06 desember 2008

Gestagangur

Að vanda hefur verið gestkvæmt hjá mér þessa vikuna. Að vísu óvæntir gestir því Lurdes og Diogo komu óvænt suður í læknastúss og vantaði svefnpláss. Þar sem bláa herbergið var upptekið af rússneska sófagestinum mínum leysti ég málið með því að sofa sjálf á stofusófanum og lánaði þeim rúmið mitt. Þetta var nú bara ein nótt svo það var lítið mál.
Ilya yfirgaf svo landið í dag og nú á ég ekki von á neinum gestum fyrr en eftir viku, þá kemur ungur maður frá Singapore sem er í námi í Bandaríkjunum og verður í þrjá daga síðan ætla ég að taka hlé fram yfir áramót. Ilya náði sérlega góðu sambandi við kisurnar mínar og við áttum skemmtilegar rabbstundir um allt milli himins og jarðar en þó helst ýmsu tengt fornsögunum. Ég var að útskrifa einn hóp í íslenskunáminu og þar vorum við að bera saman jólahefðir heimalandanna sem er mjög áhugavert og skemmtilegt. Að sjálfsögðu yfirheyrði ég Ilya þegar ég kom heim um rússneskar jólahefðir eins og þær voru á tímum kommúnismans og eins og þær eru í dag. Hann er ótrúlega góður að tala íslenskuna en það er greinilegt að hann hefur lesið mikið af fornsögum því hann er oft svolítið forn í tali :) Hann sagði mér frá svolitlu athyglisverðu um íslenskan framburð á ll eða l eins og í bíll og bíl. Þetta hljóð sem verður til þegar við berum það fram finnst bara í löndum eins og Kazakstan og Azerbajdan! Ekkert annað indóevrópskt mál hefur þetta hljóð. Það var svo gaman að tala við hann því hann er svo fróður um allt mögulegt tengt íslenska tungumálinu og víkingatímanum.
Valur er á leiðinni á sjóinn á morgun. Hann fékk afleysingapláss á línubát vestur á Rifi og verður þar næstu 12 dagana en þá fer sá bátur í slipp. Ég er einmitt að verða búin með allan fiskinn minn svo hann getur fyllt aftur á kistuna :)
Í gærkvöldi fór ég á jólahlaðborð á Fjörukránni í Hafnarfirði með honum Binna mínum. Við fórum síðast fyrir tveimur árum síðan og fáum alltaf svo frábæra þjónustu hjá sjálfum eigandanum :) Frábær matur og skemmtilegt andrúmsloft með söng og gítarspili í léttum dúr. Það var alveg troðfullt þarna og engin kreppubragur sjáanlegur á fólki.

2 ummæli:

Sveinn P. sagði...

Hvenær kemur Valli í land? vonandi verður hann kominn í land þegar að ég kem heim :)

Unknown sagði...

Það er alltaf svo frábært að lesa hvað þú ert að bardúsa! :) Er dyggur lesandi!
Knús,
Ingileif.