30 nóvember 2008
Myrkur og kuldi
Hér á bæ hefur að sjálfsögðu verið dregið úr útgjöldum í matarinnkaupum og hafa kisurnar ekki heldur sloppið við sparnaðaraðgerðir. Mér varð það á að kaupa ódýran euroshop kattamat en þær svelta sig frekar í hel en borða hann. Scarlet er stöðugt að opna skápinn þar sem ég geymdi einu sinni kattamatinn til að gefa mér til kynna að hún vilji ekki sjá það sem er í dallinum og það er horft á mig ásökunaraugum þegar ég loka aftur og þykist ekki skilja hvað hún er að gefa í skyn. Það lítur út fyrir að ég verði að gefa mig og kaupa frekar dýrari matinn handa þeim.
Á þriðjudag byrjar svo yfirsetan í prófunum!
24 nóvember 2008
Farvel
Ég sé fram á nokkuð rólega viku og ætti því að ná að slappa aðeins af áður en prófyfirsetan byrjar í næstu viku. Þá verður það stress fram að jólum.
23 nóvember 2008
Kátt í koti
Ég átti samt góðan laugardag með honum um daginn þegar við fórum á opnunina á sýningunni. Fyrst mættum við samviskusamlega á mótmælin og ég sendi hann til að taka myndir af stemmningunni. Á eftir fórum við á sýninguna og hittum Henrik og frú sem eru eitt það yndislegasta fólk sem ég hef kynnst. Eftir sýninguna var það kaffi hjá þeim á meðan við biðum eftir að matarboðið byrjaði. Spænska tengdafólkið sem er víst tengdafólk dóttur Henriks var með í för svo við þurftum tvo bíla til að komast í matarboðið sem var haldið af sonum Sveins heitins. Það var alveg meiriháttar gaman enda Henrik hrókur alls fagnaðar að vanda og um kvöldið tróðu þeir bræður upp með honum með gítarspil og söng. Hann kenndi þeim nefnilega að syngja lög á ítölsku, dönsku og spænsku þegar þeir voru litlir og þetta var alveg stórkostlegt. Henrik er einn af þeim fáu sem hefur varðveitt barnið í sér þó hann sé kominn vel yfir sjötugt og gerir sér alltaf far um að eyða tíma með krökkunum. Hann vílar ekki fyrir sér að rúlla sér niður brekku ef sá gállinn er á honum og krakkarnir hreinlega dýrka þennan skrýtna kall sem er einn af þeim :D Mér finnst hreinlega forréttindi að fá að kynnast honum og Kirsten. Þau voru kærustupar þegar þau voru unglingar en giftust svo öðrum. Þegar þau voru bæði búin að missa maka sína náðu þau saman aftur og eru eins og ástfangnir unglingar :)
Best að elda kvöldmatinn. Mogens kom með fullan poka af lambakótilettum, sagðist ekki hafa þorað annað því það væri aldrei að vita hvað væru margir í mat hérna hahaha. Ég eldaði taílenskan kjúklingarétt í gær og var í því að bæta við diskum því alltaf bættist einhver við.
14 nóvember 2008
Mótmælastaða og kokkteilboð
12 nóvember 2008
Full Monty
Hér er kannski atvinnutækifæri fyrir íslenska full monty karla í kreppunni ;)
Svantes lykkelige sang
Já maður er aldeilis að forframast í félagsskapnum :)
09 nóvember 2008
Með hor í nös og krepputal
Ég er búin að liggja í rúminu alla helgina og snýta mér í heilu klósettrúllurnar en er eitthvað að skríða saman sem betur fer. Nú er ég komin yfir í hvítlauks og hunangskúrinn.
