31 október 2007

Lækjarnes prinsessan

Það eru komnar myndir af dúllunni á Valbjörgu :-D

28 október 2007

Veisla í Holtinu

Hér er búin að vera standandi veisluhöld í allan dag. Kolbrún A kom í heimsókn með krakkana þannig að ég ákvað að baka eplaköku og pönnsur. Ég stóðst að sjálfsögðu ekki freistinguna og gúffaði í mig vænum skammti af heitri eplaköku með rjóma. Daníel og Kolbrún tóku sig svo til og klipptu nokkra dreadlokka úr feldinum á Snædísi þannig að í stað þess að líta út eins og rastafari þá er hún núna eins og miðaldra pönkari. Daníel er svo kominn með það verkefni að sjá um að kemba henni þegar hann kemur í heimsókn. Ég fæ auðvitað ekki að koma nálægt henni, hræðilega konan með lyfjadæluna.
Í kvöld eldaði ég svo lambalæri a la mamma fyrir allt strákastóðið mitt og var sannkölluð jólastemning í holtinu. Við borðuðum nefnilega inn í stofu, kveiktum á kertum út um allt og drukkum malt og appelsín með matnum. 

25 október 2007

Burðardýr óskast!!

Mér skilst að það jaðri orðið við neyðarástand á landinu. Það lítur nefnilega út fyrir að íbúfen sé uppurið í öllum apótekum landsins og ný sending ekki í sjónmáli á næstunni. Nú er lag fyrir þá sem lúra á gömlum birgðum að notfæra sér þennan skort og koma pillunum sínum í verð. Ég væri alveg til í að borga tvöfalt verð fyrir eins og tíu töflur. Ég er nefnilega með slitgigt í axlar- og hnjáliðum og íbúfenið svínvirkar á hana af því það er bæði verkjastillandi og bólgueyðandi. Eins og fleiri þá er ég löngu búin með allt mitt íbúfen og hef svo sem ekkert þurft á því að halda lengi fyrr en í fyrrakvöld að ég fékk þetta hrikalega verkjakast í hægri axlarlið. Það var sama hvað ég reyndi að anda mig í gegnum verkinn, ekkert gekk og þegar ég var farin að gnísta tönnum af sársaukanum þá lét ég mig hafa það að taka 3 parasetamól sem var skárra en ekkert. Daginn eftir kveikti ég allt í einu á perunni að ég hafði af rælni keypt Voltaren krem um daginn og var fljót að maka því á mig. Það virkar svo sem ágætlega en jafnast samt ekki á við íbúfenið. Ég vil bara koma því á framfæri að ef einhver sem mig þekkir er á leið til útlanda þá væri vel þegið að viðkomandi myndi smygla inn svona eins og einum pakka fyrir mig af íbúfeni (það heitir víst ibuprofen í Danmörku og kannski í fleiri löndum). Það er kannski vissara að taka það fram að það er algjör óþarfi að 
fela það innvortis.

21 október 2007

Læknisvitjun

Ég get sko ekki kvartað yfir þjónustunni hjá henni Kolbrúnu grasalækni. Hún vitjar manns líka í draumi!! Síðasta vika var ansi strembin hjá mér. Byrjaði á því síðustu helgi að þrífa og stjórnast bæði laugardag og sunnudag enda búin að koma mér í stjórn AA hússins míns og held utan um peningamálin þar. Við vorum að taka húsið í gegn, þrífa og mála og ég var auðvitað mætt 9 bæði laugardag og sunnudag og var á fullu báða dagana. Síðan tók við alla vikuna að fara yfir ein 35 viðtöl nemenda minna sem er afskaplega seinlegt verk enda sum þeirra allt upp í 50 bls. ásamt náttúrulega íslenskukennslunni. Heldur var farið að draga af mér þegar leið á vikuna og á endanum fékk ég Kolbrúnu grasalækni í heimsókn eina nóttina, greinilega að minna mig á að ganga ekki fram af mér. Sem betur þarf ég ekki að fara yfir nein nemendaverkefni þessa vikuna. Verð þó með kynningu á rannsókninni minni á fimmtudagskvöldið og þarf að undirbúa hana en það verður nú ekkert erfitt.

16 október 2007

Reyniberjadýrð

Ég held ég hafi aldrei séð reyniberjatrén jafnfalleg og þessa dagana. Þau eru flest orðin algjörlega lauflaus en þakin eldrauðum berjum. Alveg unaðsleg sjón. Fuglarnir eru samt byrjaðir á veislunni fyrir einhverju síðan en magnið er þvílíkt að það gengur ekkert hjá þeim. Mér sýnist þeir geta gert ráð fyrir berjaveislu nánast fram að jólum. Það væri nú magnað ef trén væru svona á jólunum, bara með jólaskrautið tilbúið á sér :-)

12 október 2007

Skjálfti á Egilsstöðum

Hvað er eiginlega að gerast þarna fyrir austan?! Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að það sé eini staðurinn á landinu þar sem maður er öruggur fyrir jarðskjálftum! Sé ég þá ekki á jarðskjálftakortinu sem ég skoða daglega að kl. 18.39 í dag varð jarðskjálfti á 2 m dýpi upp á 2,5 á Richter 3,3 km ANA af EGILSSTÖÐUM!!! Er þetta eitthvað tengt Kárahnjúkum? Jarðskjálftafræðingarnir hafa víst komist að þeirri niðurstöðu að lætin við Upptyppinga í sumar tengist fyllingu Hálslóns. Það er eins gott ég fylgist með. Reyndar sá ég heilmikla hrinu í byrjun vikunnar í Bárðarbungu (stærsti 3,5 á Richter) og í kringum Upptyppinga og Öskju. Ég er kannski eitthvað hysterísk en mér finnst skrítið hvað er gert lítið úr þessu.

Minnisglöp

Hversu pínlegt er það ekki að heilsa bráðókunnugu fólki. Ég var í búð í dag og sá þá mann álengdar sem ég þekki lítillega. Ég veifa honum um leið og ég geng til hans og segi brosandi: Nei hæ, gaman að sjá þig. Hann heilsar en er hálfkindarlegur í framan og það rennur upp fyrir mér að ég er að taka feil. Fyrirgefðu ég hélt þú værir annar. En hann var ekki á því að samþykkja það strax og spurði: Nú hver? Ég varð eins og asni því allt í einu var nafnið þurrkað út úr höfðinu á mér: uuuuhh ég veit það ekki, ég man ekki nafnið. Mér finnst ég nefnilega líka kannast svo við þig sagði hann, ég heiti Steingrímur. Nei nei nafnið er örugglega ekki Steingrímur sagði ég vandræðalega og dreif mig í burtu. Enn man ég ekki nafnið en það er samt í höfðinu á mér. Hrikalega óþægilegt þegar eitthvað dettur svona úr manni. Þetta bendir líklega til þess að ég sé að safna upp einhverju stressi. Eins gott að staldra við og hægja á mér.

10 október 2007

Illur grunur

Haldiði ekki að Valur hafi hringt í mig í kvöld utan af sjó til að segja mér að kokkurinn á bátnum þyrfti að tala við mig. Drengurinn er þá búinn að vera að væla í honum um að búa til baunajafning eins og mamma. Ég gaf manninum ítarlega lýsingu á jafningnum góða en síðan fór hann að bara að spjalla um hitt og þetta og lofaði Val auðvitað í hástert ásamt því að fræða mig aðeins um sína hagi. Eftir símtalið læddist að mér illur grunur. Ég ætla rétt að vona að þetta sé ekki sami kokkur og var í fyrra! Þá vildi Valur helst að ég klæddist búrku þegar ég var að sækja hann eða keyra um borð svo kokkurinn sæi mig ekki. Hann væri nefnilega hinn mesti kvennaflagari og minn kæri sonur vildi náttúrulega ekki að móðir hans lenti í klónum á þess háttar kóna. Það skyldi þó aldrei vera að ég hafi verið seld fyrir skál af baunajafningi!!

09 október 2007

Saumakonur nútímans

Ég þurfti að koma við í fyrirtæki í gær sem er með ráðgjafaþjónustu fyrir tölvur, tækni og hugbúnað. Þegar ég kom að dyrunum með nafni fyrirtækisins þá var harðlæst en á veggnum við hliðina var svona box sem maður slær inn aðgangskóda og á því var líka dyrabjalla. Ég hringdi bjöllunni og til dyra kom ung kona. Ég sagðist komin að hitta mann sem ynni þarna og hún hleypti mér inn. Mér eiginlega dauðbrá þegar ég kom inn því ég gekk inn í stóran sal með um 30 tölvum og nánast dauðaþögn var þar inni. Fyrir framan tölvurnar sátu þegjandi karlmenn niðursokknir i vinnuna sína. Það var að vísu ekki setið við allar tölvur en þetta var hálf súrrealísk upplifun. Mér leið fyrst eins og ég hefði gengið inn í einhvern dularfullan heim ekki síst vegna þess hvað það var mikil þögn á staðnum. Eftir að hafa jafnað mig aðeins þá fór mér að finnast þessi vinnustaður minna mig á saumastofur í gamla daga þar sem konurnar sátu niðursokknar við að sauma. Í stað saumavélahljóðsins var bara lágvært suð í tölvum. Mikið held ég að þetta sé leiðinleg vinna og lítið gefandi.

08 október 2007

Kaffið bætir hressir og kætir....eða var það maltið?

Mér tókst að vera kaffilaus í gær en verð að viðurkenna svindl í dag. Þetta var langur dagur og klukkan fjögur var ég að byrja að kenna í tvo tíma og augnlokin farin að síga verulega. Ég freistaðist því til að fá mér hálfan kaffibolla og réttlætti það auðvitað með því að líkaminn þyrfti að trappa sig niður ha ha ha. En á morgun kemur nýr dagur og ég geri mitt besta til að eiga kaffilausan dag. Í dag lærði ég að segja kaffi á pólsku og kínversku það er kaffa og jahveh. Á morgun ætla ég að læra að segja kaffi á rússnesku, litháísku, portúgölsku og singalísku. Ætli ég sé nokkuð komin með kaffi á heilann!!

06 október 2007

Hræðileg fráhvörf

Loksins komst ég til Kolbrúnar grasalæknis og er afskaplega ánægð með það. Að hennar sögn er allt að gefa sig inni í mér vegna óhóflegs álags á líkamann síðustu tvö ár. Lifrin er ekki að standa sig, nýrnahetturnar hálf losaralegar og brisið veit ekkert hvað það er að gera. Ég verð því að gera nokkrar breytingar á mataræðinu, sem betur fer borða ég yfirleitt nokkuð heilsusamlega þannig að þetta verða engar róttækar breytingar. Það versta er að þurfa að hætta kaffidrykkju og í dag er fyrsti kaffilausi dagurinn. Líðanin er mjög einkennileg núna, er ekki syfjuð en augnlokin haldast varla uppi og ég á erfitt með að hugsa. Nú er bara drukkið mjólkurbland s.s. heitt vatn með dash af hunangi og slettu af mjólk. Að auki fékk ég einhverjar góðar jurtir til að hjálpa líffærunum að komast í gang aftur. Planið er sem sagt að lifa afskaplega regluföstu og heilsusamlegu lífi á næstunni þar sem hreyfing og hugleiðsla verða fastir liðir. Magadansinn verður því tekinn upp aftur enda alveg glimrandi góð alhliða hreyfing. Á morgun skrifa ég upp vikuáætlun fyrir þetta nýja líf en nú þarf ég hreinlega að nota vökustaura ef ég á að halda augunum opnum lengur ZZZZzzzzzzzzz

03 október 2007

Húff púff...

Ég húffa nú bara og púffa eins og stóri ljóti úlfurinn. Það er nefnilega soldið mikið að gera hjá mér þessa dagana. Er að aðlagast nýja lífinu og skipuleggja mig svo ég komist í rútínu. Ég er búin að sitja yfir bunka af rannsóknaráætlunum í dag sem ég á að skila á föstudag. Notaði svo kvöldið til að undirbúa mig fyrir kennsluna á morgun. Fór samt fyrst  í góðan göngutúr svona til að ná úr mér þreytunni eftir lestur dagsins. Orkan er öll á uppleið, finn heilmikinn mun á mér frá því í síðustu viku þó svo það hafi verið svona mikið að gera hjá mér síðustu daga. Nú ætla ég að fara að sofa svo ég mæti hress á Grund í fyrramálið því ég ætla að syngja fyrir þau :-) já þið lásuð rétt ég ætla að syngja einsöng!!! Þau þurfa að vísu að syngja öll í kór á eftir. Nú eru það tölurnar sem verið er að læra. Ég er búin að raula lagið með sjálfri mér í allan dag: Einn lítill, tveir litlir, þrír litlir fingur, fjórir litlir, fimm litlir, sex litlir fingur......... :-D