera ódugleg að blogga upp á síðkastið. Ástæðan er aðallega sú að það er bæði búið að vera mikið að gera hjá mér og svo er ég eiginlega á síðustu orkudropunum. Ég fékk skýringu í síðustu viku á því hvað gerðist hjá mér síðasta sumar þegar líkaminn gafst upp og ég gat ekki svo mikið sem haldið á vatnsglasi. Þetta var víst taugaáfall og þeir sem það hafa fengið segja mér að það geti tekið langan tíma að ná sér aftur. Þar sem ég gaf mér engan tíma til þess og var fljótlega aftur að drukkna í vinnu þá má ég víst þakka fyrir að vera ekki búin að fá annað áfall. Ég ákvað því að afþakka alla vinnu í júlí og ágúst og lifa á Kaupþing banka á meðan ég klára MA verkefnið mitt. Þannig að vonandi kem ég úthvíld og endurnærð frá Ítalíu í lok júní tilbúin í slaginn. Nú er bara vika í Ítalíu og dagarnir silast áfram ég hlakka svo til. Ég klára tvö síðustu námskeiðin næsta miðvikudag og stekk svo upp í næstu vél morguninn eftir.

01 júní 2008

Myndir og ljóð

Í gær var opnuð ljósmyndasýning í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Það er sjálfur Viggo fagri Mortensen sem er með þessa sýningu. Ég ákvað að skella mér á opnunina, ekki bara í þeirri von að berja Viggo augum ef þið hafið haldið það! Sá honum reyndar bregða fyrir eitt lítið andartak. Svo mikil sveitamanneskja sem ég er þá átti ég engan vegin von á svona miklum áhuga fólks á sýningunni. Ég kom klukkan tvö og þá var komin löng biðröð af fólki og virtist meira en helmingurinn vera túristar sem þóttust sjálfsagt komast í feitt að komast á þessa sýningu. Sem betur fer stendur sýningin yfir fram í lok ágúst því það var varla nokkur möguleiki að skoða myndirnar fyrir öllu þessu kraðaki af fólki. Ég var eiginlega komin með smá innilokunarkennd og ákvað að koma frekar seinna þegar um hægist. Á leiðinni út kom ég við í afgreiðslunni þar sem verið var að selja ljósmyndabækur, ljóðabækur, plaköt o.fl. eftir kappann. Þar var svo sannarlega handagangur í öskjunni og afgreiðslukonurnar orðnar sveittar og rjóðar af því að sækja nýja og nýja kassa af bókum á 4.000 kall stykkið sem rifnar voru út af æstum aðdáendum. Ég rakst á gamla bók eftir hann með ljóðum og myndum á 1.500 kr og fjárfesti í henni, með bókinni fylgir diskur þar sem hann les sjálfur upp ljóðin og ég er að sjálfsögðu himinlifandi með þessi kaup. Ég sá nú samt enga ástæðu til að biðja um eiginhandaráritun enda hef ég aldrei skilið hvað er svona merkilegt við það að fólk kroti nafnið sitt á hluti. Annars er ég nokkuð ánægð með hann Viggo því allur ágóði af sýningunni rennur til Náttúruverndarsamtaka Íslands, hann er nefnilega svo ríkur að hann þarf ekkert á peningunum að halda. Þeir sem vilja styðja NÍ geta því fjárfest í ljósmynd á 30-35.ooo, bók eða plakati. Nú ætla ég að koma mér vel fyrir og hlusta á Aragorn fara með ljóð fyrir mig.

29 maí 2008

Samar á ferð

Aldrei þessu vant þá fór ég í leikhús á þriðjudagskvöldið. Hér var á ferðinni samískur leikhópur með sýninguna "Sá hrímhærði og draumsjáandinn", alveg mögnuð sýning get ég sagt ykkur. Af einhverjum ástæðum þá var sýningin lítið auglýst en ég frétti af henni í gegnum þýska konu sem hafði samband við mig í gegnum sófagestasíðuna. Hana vantaði ekki sófa heldur hafði hún áhuga á að hitta mig í kaffi og spjall. Þessi mæta kona er hluti af leikhópnum (einskonar sviðsmaður) og býr í Lapplandi eða eins og hún sagði úti í skógi í Finnlandi þar sem búa um 20 hræður. Þetta er stutt frá landamærum Noregs og er leikhópurinn staðsettur Noregsmegin þannig að hún vinnur í Noregi. Hún sagði þetta þýða að hún þarf að vera með tvenns konar tíma í gangi, vekjaraklukkan er á norskum tíma svo hún mæti á réttum tíma í vinnuna og eldhúsklukkan er á finnskum tíma. Allavega þá endaði það með því að ég aðstoðaði við að ganga frá eftir sýninguna og fór svo út að borða með öllum hópnum og skemmti mér þvílíkt vel. Fínt að rifja upp norskuna í leiðinni. Það var nú samt svolítið spaugilegt að rölta upp Laugaveginn á leiðinni heim ásamt nokkrum blindfullum Sömum í fullum skrúða enda vorum við stoppuð af tveimur Ameríkönum sem vildu endilega taka mynd af þeim. Daginn eftir fór ég svo í bæjarrölt með Gerlinde meðan restin af hópnum fór á Gullfoss og Geysi. Þá uppgötvaði ég nýtt Gallerí í Aðalstræti (í gamla Fógetanum) þar sem finna má rjómann af íslenskri hönnun og handverki og mæli eindregið með að fólk líti þar við. Gerlinde mátti vart vatni halda yfir því sem þar var að sjá enda mikil handverksmanneskja sjálf og gullsmiður að mennt. Hún gaf mér hálsmen úr hreindýrshorni, eigin smíði að sjálfsögðu. Nú er ég sem sagt komin með sófa í Lapplandi þegar ég læt loksins verða af því að fara þangað en mig hefur lengi dreymt um það. 

23 maí 2008

Góðir gestir

Hjá mér eru góðir gestir frá Finnlandi og Álandseyjum. Robert og Jeanette eru hérna um helgina með Sunnu litlu og mömmu hans Roberts. Við Arja fórum í stutta skoðunarferð í morgun um Reykjavík og nágrannasveitarfélög en síðan drifu þau sig í hinn hefðbundna túristahring á Þingvöll, Gullfoss og Geysi. Ég er hæstánægð með að geta endurgoldið þeim gestrisnina frá því í Finnlandi bæði um daginn og fyrir 3 árum síðan. Ég heimsótti Örju líka á sínum tíma á Álandseyjum svo það er gaman að fá hana loksins í heimsókn. Hún er búin að vera ægilega spennt að komast til Íslands og var alveg í skýjunum í dag yfir öllu sem hún sá. Robert og Jeanetta voru að koma frá Kanada og ákváðu að stoppa hérna á heimleiðinni. Það var því hálfskondið í gærkvöldi klukkan 20 þá var Arja á finnskum tíma eða kl. 23 en þau hin á kanadískum tíma kl. 15 enda var Arja vöknuð fyrir allar aldir í morgun. Mér gengur bara ótrúlega vel að tala sænskuna en Jeanette er orðin nokkuð glúrin í íslenskunni enda búin að æfa sig heilmikið með íslenskuforriti. Robert heldur sinni íslensku við með því að hlusta á Rás 2 á netinu og lesa mbl.is og talar ennþá eins og innfæddur. Ég tala íslensku við Sunnu og svei mér ef hún skilur mig ekki bara alveg sú stutta. 

