Ég er búin að liggja í rúminu alla helgina og snýta mér í heilu klósettrúllurnar en er eitthvað að skríða saman sem betur fer. Nú er ég komin yfir í hvítlauks og hunangskúrinn.
Nú heyri ég í fréttunum að það séu komnar neyðaráætlanir í skólum vegna kreppunnar til að fylgjast með hvort börnin komi með lélegra nesti eða hætti að borða heitan mat. Mér varð nú hugsað til nestispakkans hans Vals á sínum tíma sem þótti víst ekki merkilegur. Ávextir voru munaður enda Bónus og aðrar lágvöruverslanir ekki til og hvað þá mæðrastyrksnefnd og ef boðið hefði verið upp á heitan mat á þeim tíma hefði hann örugglega ekki getað nýtt sér það. Nógu erfitt var að skrapa saman fyrir mjólkurmiðum fyrir mánuðinn. Einhvern tíman var svo hart í búi hér á heimilinu að ég bakaði kleinur til að hann fengi eitthvað nesti með sér og viðbrögð skólans voru skammir fyrir lélegt nesti. Nú þurfa margar fjölskyldur að upplifa raunveruleika einstæðra foreldra (sem oft heyrist að hafi það svo gott) og þá er það allt í einu orðinn skelfilegur raunveruleiki. Ég var einmitt að rifja það upp með Val hér áðan að oft var hvítur sykur eina áleggið sem til var á brauðið í lok mánaðarins. Ekki það að ég sé eitthvað mótfallin því að fylgst sé með hvort börn fái ekki nægan mat og reyndar finnst mér að öll grunnskólabörn eigi að fá ókeypis heitan mat í skólanum. Samt sem áður er ég á því að með því að hamra stöðugt á hvað kreppa sé skelfileg að þá sé verið að senda börnum skilaboð um að peningar skipti öllu máli. Í staðinn fyrir að horfa stöðugt á hvað ekki sé lengur hægt að leyfa sér þá finnst mér mikilvægara að horfa á hvað hægt er að leyfa sér án þess að það kosti krónu. Það þarf hreinlega hugarfarsbreytingu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli