30 september 2007

Afmælis prinsessan

Jiiiiii hvað það er gaman að eiga afmæli!! Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar sem hefur rignt yfir mig í dag með sms-um og á netinu og í síma. Ég er nefnilega ein af þeim sem finnst ægilega gaman að eiga afmæli og fer sko alls ekkert á bömmer yfir að verða einu árinu eldri. Stína systir bauð mér út að borða í kvöld og við fundum nýjan sjávarréttastað sem heitir Sjávarbarinn og er út á Granda. Mælum svo sannarlega með honum. Okkur langaði að smakka sem flest og dembdum okkur því á fiskihlaðborðið. Þar var boðið upp á Löngu, Keilu, Steinbít, silung og margt fleira afar bragðgott og girnilegt. Mér heyrðist að vísu einn rétturinn vera flugfiskur en það reyndist þá vera plokkfiskur. Það er náttúrulega ekki eins exótískt og flugfiskur en þetta var allavega góður plokkfiskur. Það eina sem skyggði á ánægjuna voru einhver fræ eða kryddkorn ofan á einum réttinum. Ég er nefnilega eins og hrossin, það er hægt að sjá aldurinn með því að líta upp í mig. Tennurnar mega muna sinn fífil fegri þannig að ég reyni að forðast allt sem er mjög hart undir tönn. Hélt það væri farin fylling en þá reyndist það vera grjóthart kryddkorn en tönnin hélt samt, hjúkket! Nú fer ég sæl og ánægð að sofa enda þarf ég víst að fara að breytast í morgunhana og vakna kl. 7. Er að kenna íslensku á Grund milli 8 og 9. Eins og flestir vita þá er ég EKKI morgunmanneskja en það er samt fínt að fá svona aðhald til að vakna á skikkanlegum tíma. Góða nótt og takk aftur mín kæru :-D

28 september 2007

Bremsulaus kona og spangólandi köttur


Dagurinn í dag byrjaði eiginlega í gærkvöldi. Mér gekk hálfbrösuglega að sofna og þegar ég loks var við það að festa svefn þá byrjar fröken Snædís að ráfa um vælandi eins og sírena. Þá mundi ég að hún átti eftir að fá lyfin sín og staulaðist fram úr en hún var að sjálfsögðu fljót að láta sig hverfa þegar ég birtist enda veit hún alveg hvenær er komið að lyfjagjöf. Ég þurfti því að sitja fyrir henni og bíða eftir að spangólsþörfin kæmi aftur yfir hana því svei mér þá þetta er eins og hún sé að spangóla. Jeminn góður nú átta ég mig á að það var fullt tungl í gærkvöldi. Það skyldi þó ekki vera eitthvað varúlfsblóð í henni! Nú jæja ég náði henni á endanum og skaut upp í hana þessum 0.1 ml (ekki 1.0 í þetta skiptið) af geðlyfjum. Rek ég ekki augun í að járnmixtúran mín hafði fokið úr glugganum á gólfið, tappinn brotnað og restin af mixtúrunni (sem betur fer var ekki mikið í flöskunni) á gólfinu. Ástæðan fyrir því að hún var út í glugga ásamt fullt af öðru úr ísskápnum er að Adam uppgötvaði að sósuskál hafði farið á hliðina inn í ísskáp og fullt af sósu runnið úr. Ég var farin í háttinn og við ákváðum að þurrka mestu sósuna upp og svo ætlaði ég að þrífa þetta í dag. Nú jæja aftur að mixtúrunni, ég gríp einhvern tuskubleðil og hef ekki einu sinni fyrir því að bleyta hann heldur moppa mestu bleytuna og skríð svo aftur í rúmið. Heldur var aðkoman að eldhúsinu óspennandi þegar ég skreiddist á lappir kl. 9 í morgun. Scarlett ræfillinn var að reyna að kroppa í sig einhvern þurrmat úr matardallinum sem staðsettur var við vegginn en fyrir framan hann var brúnt klístur, sem sagt mixtúran sem ég hafði dreift úr með tuskunni. Hún gat ekki staðið í klístrinu og hafði troðið sér á hlið upp fyrir dallinn og þurfti hálfpartinn að snúa sig úr hálslið til þess að ná einhverju upp í sig. Ég hafði engan tíma til að þrífa þetta, átti að byrja kennslu niður í HÍ kl. 10 og færði því matardallinn hennar á þokkalega hreinan flöt á gólfinu. Þetta var langur og strangur dagur sem einkenndist af þessari slæmu byrjun. Rúmlega sex kom ég heim og fór beint upp í rúm því ég var orðin örmagna. Já já Ingileif ég er strax farin að klikka á bremsunum. Lofaði mér í fullt af kennslu í október. Eftir að hafa skroppið á kaffihús sá ég hverslags vitleysa þetta er í mér og afþakkaði strax eitt námskeið. Þóttist samt geta leyst af á öðru fyrstu tvær vikurnar í okt. Ég held ég hringi á morgun og afþakki það líka. Þrjú námskeið eru alveg nóg með kennslunni í HÍ og meistaraverkefninu. 


27 september 2007

Til hamingju með glaðninginn!!

Ég er á útsendingarlista hjá Núinu. Ef maður svarar pósti frá þeim þá getur maður unnið hitt og þetta. Fyrst var ég voða ánægð þegar ég var að fá póst frá þeim þar sem stóð: Til hamingju með glaðninginn!! Nú tek ég orðið þátt til að skemmta mér yfir þeim glaðningum sem ég vinn. Um daginn fékk ég tvær vikur fríar í SKVASSI!! Já já ég í skvassi, glætan! Það myndi þurfa að skafa mig upp af gólfinu eftir hálfan tíma í svoleiðis sjálfspíningu ef ég væri ekki rotuð eftir að hafa fengið boltann í hausinn. Annar vinningur var 15% af naglaásetningu muahahahahaha ég með langar neglur. Það mætti reyna það á mér þegar ég verð orðin liðið lík og á leiðinni í gröfina. Annars fór ég í fótsnyrtingu síðasta mánudag (bingóvinningurinn minn síðan í vor) og reyndist vera með svona svakalega flottar tær og táneglur að konan stakk upp á því að ég fengi mér svona skraut á táneglurnar ha ha ha ha. Kannski ég taki upp á því næsta sumar að ganga í opnum sandölum með skartaðar neglur (ekki kartneglur). Maður verður víst að tjalda því sem til er og fyrst ég er með svona svakalega fínar tær þá er eins gott að láta þær sjást almennilega he he he.

26 september 2007

Komin á ferð....

Það er bara ekkert lát á frábærum hlutum í mínu lífi. Nú fékk ég póst frá formanni Samfélagsins (félag framhaldsnema) með boð um að ríða á vaðið á fyrstu samdrykkju vetrarins 18. okt. og kynna rannsóknina mína. Að sjálfsögðu þakkaði ég gott boð og fer strax að undirbúa mig. Bara fínt fyrir mig að þurfa að taka saman það sem ég er búin að komast að. Nú og svo fékk ég íslenskukennslu á Grund kl. 8 - 9 fimm morgna í viku sem er aldeilis gott aðhald fyrir mig til að druslast á lappir á skikkanlegum tíma á morgnana. Svo er þetta rétt hjá háskólanum þannig að staðsetningin gæti ekki verið betri. Hjólin eru sko meira en tekin að snúast þau eru bara komin á góðan snúning.

25 september 2007

Hjólin farin að snúast

Ja hérna það er bara allt að gerast hjá mér. Ég fékk tilboð áðan frá henni Adrijenne sem ég var að aðstoða aðeins í vor. Hún er að sækja um styrk frá Rannís fyrir rannsóknina sína um útrás Íslendinga og var að spyrja mig hvort ég vildi verða aðstoðarmaður hennar ef hún fær styrkinn. Þetta yrði ekkert svo mikið, bara 50 klukkutímar en maður minn hvort ég vil!! Frábært tækifæri fyrir mig því hún er að vinna við mannfræðideildina í Árósum og heldur utan um allt doktorsnámið í Danmörku. Fyrir utan að vera frábær kona sem ég kann mjög vel við, já og svo þekkir hún Robert í Finnlandi, var með honum í íslensku fyrir útlendinga í HÍ 1994 minnir mig. Nú krosslegg ég bara fingur að hún fái styrkinn. Já og svo er best að auglýsa fyrir hana því hún er væntanleg sem gestakennari við HÍ í nóvember og vantar litla íbúð fyrir sig og manninn sinn. Ef einhver er tilbúinn að leigja þeim íbúð frá 5. nóv. til 5. des. eða að skipta á íbúð við þau í Árósum þennan mánuð þá hafið endilega samband við mig. Líka ef þið vitið um einhvern sem hefði áhuga á því. Aldeilis fínt tækifæri fyrir þá sem eiga ættingja í Árósum (fullt af þeim í fjölskyldunni) að taka mánaðarfrí í Danmörku.

24 september 2007

Nýtt líf

Jæja þá er ég byrjuð nýtt líf. Formlega hætt á sambýlinu og farin að kenna íslensku fyrir útlendinga hjá Alþjóðahúsi. Enn sem komið er kenni ég einum hópi en ég reikna með að fá fleiri á næstunni. Heilsan er smám saman að koma til baka. Ætli ég sé ekki komin í svona 50% orku en í þar síðustu viku var hún ekki nema 10% þannig að ég er á uppleið. Verð samt að passa mig á því að fara mér hægt svo ég fái ekki bakslag. Ég fékk grænt ljós á að fresta útskrift þar til í vor þannig að þá er sú pressa frá. Það var eiginlega ekki fyrr en í síðustu viku sem ég áttaði mig á hvað ég var búin að ganga nærri mér líkamlega. Svo nærri mér að ég þurfti að endurskoða líf mitt algjörlega. Ég er samt mjög sátt við þá endurskoðun og hlakka til að takast á við ný verkefni. Það verður svo bara að koma í ljós hvernig mér gengur að skrapa saman fyrir reikningum. Hingað til hefur það bjargast og ætli það geri það ekki áfram, ég ætla að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur.

19 september 2007

Nálykt í nösum

Á mánudag fór að bera á undarlegum fnyk í kjallaranum sem olli okkur Adam miklum heilabrotum. Í gær hafði þessi viðbjóðslegi fnykur magnast það mikið að hann lagði um allt hús. Mér var orðið um og ó því fýlan minnti mig á nályktina sem lagði um allt þegar hann Kalli minn dó í kjallaraherberginu sínu. Ég var alvarlega farin að íhuga að brjótast inn hjá leigjandanum sem tók við herberginu þegar Kalli var allur og var farin að halda að það hvíldu einhver álög á þessu blessaða herbergi svo þeir sem þar byggju enduðu ævi sína þar. Sem betur fer ákvað ég nú að fara fyrst inn í herbergið hans Vals og þar mætti mér hreinlega veggur af þessum ógeðslega fnyk. Það fyrsta sem mér datt í hug var að nú hefði frystikistan dottið aftur úr sambandi eins og í vor þegar allur humarinn sem Valur var búinn að nurla saman eyðilagðist. Ég opnaði kistuna en guð sé lof þá var þar allt eðlilegt og gaddfreðið. Þá fór ég að leita að upptökum fýlunnar og viti menn, sé ég ekki plastpoka á gólfinu við hliðina á kistunni með einhverjum pakkningum í. Haldið þið að það hafi ekki verið humarinn hans Vals sem hann er búinn að vera að safna í haust!! Það lá við að kvikindin skriðu á móti mér svo úldnir voru þeir orðnir. Ég held að herra Valur ætti bara að hætta að koma heim með humar því hann virðist allur enda í ruslatunnunni. Ég var samt grútsvekkt því ég var búin að plana að elda dýrindis veislu úr skötusel og humri næst þegar hann kæmi í land. Jæja það verður þá bara skötuselsveisla í þetta skiptið. Sem betur fer eru heldur ekki álög á herberginu hans Kalla.

16 september 2007

Jethro Tull

Ég fór á frábæra tónleika með Steini vini mínum í kvöld. Við vorum sko búin að tryggja okkur miða á Tullinn fyrir löngu síðan og þeir klikkuðu ekki. Ian gamli skoppaði um sviðið með þverflautuna eins og unglingur en ekki sextugur gamlingi og sagði sögur á milli laga. Það vantar ekki húmorinn í karlinn né hina, þeir geisluðu allir af húmor og spilagleði enda var mikil stemming í troðfullum salnum alveg frá því þeir birtust á sviðinu. Ég er sko ekkert feimin við að klappa og góla á frábærum tónleikum. Ég læt fylgja með 16 ára gamalt sýnishorn af tónleikum hjá þeim svo þið fáið smá nasaþef af því hvernig þeir eru á sviði og heyrið stemminguna hjá áhorfendum. Þeir hafa pottþétt ekkert misst dampinn síðan þá. Já og Steinn: takk fyrir frábært kvöld, ég lofa að missa mig ekki í nammið þitt á næstu tónleikum sem við förum á ;-)

15 september 2007

Einstein páfagaukanna

Páfagaukurinn Alex er víst horfinn til fiðraðra feðra sinna. Þetta myndband ætti að vekja áhuga páfagaukavina í fjölskyldunni. Brúsi og Pippilínus verða heldur betur að spýta í fæturna ef þeir eiga að ná viðlíka árangri.

Gamli skólinn minn

Þið sem þetta lesið og voruð í Hallormsstaðaskóla, farið inn á þessa síðu og skráið ykkur. Látið svo endilega fleiri gamla nemendur vita af henni.

14 september 2007

Hvar er klósettið?