21 maí 2008

Woofað í Vallanesi

Ég hýsti þrjú systkini frá Bandaríkjunum í þrjár nætur. Þau voru búin að dvelja hjá Eymundi í Vallanesi í tvær vikur við svokallað woofing. Ég er einmitt nýlega búin að komast að því hvað það er. Þá dvelur fólk um lengri eða skemmri tíma á lífrænu býli sem sjálfboðaliðar við bústörfin og fær fæði og húsnæði í staðinn. Það var einmitt einhver Frakki að spyrjast fyrir á CS um býli til að woofa á, ég ætti kannski að benda honum á Eymund.
Ég sé að það er spáð 23 stiga hita fyrir austan um næstu helgi. Vonandi heldur spáin og bara svo þið vitið það þá er ég ekkert öfundsjúk enda styttist í Ítalíuferðina þar sem ég fæ örugglega nóga sól.
Ryksugan mín dó áðan!

17 maí 2008

Heim á ný

Ég kom heim í gær með flóabit og illa lyktandi franskan ost í farteskinu. Mér varð það á að koma við í H & M áður en ég fór og missti mig aðeins í innkaupum. Við Minna fórum út að borða á kínverskan veitingastað síðasta kvöldið og fengum okkur svo kaffi á eftir í Torni þar sem er útsýni yfir borgina og nutum þess í kvöldsólinni. Ég var alveg búin á því þegar ég kom heim í gær og var sofnuð fyrir allar aldir enda enn á finnskum tíma sem eru þrír tímar á undan íslenskum. Ég reiknaði með að vakna í býtið í morgun en nei nei ég svaf í SAUTJÁN tíma. Maður verður alveg ótrúlega þreyttur af því að nota heilann svona mikið við að reyna að skilja hvað fólk er að segja. Nú skil ég nemendur mína vel. Næstsíðasta morguninn var heilinn á mér kominn á suðupunkt þegar ég ætlaði að taka lestina til Helsinki. Hún var að renna inn á brautarpallinn þegar ég kom á lestarstöðina og ég stökk upp í án þess að vera búin að tékka hvort ég væri á réttum brautarpalli. Þegar ég er sest rek ég augun í lítinn skjá sem á stendur Lipunmyynti og hrökk í kút. Guð ég er í rangri lest!! Ég ákvað því að fara út á næstu stöð og vera með það á hreinu að ég færi í rétta lest þó svo þessi virtist nú vera á réttri leið því hún stoppaði næst í Ilmala eins og Helsinki lestin gerir. Þegar næsta lest kom þangað settist ég og var nú með það á hreinu að ég væri í réttri lest. Sé ég þá ekki aftur lítinn skjá sem á stendur Lipunmyynti og rann þá upp fyrir mér ljós að þetta þýðir farmiðar sem ég vissi auðvitað mætavel það hafði bara eitthvað slegið út fyrir mér og ég ruglað þessu saman við Läppevära sem er lestin sem ég tók alltaf heim. Heilinn var hreinlega kominn á yfirsnúnig enda hafði ég verið að fylgjast með kennslu til 6 deginum áður. 

12 maí 2008

Lagkökur í massavís

Ég fór í langt ferðalag í gær að heimsækja mömmur Minnu og Juhani í tilefni mæðradagsins. Hér í Finnlandi er mæðradagurinn mjög stór og á föstudag og laugardag var mikið að gera í búðum því allir voru að kaupa gjafir fyrir mæður sínar. Við byrjuðum á að keyra klukkutíma norður af Helsinki til mömmu hans Juhani og fengum kaffi og köku þar. Síðan var farið enn norðar og lengst út í sveit til mömmu hennar Minnu. Ég heilsaði upp á kýrnar og hestana en þau eiga tvo íslenska hesta og nokkra smáhesta (ponys) sem eru ægilega krúttlegir sérstaklega folaldið. Kisan þeirra er með vikugamla kettlinga og svo eru þrír hundar. Eftir mat var lagkaka og kaffi og svo var haldið til ömmunnar og gúffað í sig meiri kökum og kaffi. Á bakaleiðinni tókum við svolítinn krók og kíktum við á sumarhús sem Minna og Juhani eru að spá í að kaupa. Þrátt fyrir allan þennan akstur í gær þá sá ég lítið annað en tré og aftur tré og svo glitti í hús og vötn inni á milli trjánna. Þetta var samt mjög skemmtilegur dagur og gaman að hitta allt þetta fólk og njóta góða veðursins. Í kvöld fórum við svo út að borða á taílenskan veitingastað. Á morgun verður langur dagur hjá mér. Mæti í Adulta klukkan 9 og verð til 6. Nú ætla ég að skríða í bólið er ennþá lúin eftir ferðalagið í gær.

10 maí 2008

Skómanía

Við Minna eyddum deginum í skóleit enda er ég búin að bíða eftir því að komast til Helsinki að kaupa mér nýja skó. Ég keypti bestu skó í heimi þegar ég var hér síðast fyrir þremur árum og hugsaði mér gott til glóðarinnar að bæta öðru pari við. Mér til mikillar gleði er heilmikið úrval hér af skóm frá El Naturalista (uppáhaldsmerkið mitt), Fly og Art. Í dag keypti ég tvö pör og ætla að kaupa eitt í viðbót eftir helgi. Verst að evran virðist hækka dag frá degi. Það var svo heitt í dag (yfir 20 stig) að við gáfumst upp á búðarrápinu og skjögruðum heim með lafandi tungu. Ætlum að liggja í leti og horfa á DVD í kvöld. Í fyrramálið er stefnan tekin út í sveit í heimsókn til fjölskyldunnar hennar Minnu. 

