24 desember 2008

Þorláksmessa



Einar Axels bjargaði jólunum þetta árið með nokkrum rjúpum handa okkur og Valur sá í fyrsta sinn um hamflettinguna og fórst bara nokkuð vel úr hendi.

Síðasti sófagesturinn fór í nótt og nú fær Daníel bláa herbergið yfir jólin. Hér gengur jólaundirbúningur stresslaust fyrir sig enda lítið lagt upp úr stórþrifum. Í gær var laufabrauðið bakað en ég hef held ég aldrei verið svona sein með laufabrauðsbaksturinn sem var sá fyrsti sem Ellen tekur þátt í. Ég náði mér í veturgamalt sauðalæri í Fjarðarkaupum í dag sem nú moðsýður á eldavélinni. Jólagrauturinn er soðinn og tilbúinn fyrir morgundaginn. Hér hefur það orðið að hefð að borða möndlugrautinn í "hádeginu" á aðfangadag. Að venju skundaði ég niður og upp Laugaveginn í kvöld til að fá Þorláksmessustemmninguna. Mér finnst það alveg ómissandi partur af jólaundirbúningnum. Hjálpræðisherinn var á sínum stað að syngja jólalög og alveg mesta furða hvað margir lögðu leið sína í bæinn þrátt fyrir slagviðrið. Hér er ekki skata á borðum og ég hef engin áform um að taka upp þann sið. Lyktin truflar mig svo sem ekkert en má ég þá frekar biðja um sjósigna ýsu með hamsatólg!

2 ummæli:

Babzy.B sagði...

happy Xmas !!!!!!

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól Guðlaug mín og takk fyrir skemmtileg tölvusamskipti á árinu. Netið er alveg frábært sérstaklega þegar maður hefur upp á gömlum vinum.
Jólakveðja úr Skógarkoti.
Rannveig Árna