Nú heyri ég í fréttunum að það séu komnar neyðaráætlanir í skólum vegna kreppunnar til að fylgjast með hvort börnin komi með lélegra nesti eða hætti að borða heitan mat. Mér varð nú hugsað til nestispakkans hans Vals á sínum tíma sem þótti víst ekki merkilegur. Ávextir voru munaður enda Bónus og aðrar lágvöruverslanir ekki til og hvað þá mæðrastyrksnefnd og ef boðið hefði verið upp á heitan mat á þeim tíma hefði hann örugglega ekki getað nýtt sér það. Nógu erfitt var að skrapa saman fyrir mjólkurmiðum fyrir mánuðinn. Einhvern tíman var svo hart í búi hér á heimilinu að ég bakaði kleinur til að hann fengi eitthvað nesti með sér og viðbrögð skólans voru skammir fyrir lélegt nesti. Nú þurfa margar fjölskyldur að upplifa raunveruleika einstæðra foreldra (sem oft heyrist að hafi það svo gott) og þá er það allt í einu orðinn skelfilegur raunveruleiki. Ég var einmitt að rifja það upp með Val hér áðan að oft var hvítur sykur eina áleggið sem til var á brauðið í lok mánaðarins. Ekki það að ég sé eitthvað mótfallin því að fylgst sé með hvort börn fái ekki nægan mat og reyndar finnst mér að öll grunnskólabörn eigi að fá ókeypis heitan mat í skólanum. Samt sem áður er ég á því að með því að hamra stöðugt á hvað kreppa sé skelfileg að þá sé verið að senda börnum skilaboð um að peningar skipti öllu máli. Í staðinn fyrir að horfa stöðugt á hvað ekki sé lengur hægt að leyfa sér þá finnst mér mikilvægara að horfa á hvað hægt er að leyfa sér án þess að það kosti krónu. Það þarf hreinlega hugarfarsbreytingu.
05 nóvember 2008
Nýja Valbjörg
Skilaboð til fjölskyldunnar: Ef þið smellið á Valbjargar linkinn þá ætti nýja síðan að koma upp. Ég var að lagfæra stillingarnar. Látið mig vita ef þið komist ekki inn á hana.
Ég var líka að setja inn tengla hérna á Netfrænkunni á blogg litlu baunanna þar á meðal glænýja baunans í Árósum :D Það koma örugglega fljótlega inn myndir þar.
04 nóvember 2008
Spenna í lofti!!!!
Það er aldeilis spenna í gangi núna. Ég tími varla að fara að sofa. Dilja búin að missa vatnið og komin á fæðingardeildina og Obama vonandi að vinna forsetakosningarnar!!
Reyndar er ég með einhverja kvefpest og neyðist því til að koma mér í háttinn. Nemendur mínir hafa verið afskaplega duglegir að gefa mér hinar ýmsu uppskriftir sem duga gegn kvefi. Núna er ég með tilraunastarfsemi í gangi að setja fjallagrös út í hunang og láta standa í einn dag á hlýjum stað. Veiða svo grösin upp og búa til te.
Annars er þessi aðferð með hvítlauk (eða lauk segja sumir) í stað fjallagrasanna mjög öflugt kvefmeðal. Svo var einhver uppskrift frá Lettlandi með rauðrófusafa og einhverju sem ég man ekki hvað er.
Ég fór í dag og óskaði eftir yfirsetu í prófum í HÍ og var tekið opnum örmum enda lækkar meðalaldur þeirra sem sitja yfir verulega með mig innanborðs og er ég þó ekkert unglamb. Man eftir einni í fyrra sem kom á 10 mínútna fresti og spurði hvort hún ætti ekki að leysa mig af. Ég svaraði alltaf á sömu lund að ég myndi hóa í hana ef mig vantaði afleysingu. Held líka að margar þeirra gömlu séu hálf nervusar við tölvuprófin en það er alltaf að aukast að tölvurnar séu notaðar við próftöku.
En mikið verður gaman þegar litli Sindra- og Diljusonur verður kominn í heiminn :D
02 nóvember 2008
Fiskiveisla
Ég var að átta mig á hvað tíminn flýgur, það er kominn nóvember og nú þarf að finna heppilega dagsetningu fyrir laufabrauðsbakstur. Jiii það eru bara að koma jól!!! Þar sem ég er í harkinu í vinnumálum þá ætla ég að reyna að fá sama djobbið og í fyrra, að sitja yfir í prófum í Háskólanum. Alveg ágætis uppgrip og fínt að fá einhvern aur í janúar.
Vinafólk mitt frá Danmörku er búið að vera hjá mér síðustu viku en þau eru að fara í nótt og ég á eftir að sakna þeirra. Í gærkvöldi var veislumáltíð hjá okkur því ég á svo mikinn skötusel og humar sem þarf að koma í lóg. Að sjálfsögðu var Brian settur í kokkaríið enda algjör meistarakokkur og nammi namm hvað þetta var gott hjá honum. Ég er að hamast við að borða fiskinn úr kistunni og er langt komin með þorskinn og humarinn. Valur ætlar nefnilega að skella sér á sjóinn aftur eftir áramótin enda lítið að gera smíðavinnunni þó enn hafi hann vinnu við það.