09 maí 2008

Minä olen Gulla

Enn einn góður og sólríkur dagur hér í Helsinki. Ég var mætt í Tikkurila klukkan níu að fylgjast með kennslu til klukkan hálfþrjú og  fékk fullt af áhugaverðum punktum sem ég get nýtt mér í minni kennslu. Núna er ég komin í helgarfrí og ætla að skreppa í bæinn á eftir og fá mér að borða. Minna og Juhani eru að fara á upplestur á leikriti eftir vinkonu þeirra en ég sé engan tilgang í því að fara með og skilja ekki bofs. Ég bætti samt heilmikið við orðaforðann minn í dag. Reyndar er já á finnsku kyllä sem er borið fram eins og Gulla þannig að mér finnst ég alltaf vera að heyra einhvern segja nafnið mitt.
Í gærkvöldi fórum við á nýjan nepalskan veitingastað og fórum svo í langan göngutúr meðfram ströndinni í yndislegu veðri ásamt Jussi vini þeirra. Þetta gæti ekki verið betra.

08 maí 2008

Sól og sumar í Helsinki

Það er að verða komin vika frá því ég kom hingað til Helsinki og ég er orðin nokkuð heimavön bara í borginni. Ekki byrjaði ferðin samt vel því fyrstu nóttina fékk ég ælupest og ældi eins og múkki alla nóttina. Síðan missti ég meðvitund og svaf í eina 30 tíma þannig að helgin fór að mestu leyti í súginn eins og það var nú gott veður 20 stiga hiti og sól. Reyndar get ég ekki kvartað yfir veðrinu í vikunni það er búið að vera ágætis reykvískt sumarveður. Spáin um helgina er svo bongóblíða og ég er að spá í fara og skoða Suomilinnen/Sveaborg og eyða sunnudeginum þar.
Ég er búin að læra nokkur orð í finnsku og get orðið boðið góðan dag og sagt afsakið. Annars er búið að vera mjög áhugavert að fylgjast með kennslunni hérna og í næstu viku ætla ég að fókusa sem mest á kennslu fyrir ólæsa. Ég verð duglegri að blogga á næstunni því nú er ég komin í gott netsamband með mína tölvu. Læt þetta duga í bili því við Minna erum að fara í bæinn að dingla okkur. Moj moj!

19 apríl 2008

Mínar 15 mínútur af frægð

Ég er bara orðin "heimsfræg" í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Keene í New Hampshire. Það er greinilegt að ég verð að láta sjá mig á næstu Graskerjahátíð í Keene, ja það stendur a.m.k. í greininni að ég ætli að mæta ha ha ha. Matt sagði líka að nú kæmist ég ekki hjá því fyrst það væri komið á prent. Það er allavega ekki spurning að ég á eftir að skreppa í heimsókn til Alaska einn daginn enda búin að fá tvo sófagesti þaðan. Reyndar lítur í viðtalinu út eins og ég hafi verið á þönum í kringum þau sem var svo sannarlega ekki. Eitthvað hefur líka skolast til hjá blaðamanni því ég kannast ekki við að hafa kynnt þau fyrir einhverjum hljómsveitarmeðlimum. Ég skrapp með þeim á tónleika á Organ af því mig langaði að sjá og hlusta á Eivöru og Matt hitti hana svo á hátiðinni Aldrei fór ég suður og spjallaði eitthvað við hana. Hann var mjög uppnuminn yfir því hversu alþýðlegar íslenskar/færeyskar poppstjörnur eru. En það var allavega mjög gaman að hafa þau og við höldum sambandi á Facebook.

P.S: Linkurinn virkar víst ekki lengur nema fyrir þá sem eru áskrifendur :-(
þannig að mínar 15 mínútur eru greinilega liðnar ha ha ha ha

18 apríl 2008

Hárvöxtur

Keren sófagesturinn minn frá Tel Aviv benti mér á einn kost við að búa á Íslandi sem ég hafði ekki hugmynd um. Minni HÁRVÖXTUR!! Hún sagðist hafa tekið eftir því að dregið hefði verulega úr hárvextinum á fótleggjunum eftir að hún kom til Íslands og taldi ástæðuna vera kuldann hér á landi. Hitinn í heimalandi hennar gerir það víst að verkum að þrem dögum eftir að hún vaxar á sér leggina eru þeir aftur orðnir eins og á velhærðum hobbita. Þær tvær vikur sem hún var hér á landi var sprettan hins vegar nánast engin. 
Það er upplagt fyrir mig að fá þessa kenningu staðfesta þegar ég fer í hitasvækjuna á Ítalíu.

16 apríl 2008

Matarlyst

Um síðustu helgi eldaði ég tvö lambalæri og bauð öllum strákahópnum í mat ásamt Ellen kærustunni hans Vals. Að sjálfsögðu tóku allir rösklega til matar síns og ekki síst hún Ellen sem borðaði þá alla undir borðið. Viðbrögð þeirra við því minnti mig á viðbrögð Skúla Björns þegar ég var að vinna í skógræktinni og borðaði fleiri kjötbollur en hann. Það virðist nefnilega vera ákveðið karlmennskumerki að borða mikið og sú karlmennska bíður hnekki við það að vera borðaður undir borðið af konu. Annars var alveg ótrúlegt hvað ég og eiginlega við systur allar gátum innbyrt af mat á okkar yngri árum. Kolbrún man örugglega enn eftir því þegar Hói á Víðivöllum sagði við hana “ertu með orma eða hvað” þegar hún var búin að úða í sig ótæpilega af skyrsúpunni hennar Ingu ræst. Það hefur sennilega verið sæmilegur matarreikningurinn hjá foreldrum okkar miðað við það að ég tók alltaf 10 brauðsneiðar með í nesti og ég man ekki betur en Stína systir hafi verið með svipaðan skammt. Það er af sem áður var, núna má maður bara þakka fyrir að narta í tvær hrökkbrauðssneiðar.  

12 apríl 2008

Japanskur fótbolti

Ég grenjaði úr hlátri yfir þessu myndbandi!!

Geitin Skotta

Vinkona mín gaf mér þessa fallegu gulu gerberu í gær. Þegar ég kom fram í morgun sá ég mér til skelfingar að búið var að éta hana upp til agna. Það er að segja gula blómið. Ég hélt það væru bara geitur sem höguðu sér svona!!

07 apríl 2008

Stopp stopp stopp!!

