Þessi vika er búin að vera ótrúleg. Ég hef varla haft tíma til að anda eða spjalla við sófagestina mína. Ég gleypi í mig morgunmatinn með Mogens og er svo rokin og sé hann ekki fyrr en seint á kvöldin. Hann er svo að fara á morgun.
Ég átti samt góðan laugardag með honum um daginn þegar við fórum á opnunina á sýningunni. Fyrst mættum við samviskusamlega á mótmælin og ég sendi hann til að taka myndir af stemmningunni. Á eftir fórum við á sýninguna og hittum Henrik og frú sem eru eitt það yndislegasta fólk sem ég hef kynnst. Eftir sýninguna var það kaffi hjá þeim á meðan við biðum eftir að matarboðið byrjaði. Spænska tengdafólkið sem er víst tengdafólk dóttur Henriks var með í för svo við þurftum tvo bíla til að komast í matarboðið sem var haldið af sonum Sveins heitins. Það var alveg meiriháttar gaman enda Henrik hrókur alls fagnaðar að vanda og um kvöldið tróðu þeir bræður upp með honum með gítarspil og söng. Hann kenndi þeim nefnilega að syngja lög á ítölsku, dönsku og spænsku þegar þeir voru litlir og þetta var alveg stórkostlegt. Henrik er einn af þeim fáu sem hefur varðveitt barnið í sér þó hann sé kominn vel yfir sjötugt og gerir sér alltaf far um að eyða tíma með krökkunum. Hann vílar ekki fyrir sér að rúlla sér niður brekku ef sá gállinn er á honum og krakkarnir hreinlega dýrka þennan skrýtna kall sem er einn af þeim :D Mér finnst hreinlega forréttindi að fá að kynnast honum og Kirsten. Þau voru kærustupar þegar þau voru unglingar en giftust svo öðrum. Þegar þau voru bæði búin að missa maka sína náðu þau saman aftur og eru eins og ástfangnir unglingar :)
Best að elda kvöldmatinn. Mogens kom með fullan poka af lambakótilettum, sagðist ekki hafa þorað annað því það væri aldrei að vita hvað væru margir í mat hérna hahaha. Ég eldaði taílenskan kjúklingarétt í gær og var í því að bæta við diskum því alltaf bættist einhver við.
23 nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli