Mér skilst að það jaðri orðið við neyðarástand á landinu. Það lítur nefnilega út fyrir að íbúfen sé uppurið í öllum apótekum landsins og ný sending ekki í sjónmáli á næstunni. Nú er lag fyrir þá sem lúra á gömlum birgðum að notfæra sér þennan skort og koma pillunum sínum í verð. Ég væri alveg til í að borga tvöfalt verð fyrir eins og tíu töflur. Ég er nefnilega með slitgigt í axlar- og hnjáliðum og íbúfenið svínvirkar á hana af því það er bæði verkjastillandi og bólgueyðandi. Eins og fleiri þá er ég löngu búin með allt mitt íbúfen og hef svo sem ekkert þurft á því að halda lengi fyrr en í fyrrakvöld að ég fékk þetta hrikalega verkjakast í hægri axlarlið. Það var sama hvað ég reyndi að anda mig í gegnum verkinn, ekkert gekk og þegar ég var farin að gnísta tönnum af sársaukanum þá lét ég mig hafa það að taka 3 parasetamól sem var skárra en ekkert. Daginn eftir kveikti ég allt í einu á perunni að ég hafði af rælni keypt Voltaren krem um daginn og var fljót að maka því á mig. Það virkar svo sem ágætlega en jafnast samt ekki á við íbúfenið. Ég vil bara koma því á framfæri að ef einhver sem mig þekkir er á leið til útlanda þá væri vel þegið að viðkomandi myndi smygla inn svona eins og einum pakka fyrir mig af íbúfeni (það heitir víst ibuprofen í Danmörku og kannski í fleiri löndum). Það er kannski vissara að taka það fram að það er algjör óþarfi að
fela það innvortis.
fela það innvortis.
4 ummæli:
þetta er að sækja vatnið yfir lækinn að láta smygla þessu til landsins. Þarf yfirleitt að nota þetta einu sinni í mánuði, fæ þá beinverki og mígreni í 1-3 daga. Hef fyrir venju að hafa box í öllum töskum og bakpokum. Síðan er ég með varabirgðir í vinnunni og heima. Hljóma eins og versti dópisti en ætti að geta séð af eins og 10 stk. Kem suður 1. nóv. er það nógu snemmt eða á ég að senda með pósti.
Kristín María
Hmmm 1. nóv. er á fimmtudag. jú ætli ég lifi það ekki af, smyr bara voltaren kreminu á mig þangað til :-)
Hefðir betur mynnst á þetta fyrr hefði getað tekið slatta með 1/2 mini frá london bkv Sibbi
Já bölvaður klaufaskapur í mér Sibbi. Varstu annars með mini í handfarangri? Mér skilst að það sé alltaf verið að minnka farangurinn sem má taka með af því fólk er að þyngjast svo mikið.
Skrifa ummæli