Fyrir viku síðan gerðist það að öll viðvörunarljós tóku að blikka í líkamanum á mér. Minnug þess að hafa virt þau að vettugi síðasta sumar með þeim afleiðingum að ég varð eins og nírætt lasburða gamalmenni, þá ákvað ég að taka mark á þeim núna. Það voru samt þung sporin til leiðbeinandans míns að fresta útskrift enn einu sinni. Mér finnst þetta auðvitað algjör aumingjaskapur. Ég fékk bara jákvæðar viðtökur því eins og hún sagði þá skiptir ekki nokkru máli fyrir mig hvort ég útskrifast í vor eða haust. Þannig að núna er ég byrjuð að undirbúa Finnlandsferð í byrjun maí. Ég er að fara á námskeið á vegum Alþjóðahúss í tvær vikur að læra að kenna íslensku sem annað mál. Mér skilst að ég eigi að læra finnsku þessar tvær vikur og er ægilega spennt. Eins og er þá er ég að kenna þrjú íslenskunámskeið en eitt þeirra klárast næsta fimmtudag. Nú er bara að halda dampinum í ritgerðarskrifum, ég tók samt frí frá því í síðustu viku til að safna aftur kröftum.
Ég vissi ekki að kettir fengju flensu. Scarlet ræfillinn er með flensu og er búin að hnerra út í eitt síðustu daga og nætur. Svo vellur gröftur úr augunum á henni þannig að ég er í hjúkrunargírnum og þvæ augun nokkrum sinnum á dag. Ákvað í dag að prófa að nota fjallagrasaseyði til að strjúka yfir augun því ég hef tröllatrú á þeim grösum og veit að þau eru bakteríudrepandi. Sem betur fer er kattaflensan víst ekkert hættuleg. Skotta var með þetta um daginn en hún fékk ekkert í augun heldur hnerraði bara stanslaust og nuddaði á sér nefið. Scarlett er náttúrulega orðin fjórtán ára þannig að hún verður miklu lasnari, er ósköp orkulítil en sem betur fer er hún með fína matarlyst. Skottu hundleiðist að geta ekki fengið hana til að leika við sig og sýnir lítinn skilning á veikindum þeirrar gömlu. 
Vel á minnst. Vorið er komið!! Það var vorlykt þegar ég kom út í morgun og nefið á mér klikkar aldrei þegar kemur að árstíðaskiptum þ.e.a.s. vor og haust.

30 mars 2008

Sorg í hjarta

Mamma hringdi í mig í morgun með þá sorgarfrétt að hann Biggi Dúnu hefði dáið í vélsleðaslysi í gær. Mér finnst erfitt að trúa þessu það er svo stutt síðan ég hitti þau Birnu í Kringlunni og fékk hlýtt faðmlag frá þeim báðum. Ég kynntist Bigga og Birnu vel fyrir 24 árum síðan og þau eru eitt það yndislegasta fólk sem ég þekki. Það alltaf hefur verið svo gott að koma í heimsókn til þeirra og fylgjast með hvað krökkunum þeirra gengur vel. Ég var búin að hlakka til að koma við hjá þeim í sumar og fá mér kaffi og spjall í notalega garðinum þeirra. Á morgun átti að jarða hann Villa Rúnar bróður hans en nú verða þeir bræður sennilega jarðaðir samtímis. Elsku Birna mín ég samhryggist þér og börnunum þínum svo innilega að mig skortir orð. Ég sit hér og hágræt ég finn svo til með ykkur. Guð gefi ykkur styrk að takast á við sorgina og ég læt bænina okkar fylgja.

Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
Kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli





 



 

23 mars 2008

Upprennandi veiðikló

Allar þessar músaveiðaæfingar heimasætunnar Skottu virðast hafa borið árangur. Í gær fékk hún stóran páskaunga (ekki alvöru) til að leika sér að og tók það greinilega mjög alvarlega því í morgun voru gular fjaðrir út um alla stofu. Það er greinilegt að ég verð að setja á hana kúabjöllu þegar hún fær loksins að fara út úr húsi ef hún á ekki að hreinsa hverfið af fuglum. Mér varð hugsað með skelfingu til þess ef þetta hefði nú verið alvöru fugl sem hefði fengið þessa meðferð í stofunni hjá mér. Það hefði sjálfsagt þýtt allsherjar hreingerningu á húsgögnum, veggjum og gólfum eftir blóðslettur og fiður. Vonandi kennir frú Scarlett henni góða siði þegar þar að kemur enda hefur hún aldrei veitt svo mikið sem ánamaðk öll þau 14 ár sem hún hefur lifað.
Í gær var danskt pönnukökuboð hér í Einholtinu. Málfríður, Ingileif og Sigurbjörg voru hér með sína dönsku ektamaka og fríðan barnahóp. Birna og Sirrý slógust líka í hópinn. Aldeilis gaman að fá svona sjaldséða gesti í heimsókn.

18 mars 2008

Hland fyrir hjartað

Ég fékk aldeilis hland fyrir hjartað í dag þegar röddin hjá Símanum sagði mér að ég yrði mögulega bæði net- og símalaus um Páskana. Þarna sést hvað ég er orðin háð þessari tækni, annars hef ég það mér til afsökunar að ég þarf að nota netið þegar ég er að vinna í MA verkefninu mínu. Ég var í miðju kafi að vinna og nota mikið ordabok.is sem þýðir að ég verð að vera nettengd. Allt í einu dettur netið út og þá meina ég ekki bara þráðlausa netið. Þegar ég tók upp heimasímann til að hringja þá var hann líka dauður. Ég hringdi því í þjónustunúmer Símans og rakti raunir mínar fyrir röddinni. Þetta var svo svarið sem ég fékk og ég get svarið það ég hreinlega fylltist skelfingu við tilhugsunina um netlausa Páska. Sem betur fer reyndist þetta vera bilun á símalínunni sem var snögglega kippt í lag og ég tók gleði mína á ný. Annars gruna ég sprengjuvargana hinum megin við götuna um að eiga einhvern hlut að máli. Þeir hafa sprengt eins og óðir í dag og rétt áður en netið datt út kom þvílík bomba að húsið hreinlega nötraði.

14 mars 2008

Bílaviðgerðir og bróderingar

Bíllinn fór ekki í gang síðasta mánudagsmorgun. Á ég ekki að kíkja á hann fyrir þig spurði Prim, 22ja ára ástralski sófagesturinn minn (kona N.B.). Þegar ég kom heim aftur frá því að kenna var hún búin að gera við bílinn fyrir mig!!! Þessi frábæra stelpa er sveitastelpa sem hefur flakkað um heiminn og m.a. búið eitt ár á Hawai á búgarði þar sem hún vann við að temja hesta. Hún vann líka 6 mánuði á búgarði í Texas. Núna er hún á leiðinni til Rússlands, Hvíta-Rússlands og Úkraínu, ekki þó til að temja hesta.
Í gær kom alveg óskaplega krúttulegt par frá Boston. Þau eru tvítug og þegar þau voru búin að koma sér fyrir þá dró hún upp hringlaga útsaumsramma og sat við að bródera í gærkvöldi. Í dag á svo að skoða það sem Reykjavík hefur upp á að bjóða en ég ætla að elda fisk handa þeim í kvöld. Kosturinn við að hafa sófagesti er að ég elda handa mér, ég nenni ekki að elda ofan í mig eina enda kann ég ekki að elda fyrir eina manneskju. Svo hér verður boðið upp á karrýfisk sem alltaf slær í gegn og er þar að auki alveg óskaplega fljótlegur réttur. Það er munur að fá frían gæðafisk frá syninum.

06 mars 2008

Afvelta af ofáti

ÆÆÆÆ  og ÓÓÓ!!!!! Hvaða árátta er það eiginlega hjá manni að þurfa alltaf að klára af diskinum þegar maður fer út að borða. Ég ligg hér afvelta nánast með hljóðum af að troða í mig fullum diski af frábærum mexíkóskum mat í boði Hrefnu systur. Við fórum á nýjan stað sem heitir Tabasco og ég mæli svo sannarlega með honum. Bæði umhverfi, þjónusta og matur hreint út sagt frábært. Þessi veitingastaður er við Ingólfstorg í sama húsi og Victor nema gengið inn í hann Ingólfstorgsmegin. Annars held ég þessi árátta sé arfleifð frá því maður var krakki og átti alltaf að klára af diskinum sem er náttúrulega algjör vitleysa því þá hættir maður að taka mark á því þegar maður er saddur og venur krakkana á að halda áfram eftir að maginn segir stopp. 

Skotta er aftur að breima. Hér læddist einhver fressköttur inn og skvetti smávegis hormónum á ryksuguna frammi á gangi. Þær fósturmæðgur þefuðu af glaðningnum og það var eins og við manninn mælt. Táningurinn umturnaðist og liggur mænandi út um gluggann á milli þess sem hún skríður vælandi um gólfið mér til mikilla leiðinda.

Dönsku sófagestirnir mínir þrír eru komnir aftur og eru búin að koma sér fyrir í bláa herberginu. Ósköp notalegt að hafa þau hérna og það verður víst eldað ofan í mig annað kvöld og að sjálfsögðu vaskað upp líka. Algjör lúxus. Ég sit bara við tölvuna að berja saman einhvern texta og er búin að koma mér upp fínni vinnuaðstöðu hérna í stofunni.



 

04 mars 2008

Glöð í hjarta

Ég var að útskrifa einn íslenskuhópinn minn í dag og þessar elskur voru búin að slá saman í blómvönd og nammiegg handa mér. Svo spurðu þau hvort ég myndi ekki örugglega kenna framhaldsnámskeið fyrir þau og ég varð svo glöð að heyra hvað þau eru áhugasöm. Þetta er alveg ótrúlega gefandi starf. Næsta mánudag byrjar svo nýtt byrjendanámskeið hjá sama fyrirtæki. En nú þarf ég að nýta tímann og vinna í verkefninu mínu. Knús á línuna!!

02 mars 2008

Kátt í koti

Hér er aldeilis búið að vera kátt í koti alla vikuna. Sigurbjörg og fjölskylda eru í heimsókn og í nógu að snúast hjá mér. Í gær var opið hús hjá mér fyrir stórfjölskylduna og ég bakaði 5 uppskriftir af pönnukökum. Síðan fékk ég að passa Freyju um kvöldið og nóttina mér til mikillar gleði. Ég verð samt að viðurkenna að ég er ósköp fegin að þurfa ekki að vakna um miðjar nætur í barnastúss á hverri einustu nóttu. Þetta gekk eins og í sögu hjá okkur frænkum en Sunneva var mér nú líka til halds og trausts. Eiginlega svaf sú stutta meira og minna milli þess sem hún nærði sig. Hún vaknaði nú samt eldhress í morgun og brosti sínu blíðasta og hjalaði við mig. Eins og fleiri í fjölskyldunni þá ætlar daman ekki að verða mikill morgunhani sem er fínt á þessum aldri en verra þegar unglingsárin skella á eins og ég hef mikla persónulega reynslu af. Ætlar því miður seint af rjátlast af mér sjálfri. 

23 febrúar 2008

Einkasápan heldur áfram

Uppáhalds sófagestirnir mínir eru búin að vera hjá mér í tvo daga mér til mikillar ánægju. Nú styttist í að sá ítalski hverfi á braut úr faðmi þeirrar þýsku í faðm þeirrar ítölsku (held ég). Síðustu dagana ákváðu þau að nota í skoðunarferð um Suðurland og leigðu smábíl í ferðina. Þau eru búin að vera dugleg að þvælast um Norðurland og Vesturland á puttanum og þykir mér það heilmikið afrek hjá þeim á þessum árstíma. Við áttum góða stund saman í gærkvöldi þar sem þau færðu mér forláta tebolla að gjöf og með fylgdi póstkort sem þau ákváðu að færa mér í eigin persónu frekar en að nota íslensku póstþjónustuna. Við gæddum okkur svo á tiramishu sem Franziska bjó til fyrr um daginn og var víst ekki alveg eins og það átti að vera en mér fannst það nú bara fínt, soldið þurrt en við helltum bara kaffi yfir og þá var það allt í lagi. Æ þessar elskur það var svo yndislegt kortið frá þeim og ég á eftir að sakna þeirra mikið. Einhver plön virðast vera í gangi hjá þeim um að hittast á Ítalíu í nánustu framtíð þannig að nú veit ég ekkert hver staðan er með þá sem heima situr í festum. Það virðist því ætla að vera framhald á sápuóperunni. 

19 febrúar 2008

Pólsk töframixtúra

Ég var með pólskan sófagest um síðustu helgi sem gaf mér uppskrift sem mamma hans bjó alltaf til þegar einhver fékk kvef eða flensu. Þú sneiðir eða saxar hvítlauksgeira og setur í hunang. Lætur standa á hlýjum stað í sólarhring og tekur svo eina teskeið tvisvar á dag. Ég bætti að vísu við sneið af engiferrót til að gera þetta öflugra. Ég ákvað sem sagt að prófa þetta í staðinn fyrir pensilín og það bara svínvirkar. Ég er laus við hóstann og orkan öll að koma og þó fór ég að kenna bæði í gær og dag. Í fyrramálið tek ég svo aftur til við skriftir enda ekki seinna vænna.

16 febrúar 2008

FFFFlensan!!!

Ég er búin að vera fárveik í nokkra daga og ekki útlit fyrir að ég sé nokkuð að skána. Er búin að ákveða að fara á læknavaktina á morgun og væla út pensilín. Ef ég á að skila af mér MA verkefni 25. apríl þá verð ég hreinlega að verða vinnufær ekki seinna en núna!!! 

12 febrúar 2008

Barnæskan fyrir bí

Í nótt var ég vakin upp við ámátlegt vein í íbúðinni. Í fyrstu hélt ég að Snædís væri gengin aftur en við nánari athugun reyndist þetta vera Skotta litla sem greinilega er ekki lengur lítil. Ég var sem sagt of sein að mæla mér mót við Helgu dýralækni til þess að koma í veg fyrir svona uppákomu. Nú má ég líklega eiga von á því næstu tvær vikurnar að öll fress í næsta nágrenni safnist saman fyrir neðan gluggann hjá mér flytjandi mansöngva fyrir yngismeyna á heimilinu. Þeir fá þó bara þetta eina tækifæri því um leið og þetta ástand á henni er yfirstaðið verður endanlega tekið fyrir að það endurtaki sig og brunað til Helgu. Það er táknrænt fyrir þetta nýja lífsskeið ungfrúarinnar að hún hefur ekki litið við músunum sínum í dag. Þær hafa þó verið hennar líf og yndi þessar fimm litríku mýs sem ég gaf henni þegar hún flutti til mín. Nú er bara spígsporað um með þokkafullum hreyfingum og mænt löngunaraugum út um gluggann. Kannski ég splæsi á hana smá túnfiski til að halda upp á þessi tímamót. 

