21 júlí 2008

Ættarmót


Begga í blindandi ruslatínslu leidd áfram af Pétri

Mikið lifandis skelfing var gaman á þessu ættarmóti og frábært hvað það var vel mætt. Veðrið lék við okkur og mér fannst alveg ferlegt að þurfa að yfirgefa Austurlandið í blíðskaparveðrinu sem var þar í gær. Ég fór þó heim með einn titil í farteskinu sem er meistari í rúmfataásetningu (heitir það annars ekki það). Þarna kom sér vel að vera í þjálfun eftir alla sófagestina sem ég hef búið um síðustu mánuði. Það dugði þó ekki til því Kristínarleggurinn skíttapaði fyrir Soffíuleggnum sem er náttúrulega skammarlegt fyrir langfjölmennasta legginn. Nú er bara að nota næstu fimm ár í æfingar í þúfnahlaupi því ég gæti best trúað því að menn taki doktor Hjálmar á orðinu og bæti því inn í íþróttagreinakeppnina. Hver veit hvað gerist svo næsta sumar á Rauðholtsættarmótinu, ég er sko í undirbúningsnefnd fyrir  það mót. 

Eftir að hafa keyrt bæði suður og norðurleiðina þessa helgi þá er ég með það á hreinu að framvegis fer ég norðurleiðina svo framarlega sem hún verður fær. Það má vel vera að suðurleiðin sé beinni en það eru ábyggilega 50 einbreiðar brýr á leiðinni þannig að ég var alltaf að hægja niður. Svo er hundleiðinlegur og seinfarinn kaflinn frá Höfn og í Egilsstaði (ég hafði auðvitað ekki rænu á að fara fjarðarleiðina). Á bakaleiðinni keyrði ég norðurleiðina og var með krúsið á nánast allan tímann (á löglegum hraða auðvitað) þannig að bæði vorum við fljótari og bíllinn eyddi miklu minna. 

Engin ummæli: