Ég fór í langt ferðalag í gær að heimsækja mömmur Minnu og Juhani í tilefni mæðradagsins. Hér í Finnlandi er mæðradagurinn mjög stór og á föstudag og laugardag var mikið að gera í búðum því allir voru að kaupa gjafir fyrir mæður sínar. Við byrjuðum á að keyra klukkutíma norður af Helsinki til mömmu hans Juhani og fengum kaffi og köku þar. Síðan var farið enn norðar og lengst út í sveit til mömmu hennar Minnu. Ég heilsaði upp á kýrnar og hestana en þau eiga tvo íslenska hesta og nokkra smáhesta (ponys) sem eru ægilega krúttlegir sérstaklega folaldið. Kisan þeirra er með vikugamla kettlinga og svo eru þrír hundar. Eftir mat var lagkaka og kaffi og svo var haldið til ömmunnar og gúffað í sig meiri kökum og kaffi. Á bakaleiðinni tókum við svolítinn krók og kíktum við á sumarhús sem Minna og Juhani eru að spá í að kaupa. Þrátt fyrir allan þennan akstur í gær þá sá ég lítið annað en tré og aftur tré og svo glitti í hús og vötn inni á milli trjánna. Þetta var samt mjög skemmtilegur dagur og gaman að hitta allt þetta fólk og njóta góða veðursins. Í kvöld fórum við svo út að borða á taílenskan veitingastað. Á morgun verður langur dagur hjá mér. Mæti í Adulta klukkan 9 og verð til 6. Nú ætla ég að skríða í bólið er ennþá lúin eftir ferðalagið í gær.
12 maí 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli