Á mánudag fór að bera á undarlegum fnyk í kjallaranum sem olli okkur Adam miklum heilabrotum. Í gær hafði þessi viðbjóðslegi fnykur magnast það mikið að hann lagði um allt hús. Mér var orðið um og ó því fýlan minnti mig á nályktina sem lagði um allt þegar hann Kalli minn dó í kjallaraherberginu sínu. Ég var alvarlega farin að íhuga að brjótast inn hjá leigjandanum sem tók við herberginu þegar Kalli var allur og var farin að halda að það hvíldu einhver álög á þessu blessaða herbergi svo þeir sem þar byggju enduðu ævi sína þar. Sem betur fer ákvað ég nú að fara fyrst inn í herbergið hans Vals og þar mætti mér hreinlega veggur af þessum ógeðslega fnyk. Það fyrsta sem mér datt í hug var að nú hefði frystikistan dottið aftur úr sambandi eins og í vor þegar allur humarinn sem Valur var búinn að nurla saman eyðilagðist. Ég opnaði kistuna en guð sé lof þá var þar allt eðlilegt og gaddfreðið. Þá fór ég að leita að upptökum fýlunnar og viti menn, sé ég ekki plastpoka á gólfinu við hliðina á kistunni með einhverjum pakkningum í. Haldið þið að það hafi ekki verið humarinn hans Vals sem hann er búinn að vera að safna í haust!! Það lá við að kvikindin skriðu á móti mér svo úldnir voru þeir orðnir. Ég held að herra Valur ætti bara að hætta að koma heim með humar því hann virðist allur enda í ruslatunnunni. Ég var samt grútsvekkt því ég var búin að plana að elda dýrindis veislu úr skötusel og humri næst þegar hann kæmi í land. Jæja það verður þá bara skötuselsveisla í þetta skiptið. Sem betur fer eru heldur ekki álög á herberginu hans Kalla.
19 september 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Úps sorrý Daníel ég ætlaði ekki að eyða kommentinu þínu. Smá tæknileg mistök hjá mér.
Skrifa ummæli