28 september 2007

Bremsulaus kona og spangólandi köttur


Dagurinn í dag byrjaði eiginlega í gærkvöldi. Mér gekk hálfbrösuglega að sofna og þegar ég loks var við það að festa svefn þá byrjar fröken Snædís að ráfa um vælandi eins og sírena. Þá mundi ég að hún átti eftir að fá lyfin sín og staulaðist fram úr en hún var að sjálfsögðu fljót að láta sig hverfa þegar ég birtist enda veit hún alveg hvenær er komið að lyfjagjöf. Ég þurfti því að sitja fyrir henni og bíða eftir að spangólsþörfin kæmi aftur yfir hana því svei mér þá þetta er eins og hún sé að spangóla. Jeminn góður nú átta ég mig á að það var fullt tungl í gærkvöldi. Það skyldi þó ekki vera eitthvað varúlfsblóð í henni! Nú jæja ég náði henni á endanum og skaut upp í hana þessum 0.1 ml (ekki 1.0 í þetta skiptið) af geðlyfjum. Rek ég ekki augun í að járnmixtúran mín hafði fokið úr glugganum á gólfið, tappinn brotnað og restin af mixtúrunni (sem betur fer var ekki mikið í flöskunni) á gólfinu. Ástæðan fyrir því að hún var út í glugga ásamt fullt af öðru úr ísskápnum er að Adam uppgötvaði að sósuskál hafði farið á hliðina inn í ísskáp og fullt af sósu runnið úr. Ég var farin í háttinn og við ákváðum að þurrka mestu sósuna upp og svo ætlaði ég að þrífa þetta í dag. Nú jæja aftur að mixtúrunni, ég gríp einhvern tuskubleðil og hef ekki einu sinni fyrir því að bleyta hann heldur moppa mestu bleytuna og skríð svo aftur í rúmið. Heldur var aðkoman að eldhúsinu óspennandi þegar ég skreiddist á lappir kl. 9 í morgun. Scarlett ræfillinn var að reyna að kroppa í sig einhvern þurrmat úr matardallinum sem staðsettur var við vegginn en fyrir framan hann var brúnt klístur, sem sagt mixtúran sem ég hafði dreift úr með tuskunni. Hún gat ekki staðið í klístrinu og hafði troðið sér á hlið upp fyrir dallinn og þurfti hálfpartinn að snúa sig úr hálslið til þess að ná einhverju upp í sig. Ég hafði engan tíma til að þrífa þetta, átti að byrja kennslu niður í HÍ kl. 10 og færði því matardallinn hennar á þokkalega hreinan flöt á gólfinu. Þetta var langur og strangur dagur sem einkenndist af þessari slæmu byrjun. Rúmlega sex kom ég heim og fór beint upp í rúm því ég var orðin örmagna. Já já Ingileif ég er strax farin að klikka á bremsunum. Lofaði mér í fullt af kennslu í október. Eftir að hafa skroppið á kaffihús sá ég hverslags vitleysa þetta er í mér og afþakkaði strax eitt námskeið. Þóttist samt geta leyst af á öðru fyrstu tvær vikurnar í okt. Ég held ég hringi á morgun og afþakki það líka. Þrjú námskeið eru alveg nóg með kennslunni í HÍ og meistaraverkefninu. 


3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku Guðlaug!
Það er eins gott að þú fannst bremsurnar - áður en allt var farið í óefni.
Vertu ekkert feimin við að segja nei, þú færð örugglega tækifæri seinna. (segi ég sem aldrei þori að segja nei, þótt þetta sé aðeins að skána hjá mér...)!
Vona að járnið náist af!
Knús,
Ingileif.

Nafnlaus sagði...

hæ til hamingju með afmælið 30 september elsku besta frænka mín "hugs" and "kisses"
Helga yngri !!:):)

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ, farðu nú varlega kona góð, það er ekki gott að vera bremslulaus í dag. "Nei" er gott orð, þegar við á, ef þú ákveður um leið að þú fáir eitthvað annað spennadi verkefni þegar hægist um.

Til hamingju með afmælið kæra frænka.
kveðja Halldóra Ósk