08 febrúar 2008

Andans þurrð

Eitthvað er skriftarandinn að svíkja mig í dag. Reyndi að lokka hann til mín með því að dansa eins og gamli ítalski málarinn gerir í þorpinu sem ég heimsæki í sumar. Svei mér ef þetta er ekki að virka!! Bourdieu virðist allavega mun skiljanlegri núna.
Bavaríu pönkrokkarinn minn flaug á sínar heimaslóðir í gær. Sat í þrjá tíma í vélinni meðan verið var að moka hana út. Á meðan reytti flugstjórinn af sér brandara til að hafa ofan af fyrir farþegum, að vísu á íslensku með 10 sek. enskri þýðingu svo þeir fóru nú frekar fyrir ofan garð og neðan hjá útlendingunum í vélinni. Kannski dreymir hann um að vera uppistandari og notar tækifærið að æfa sig á farþegum Icelandair.
Valur átti að fara á sjóinn í dag, hann er að fara á frystitogara og nú á að bretta upp ermar og gerast ábyrgur í fjármálum. Brottför var reyndar frestað vegna veðurs þannig að hann nær einum degi í viðbót heima.
Góða skemmtun á Vallablóti þið sem eruð að fara þangað í kvöld!! Ég verð með ykkur í anda.

05 febrúar 2008

Gengið í ljósið

Ég fór að taka á móti þýska pönkrokkaranum á B.S.Í. síðasta föstudag og brá heldur í brún því maðurinn reyndist vera 1.90 m á hæð og þrekinn að auki. Það væri ekki séns að hann kæmist fyrir í stofusófanum. Ég leysti málið bara með að lána honum rúmið mitt og sofa sjálf í sófanum þessar tvær nætur sem skötuhjúin að norðan voru í gestaherberginu.

Bláa lónið var eins og alltaf, ægilega notalegt. Við fórum öll fjögur seint á laugardaginn svo það var komið myrkur sem mér finnst svo kósý og þar sem ég var gleraugnalaus þá hefði ég alveg eins getað verið ein í lóninu. Svolítið vesen að finna kassana með hvítu drullunni þegar maður sér ekki glóru en það hafðist eftir að mér var bent á að stefna á bjarta ljósið. Það var því nánast andleg upplifun að sækja hvíta gumsið með því að ganga í ljósið.

Sá þýski er algjör draumur í dós og reynist vera karlkyns útgáfa af mér sjálfri. Hann var búinn að skrifa fyrir mig geisladiska sem hann færði mér svo við hlustum á tónlist, tölum um bækur og allt milli himins og jarðar, borðum hákarl og harðfisk, eyddum góðum tíma í Kolaportinu (ég fann þessa fínu skó á 500 kall og geisladisk á 250) á morgun ætlum við að kíkja eftir einhverju fatakyns hjá Hjálpræðishernum. Þar að auki er ég búin að lesa úr tarot spilum fyrir hann svo hann fer heim með góðar ábendingar frá mér í farteskinu :-)



 

30 janúar 2008

Steraskjálfti

Ég tók óvart of stóran skammt af sterapústinu mínu í morgun og get ekki hugsað heila hugsun því heilinn skelfur svo mikið. Verð greinilega að bíða þar til þessi innri skjálfti líður hjá aarrrgggghhhh!!!!

29 janúar 2008

Komin í gírinn á ný

Aldeilis er ég ánægð með að vera komin aftur í gírinn. Framkvæmdakvíðinn að baki og nú er að setja allt á fullt. Ég var að byrja með nýtt námskeið í morgun þannig að nú kenni ég þrjá morgna í viku, klukkutíma í senn og þrjú síðdegi, einn og hálfan tíma í senn. Alveg ægilega gaman hjá mér. Ég á von á fullu húsi af sófagestum um næstu helgi. Skötuhjúin að norðan ætla að skreppa í bæinn í nokkra daga (sú þýska og sá ítalski) og svo kemur miðaldra  þýskur pönkrokkari og verður í viku hjá mér. Við erum að spá í að skella okkur öll í Bláa lónið á laugardaginn. Spurning hvort það verði nokkuð á skautum þar sem spáð er hörkugaddi um helgina.

27 janúar 2008

Framkvæmdakvíði

Ætli það séu stress einkenni að hella kattamat út í súrmjólkina sína? Ég er allavega búin að vera frekar stressuð síðustu daga og var hreinlega í kvíðakasti í gærmorgun. Náði mér þó á strik og tók langa djúpslökun sem gerði það að verkum að ég settist við skriftir og náði smá fókus. Held mér sé að takast að komast út úr þessum framkvæmdakvíða. Ætla að búa til dagsplan fyrir mig á eftir til að veita mér aðhald. Ég afþýddi og þreif ísskápinn á meðan ég var að telja í mig kjark að byrja að skrifa, eitthvað gott kom þó út úr blessuðum framkvæmdakvíðanum. 

23 janúar 2008

Ítalía innan seilingar


Þá er litli Ítalinn minn floginn norður á bóginn í faðm þeirrar þýsku. Nú neyðist ég víst til að sjá sjálf um heimilisstörfin. Annars vorum við Kristín systir og Stefanía Ósk að bóka ferð til Ítalíu 12. – 24. júní. Við ætlum að heimsækja ítalska fjölskyldu og verðum í sumarhúsinu þeirra í algjörri afslöppun og dekri hjá Roberto og Massimo, foreldrum Roberto, nágrönnum þeirra og öðrum ættingjum hans. Þrjár miðaldra konur með bókastafla meðferðis eins og breskar hefðarfrúr á 18. og 19. öld. Jeminn hvað ég er farin að telja dagana þangað til.

Nú er lífið hjá mér að komast aftur í fastar skorður eftir áramótin. Ég er aftur byrjuð að kenna, byrjaði með eitt námskeið síðasta mánudag og næsta byrjar á mánudaginn kemur. Svo er að bretta upp ermarnar og koma meistaraverkefninu saman. Er sko búin með tvær blaðsíður af 100 og á að skila í byrjun maí. Ég verð að viðurkenna að ég er með nett stress í mér og sé fram á langa vinnudaga næstu mánuði. Þetta hefst samt örugglega á endanum ef ég þekki mig rétt. Þarf alltaf þó nokkra pressu til að komast í almennilegan vinnugír.




