Ég fékk sófagesti frá Frakklandi, hjón rúmlega fimmtug. Við Ely erum búnar að vera í sambandi á msn síðastliðna 3 mánuði og því var þetta eins og að fá gamla vini í heimsókn. Þau gistu tvær nætur í byrjun ferðar og svo eina nótt í lokin og við erum búin að hafa það ægilega notalegt saman, ég er m.a. búin að læra að búa til franskar pönnukökur eða crépes (bæði sætar og saltar) og ávaxtasúfflei. Í gærkvöldi elduðum við sem sagt saman, ég steikti lúðu með bönunum og gráðostsósu og Ely bjó til súffleiið. Eftir að við höfðum borðað á okkur gat af aðalréttinum og biðum eftir að súffleiið bakaðist skrapp Ely á msn að athuga statusinn heima þar sem tvær uppkomnar dætur þeirra voru að passa 8 ára bróður sinn sem reyndist vera með yfir 39 stiga hita en kartöflurnar spretta vel. "Við sækjum ykkur svo á lestarstöðina á morgun" sagði dóttir hennar sem varð til þess að allt í einu áttuðu þau sig á því að þau áttu flug kl. eitt eftir miðnætti á föstudagskvöldinu en ekki laugardagskvöldinu. Þið getið rétt ímyndað ykkur panikkið sem greip alla en sem betur fer stóð það ekki lengi því klukkan var nú bara hálfníu og nægur tími til stefnu því auðvitað skutlaði ég þeim til Keflavíkur og við gátum gætt okkur á súffleiinu áður en við lögðum í hann. Ég gat vel sett mig í þeirra spor því það sama gerðist hjá okkur á Ítalíu að við misstum úr einn dag. Við uppgötvuðum það nú sem betur fer nokkrum dögum fyrir brottför en gátum engan vegin áttað okkur á hvenær við höfðum misst úr dag því við vorum allar þrjár með það á hreinu að það væri föstudagur þegar það var í raun laugardagur. Líklegasta skýringin er náttúrulega sú að okkur hafi verið rænt af geimverum ha ha ha. En allavega ég er byrjuð að plana heimsókn til Ely og Erics í Besancon næsta ár með viðkomu hjá Karine í París og kannski fæ ég fleiri Frakka í heimsókn sem ég get komið við hjá.
13 júlí 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
this post i think told about us ...ahahah must be about our last night at your home and our little aventure ....with the schedule !:)
Skrifa ummæli