Danskir jafnréttisfrömuðir eru í miklu uppnámi yfir mynd af þremur ungum konum í hernum af því þær eru að pissa úti í guðsgrænni náttúrunni. Myndina tók kona í fjölmiðlanámi í Árósum og fylgir myndin grein um hvernig það er að vera kona í hernum. Þær sem á myndinni eru höfðu ekkert á móti birtingu myndarinnar enda væri þetta bara eðlilegasti hlutur í heimi að pissa. Persónulega þá sé ég ekkert athugavert við myndina og finnst hún í raun bara mjög vel heppnuð af því hún er svo lýsandi og segir meira en mörg orð.
Hvað felst í því að vera hermaður? Jú meðal annars að það er ekki alltaf hægt að komast á klósett og maður þarf jafnvel að gera þarfir sínar fyrir allra augum, bæði karlar og konur. Það þýðir ekki að vera með einhvern pempíuskap þegar maður er í miðri eyðimörk að leita að al kaída talíbönum. Það kemur einmitt fram í greininni sem myndin birtist með, að konurnar hafi átt erfitt með bara að segjast þurfa á klósettið í byrjun þjálfunar og þó höfðu þær aðgang að venjulegu salerni þá. Eins og alltaf þá er þetta bara spurning um viðhorf og aðstæður. Það er allt í lagi að liggja berbrjósta á ströndinni fyrir allra augum en maður fer ekki þannig út í búð, eða er það?

09 september 2007

Asísk lækning

Það er ótrúlega erfitt að gera ekki neitt. Ég er samt að reyna mitt besta að hlýða og safna orku. Hef svo sem ekki þurft annað en að ryksuga eða eitthvað annað smálegt til þess að minna mig á því ég fæ þá handskjálfta eins og parkisons sjúklingur. Daníel hefur lagt sitt af mörkum til að ég sé til friðs og lánað mér asískar myndir til að horfa á. Er búin með tvær, Oldboy sem er mjög góð japönsk mynd en Daníel gleymdi samt að vara mig við að atriði í henni séu ekki fyrir viðkvæma ehemm. Hin myndin House of flying daggers  sem er japönsk/kínversk er sannkallað augnakonfekt og hreinlega eins og eitt langt málverk. Fyrri myndin fékk mig til að reka upp ógeðishljóð af og til, ég meina að borða lifandi kolkrabba ojjjjjjj eða rífa allar tennur úr manni kræst! Það voru samt ekki minni hljóð frá mér í lok síðari myndarinnar enda ég farin að hágrenja með ekka af allri dramatíkinni ha ha ha. Ég á eina eftir Restless, kóreska ævintýramynd í anda WOW skilst mér. Eftir að hafa skoðað trailerinn þá á ég von á svipuðu táraflóði og áðan he he he. Af hverju ætli asískar myndir endi yfirleitt alltaf sorglega? 

06 september 2007

Jebb

Úrskurðurinn er ofþreyta og ekkert hægt að gera nema hvíla sig. Ég hefði átt að hneykslast meira á móðursystkinum mínum fyrir að vinna sér til óbóta. 

Riverbend

Loksins! Ég var farin að hafa áhyggjur af afdrifum Riverbend því hún hafði ekki bloggað síðan í apríl. Fjölskyldan komst sem betur fer heil á húfi til Sýrlands. Alhamdulillah.

05 september 2007

Hingað og ekki lengra

Ég er komin í veikindaleyfi frá sambýlinu um óákveðinn tíma. Er ekki enn búin að fá niðurstöður úr blóðprufum en er eiginlega komin á þá skoðun að ég sé búin að níðast of mikið á líkamanum mínum síðasta árið og hann sé búinn að segja stopp. Það kemur víst alltaf að því og ætli maður verði ekki að horfast í augu við það að ekki yngist maður he he he.

02 september 2007

Djúpa laugin

Ekki hefði mér dottið það í hug þegar ég byrjaði í skólanum fyrir nokkrum árum síðan að ég ætti eftir að sitja í hópi SAMkennara í Háskóla Íslands. Það gerðist samt á föstudaginn og mér fannst það eiginlega hálf óraunveruleg upplifun. Á eftir var svo haustfagnaður Félagsvísindadeildar þar sem kennarar og annað starfsfólk deildarinnar kom saman og gerði sér glaðan dag. Enn óraunverulegra takk fyrir. En allavega þá hlakka ég bara til að takast á við þetta verkefni og trúi því að heilsan fari öll að koma til baka. Ég er búin að taka þá ákvörðun að skella mér bara í djúpu laugina og segja upp á sambýlinu í þeirri trú að mér takist að snapa einhver verkefni til þess að eiga í mig og á. Að vísu er þriggja mánaða uppsagnarfrestur en ég ætla að reyna að fá að minnka strax eitthvað við mig. Svo er auðvitað að koma frá sér blessuðu meistaraverkefninu. Unnur Dís ætlar að setja smá pressu á mig enda þarf ég þess til að komast í fjórða eða fimmta gír. Markmiðið er útskrift í febrúar!