 

20 janúar 2008

Lítill sólargeisli



Þetta er hún Freya Davidsdottir Holm Kowalski yngsta systurdóttir mín og guðdóttir. Algjört krútt. Það er fleiri myndir af henni hér


Ástin blómstrar í Holtinu

Jæja sú fyrrverandi er aftur orðin núverandi kærasta. Hún yfirgaf landið í dag og þá er að sjá hvað gerist fyrir norðan þennan mánuð sem Ítalinn minn ætlar að dvelja þar hjá þeirri þýsku. Hann heldur sínu striki með að fara þangað og skoða Norðurlandið með henni enda ekki annað hægt en að skoða eitthvað af landinu fyrst hann á annað borð er kominn.

Æ þau eru nú ægilega krúttleg saman og vonandi fellur allt í ljúfa löð þegar pilturinn kemur aftur heim. 



 

18 janúar 2008

Matur er mannsins megin

Sú fyrrverandi mætti í gær með fulla tösku af mat. Er ekki leiðin að hjarta mannsins í gegnum mat? Ég nýt a.m.k. góðs af því og fékk þennan fína pastarétt í kvöldmat. Þvílíkur lúxus að þurfa ekki einu sinni að vaska upp. Það virtust vera fagnaðarfundir með þeim skötuhjúum og þau kúrðu saman allt kvöldið. Einhverjar tilfinningasveiflur gerðu þó vart við sig en sem betur fer virðist hún frekar ætla að fara grátleiðina frekar en að grípa til eldhúshnífanna a.m.k. enn sem komið er. Í dag ætla þau að skoða söfn og túristast í Reykjavík svo sjáum við til hvort ég fæ ekki eitthvað gott að borða í kvöld :-) Kolbrún systir kom í gærkvöldi og verður um helgina svo það er fullt hús hjá mér þessa helgi. Alveg ægilega gaman!

16 janúar 2008

Ítölsk sápuópera

Ég lifi í ítalskri sápuóperu þessa dagana og hef mikið gaman af. Sófagesturinn minn sem var að passa kettina og íbúðina fyrir mig á meðan ég var úti er nefnilega ekki við eina fjölina felldur. Þessa viku sem ég var úti ákvað hann að segja upp ítalskri kærustu sinni sem tók því ekki mjög vel og hringir í hann tíu sinnum á dag. Því miður klúðraðist Erasmus skiptinámið hjá honum svo hann kemst ekki inn í HÍ og þarf að fara aftur heim. Fyrst ætlar hann að skreppa norður til Akureyrar og vera þar í mánuð hjá þýska sófagestinum mínum (sem hann kynntist mjög náið hjá mér hummm hummm). Það fór ekki mjög vel í þá fyrrverandi sem ætlar að fljúga hingað til Íslands til að ræða málin. Hún kemur á morgun og nú stendur hann á haus að þrífa íbúðina mér til mikillar ánægju. Það verður því örugglega nokkuð líflegt í Holtinu næstu daga he he he. Greyið strákurinn tekur bara um höfuðið og stynur: þvílíkt mess sem ég er kominn í!!! 

08 janúar 2008

SAS sökkar feitt!!

Ég náði ekki nema þriggja tíma svefni áður en ég flaug til Danmerkur. Ónógur svefn hjá mér þýðir að ég fæ óskaplegan pirring í fæturna og get ekki verið kyrr. Sessunautur minn í flugvélinni (maður á mínum aldri) hefur örugglega verið farinn að halda að ég ætti við einhverja andlega erfiðleika að etja. Ég var á stöðugu iði og ekki bætti úr skák að ég hafði tekið með mér lesefni (The saffron kithcen) sem er afar tilfinningahlaðið. Ég var því stöðugt að fella tár og þurfti reglulega að leggja frá mér bókina í smástund til að missa ekki alveg stjórn á mér. Þegar til Kastrup kom (um hálftólf) hringdi ég í Ingileifar frænku í Kokkedal og var svo heppin að hún og Júlíus voru heima. Planið var að skreppa til þeirra þar til ég flygi til Álaborgar 17.50. Ég skundaði því með töskuna mína í farangursgeymslu og þar með hófust hremmingar mínar á Kastrup flugvelli:

Ja men af hverju ferðu ekki bara beint og tjekkar þig inn í flugið til Álaborgar og losar þig við töskuna þar? Ha, já auðvitað! Tak for det. Þá var að svipast um eftir Sterling bás og hann fann ég á terminal 2. Ja men du skal til terminal 1!! Það er í þessa átt svona 500 m. Henni láðist þó að segja mér að ég gæti tekið ókeypis strætó þangað svo ég rölti þenna hálfa kílómeter með töskuna í eftirdragi. Loksins komst ég á leiðarenda og sá afgreiðslubás sem ég gekk að og sagðist eiga flug með Sterling til Álaborgar. Það var eins og ég hefði hreytt blótsyrðum í starfsfólkið því það nánast hrækti út úr sér STERLING við vitum ekkert um það og getum ekkert hjálpað þér. Ég ráfaði því lengra inn og sá mannlausan og lokaðan bás merktan Sterling. Ég stoppaði flugvallarstarfsmann og endurtók að ég þyrfti að tjekka mig inn til Álaborgar seinna um daginn með Sterling. Ja men du skal til terminal 2! AFTUR?! Hann var samt svo almennilegur að benda mér á ókeypis strætóinn. Ég var því aftur komin á byrjunarreit á terminal 2. Ja men du skal til terminal 1! Já en ég var að koma þaðan? Ja men du skal der. Þú getur tjekkað þig inn í sjálfsala hérna en þú þarft að fara með töskuna á terminal 1. Ég tjekkaði mig inn og aftur tók ég strætó á terminal 1 og enn var Sterling básinn lokaður. Þá kom strákur á harðahlaupum með tösku í eftirdragi og ávarpaði mig á ensku. Hann var að koma frá Austurríki og átti flug til Karup en var ekki viss með hvaða flugfélagi. Ég fór með honum í SAS básinn og þar var okkur hent öfugum út af því hann hélt það væri KANNSKI Sterling sem hann ætti að fljúga með. Við hringsnerumst dágóða stund um sjálf okkur og hann var alveg að fara yfir um því hann var að missa af fluginu. Ég spurði hann þá hvort hann væri alveg viss um að það væri Sterling sem hann ætti flug með og fékk að sjá miðann hans. Þar sást ekkert hvaða flugfélagi flugið tilheyrði svo við fórum einu sinni enn í SAS básinn og tókst að pína þau til að skoða flugmiðann sem reyndist þá tilheyra SAS. Ja men du sagde du skulle med Sterling!!!! Ég hvæsti á móti að hann hafi ekki verið viss en greyið fékk loksins einhverja aðstoð við að ná fluginu. Ég aftur á móti var búin að eyða TVEIM tímum í þetta hringsól og ákvað að taka bara helvítis töskuna með til Ingileifar og tók lest í 50 mín. til hennar. Þar beið mín mjög svo seinn hádegisverður en að sama skapi afskaplega vel þeginn enda ég ekki búin að borða neitt allan daginn. Þetta varð þó ekki nema 45 mín stopp því ég þurfti að ná lestinni til baka í tíma.

Enn var ég komin á Kastrup og hafði 20 mínútur til að losa mig við töskuna og koma mér í vélina. Í öllu stressinu datt úr mér hvaða hlið ég ætti að fara til og eftir að hafa hlaupið langar leiðir fann ég loks skjá þar sem stóð á Álaborg hlið A28 sem þýddi að ég þurfti að hlaupa langleiðina til baka og það var verið að hleypa út í vél þegar ég loksins kom. Ég sýndi starfsmanninum miðann minn en hann fleygði honum nánast framan í mig og sagði: þetta er STERLING, við vitum ekkert um það. Nú voru góð ráð dýr aðeins fimm mínútur í brottför!! Ég hljóp eins og fætur toguðu alla leið niður til að leita að skjá með brottförum og sá þá að flugnúmerið mitt var við hlið A24. Þá voru TVÆR mínútur í brottför og á skjánum stóð að búið væri að loka hliðinu. Ég hugsaði með mér að það væri samt enn séns og hljóp eins og fjandinn væri á hælunum á mér að hliði A24. Nánast mállaus af mæði stundi ég upp við starfsfólkið hvort ég væri búin að missa af vélinni. Nei þá hafði verið beðið aðeins og ég skjögraði inn löðursveitt með hjartslátt upp á 200. Eftir að vélinni hafði verið lokað var tilkynnt seinkun upp á 20 mín því vélin fengi ekki flugtaksleyfi strax. Ég sökk niður í sætið af skömm yfir að hafa orðið þess valdandi en flugstjórinn var svo almennilegur að skella skuldinni á danska loftferðaeftirlitið. Ég komst sem sagt á endanum til Álaborgar útkeyrð eftir hremmingar dagsins. Þar biðu Valur og Vordís en þau voru orðin viss um að ég hefði gefið upp rangan flugtíma og ætluðu að bíða eftir næstu vél. Það var nefnilega ekki tilkynnt á skjánum að vélinni hefði seinkað, örugglega af því þetta var STERLING. Eftir framkomu starfsmanna SAS er það á hreinu að ég mun ALDREI fljúga með því skítaflugfélagi!!

06 janúar 2008

Á leiðinni til Danmerkur

Ég er búin að komast að því að hinn bjargarlausi ítalski karlmaður er mýta!! Sófagesturinn minn hann Roberto stjanar alveg við okkur Franzisku. Heldur á pokunum fyrir okkur úr búðinni, vaskar stöðugt upp og eldaði alveg hreint dásamlegt pasta handa okkur í kvöld. Við erum búin að vera geysilega aktív í dag, fórum í langan göngutúr um bæinn að skoða helstu staði eins og Háskólann, Bónus og Kolaportið. Síðan bakaði ég unaðslega súkkulaðiköku með rjóma. Því næst fórum við á brennu í Hafnarfirði og svo eldaði Roberto handa okkur. Ég ligg nánast afvelta af ofáti núna. I think I will keep him!!
Í nótt legg ég af stað til Danmerkur og skil kisurnar mínar eftir í umsjá Roberto næstu viku. Ég verð þvílíkt fegin að losna við allar þessar sprengingar sem eru að gera mig brjálaða. Þá á ég við flugelda. Það er búið að vera non stop sprengingar í allt kvöld og í gærkvöldi var sama sagan. Það mætti halda að einhverjir nágrannar mínir hafi komist yfir heilan gám af þessum ófögnuði.
Ég er búin að pakka og panta leigubílinn og nú bíð ég bara eftir að tíminn líði. Danmark her kommer jeg!!

03 janúar 2008

Kominn í leitirnar!!!

Ég var vakin klukkan hálfníu í morgun með þeirri gleðifrétt að Dirty Harry væri fundinn heill á húfi. Ég var eitthvað að hafa áhyggjur af hvernig ég ætti að aftengja þjófavörnina því ég er auðvitað bara með varalykilinn sem setur allt í gang þegar ég opna. Þetta elskulega lögreglupar bauðst þá til að bíða eftir mér og aðstoða mig við að kippa henni úr sambandi. Þegar til kom þurfti þess þó ekki því bíllinn var ólæstur og þjófavörnin ekki í gangi. Ég spurði hvar hann væri og þegar svarið var rétt hjá þeim stað þar sem honum var stolið þá var það fyrsta sem mér flaug í hug að Valur hefði gleymt því hvar þeir höfðu lagt honum. Hann er nefnilega ansi gleyminn drengurinn og utan við sig stundum. Það reyndist þó ekki vera heldur var bíllinn á bílastæði stutt frá Orkuhúsinu og ég varð ansi ánægð að sjá bensínmælinn hærra uppi en hann hafði verið.

Nú er ég byrjuð að telja niður fyrir Danmerkurferð og keypti mér flugfar með Sterling frá Kastrup til Álaborgar í dag á 230 DKK sem er nú bara ódýrara en að taka lestina. Ég þarf að vísu að eyða hluta úr deginum í Köben því ódýrasta farið var ekki fyrr en um sexleytið. Það er hið besta mál finnst mér, geymi bara töskuna á flugvellinum og skrepp í bæinn. Eins gott það verði ekki rok og rigning eins og er hér upp á hvern dag.

02 janúar 2008

Dirty Harry er týndur!!

Nafnið vísar í bílnúmerið á Galantinum hans Vals sem er DH 665. Mér fannst það hæfa honum enda svartur og mystískur (með skyggða afturglugga) eins og nafni hans í kvikmyndinni. Á nýársnótt hefur einhver ekki nennt að labba heim eftir áramótadjammið á Broadway því vinur Vals hafði látið geyma jakkann sinn og voru bíllyklarnir í vasanum. Hann greiddi uppsett geymslugjald en þegar hann ætlaði að sækja jakkann aftur og afhendir geymslumiðann þá er jakkinn bara horfinn og bíllyklarnir þar með. Bílhvarfið uppgötvaðist þó ekki fyrr en kvöldið eftir þegar menn voru að skreiðast á lappir eftir áramótagleðina. Ég vona bara að bílþjófurinn hafi látið sér nægja að komast staða á milli um nóttina og skilið bílinn síðan eftir einhvers staðar. Alla vega þá bið ég fólk að hafa augun opin fyrir mig. Verst ég var nýbúin að kaupa slatta af bensíni á bílinn.