31 desember 2008

Tölvusnillingur

Ég held ég sé að breytast í tölvusnilling. Ég er búin að taka tölvuna mína alveg í gegn og nú er hún farin að virka alveg ljómandi vel. Nú síðast lagaði ég hljóðið en það heyrðist varla orðið nokkuð hljóð frá henni. Msn-ið var horfið en Daníel benti mér á að sækja aMSN fyrir Linux og nú er ég loksins aftur komin í samband við umheiminn :) Ellen fannst nú ekkert skrítið að ég væri orðin tölvunörd miðað við tímann sem ég eyði við tölvuna hahahaha.
Nú er ég loksins að verða búin með allan yfirlestur á prófum og lokaskýrslum og er að ganga frá einkunnum. Þá má segja að ég sé formlega komin í jólafrí!
Gleðilegt nýtt ár öll sömul og njótið áramótanna en munið að ganga hægt um gleðinnar dyr!!

30 desember 2008

Nostalgía



Eins og í "gamla" daga....allir að spila "Mario Bros" í einu hahahaha.

27 desember 2008

Bruni (BB)

Ég er illa haldin í dag :( mér tókst að brenna mig á hægri úlnlið og handarbaki þegar ég var að hella mér upp á kaffi í dag. Að sjálfsögðu var atgangurinn svo mikill að kaffikorgurinn var út um allt gólf og skáphurðir. Ellen sagði að mér væri nær að fá mér ekki almennilega kaffivél í staðinn fyrir að sullast þetta á gamla mátann hahaha. Ég ætla nú samt að þrjóskast áfram við uppáhellinguna! Ég hafði það af að skúra eldhúsið með harmkvælum þó og með því að kæla brunann á 2ja mínútna fresti. Nú er ég að fara yfir lokaskýrslur nemenda og þarf að sitja við það í allt kvöld eins og í gærkvöldi. Mesti sársaukinn er farinn þannig að þetta ætti að hafast, bara ein blaðra sem þvælist aðeins fyrir.

25 desember 2008

Aðfangadagskvöld



Þessi mynd var tekin áður en ég lagði til atlögu við jólamatinn. Það endaði með því að ég var komin í rúmið fyrir klukkan ellefu með mígrenikast af ofáti!!!

24 desember 2008

Þorláksmessa



Einar Axels bjargaði jólunum þetta árið með nokkrum rjúpum handa okkur og Valur sá í fyrsta sinn um hamflettinguna og fórst bara nokkuð vel úr hendi.

Síðasti sófagesturinn fór í nótt og nú fær Daníel bláa herbergið yfir jólin. Hér gengur jólaundirbúningur stresslaust fyrir sig enda lítið lagt upp úr stórþrifum. Í gær var laufabrauðið bakað en ég hef held ég aldrei verið svona sein með laufabrauðsbaksturinn sem var sá fyrsti sem Ellen tekur þátt í. Ég náði mér í veturgamalt sauðalæri í Fjarðarkaupum í dag sem nú moðsýður á eldavélinni. Jólagrauturinn er soðinn og tilbúinn fyrir morgundaginn. Hér hefur það orðið að hefð að borða möndlugrautinn í "hádeginu" á aðfangadag. Að venju skundaði ég niður og upp Laugaveginn í kvöld til að fá Þorláksmessustemmninguna. Mér finnst það alveg ómissandi partur af jólaundirbúningnum. Hjálpræðisherinn var á sínum stað að syngja jólalög og alveg mesta furða hvað margir lögðu leið sína í bæinn þrátt fyrir slagviðrið. Hér er ekki skata á borðum og ég hef engin áform um að taka upp þann sið. Lyktin truflar mig svo sem ekkert en má ég þá frekar biðja um sjósigna ýsu með hamsatólg!

16 desember 2008

Lokaspretturinn

Þessi vika silast alveg áfram enda langþráð jólafrí að byrja á föstudaginn. Það er svo sem nóg að gera hjá mér þessa dagana og tíminn ætti því að vera fljótur að líða þó mér finnist það ekki. Ég er í prófyfirsetu fyrir hádegi sem getur stundum dregist fram yfir hádegi. Seinnipartinn er svo íslenskukennsla og þar að auki er ég að fara yfir próf í námskeiðinu sem ég er aðstoðarkennari í í HÍ. Jólastúss hefur því farið hægt af stað hér á bæ og ekki eitt einasta jólaskraut sjáanlegt enn sem komið er. Ég get svo sem gefið Scarlet það hlutverk að vera jólakötturinn til að bjarga málunum. Veit bara ekki hvort hún er nógu ógnvænleg í það hlutverk. Annars er ég ekkert að stressa mig yfir þessu og ætla að baka nokkrar laufabrauðskökur á sunnudaginn. Þá verður Valur kominn heim úr "helvíti" og getur hent upp seríum og skorið laufabrauð.
Myndin hér fyrir neðan er reyndar af mér og það má reikna með að fleiri gamlar myndir birtist fljótlega. Daníel lánaði mér nefnilega skannann sinn og ég bíð spennt eftir að hafa tíma til að skanna inn gamlar og góðar myndir :D

11 desember 2008

10 desember 2008

Jólaókindur á kreiki

Ég hef verið að segja nemendum mínum frá ýmsum jólaókindum eins og Jólakettinum, Grýlu, Leppalúða og svo gömlu jólasveinunum. Þau horfa á mig með hryllingi enda ekki furða þegar maður fer að spá í það. Ég get ekki ímyndað mér að börnin hafi hlakkað mikið til jólanna hér áður fyrr því þá fóru þessar ókindur á kreik. Ef þú lentir ekki í krumlunum á Grýlu þá var viðbúið að Jólakötturinn næði að læsa klónum í þig. Það skipti ekki máli hvort þeirra náði þér því örlögin voru þau sömu, þú varst étinn!!!

07 desember 2008

Siglt úr höfn

Haldiði að ég hafi ekki fundið vefmyndavél frá höfninni á Rifi
ég get bara fylgst með þegar báturinn sem Valur er á siglir úr höfn. Ég sagði honum að veifa mér þegar hann færi um borð en hann hélt nú ekki hahahaha.

06 desember 2008

Gestagangur

Að vanda hefur verið gestkvæmt hjá mér þessa vikuna. Að vísu óvæntir gestir því Lurdes og Diogo komu óvænt suður í læknastúss og vantaði svefnpláss. Þar sem bláa herbergið var upptekið af rússneska sófagestinum mínum leysti ég málið með því að sofa sjálf á stofusófanum og lánaði þeim rúmið mitt. Þetta var nú bara ein nótt svo það var lítið mál.
Ilya yfirgaf svo landið í dag og nú á ég ekki von á neinum gestum fyrr en eftir viku, þá kemur ungur maður frá Singapore sem er í námi í Bandaríkjunum og verður í þrjá daga síðan ætla ég að taka hlé fram yfir áramót. Ilya náði sérlega góðu sambandi við kisurnar mínar og við áttum skemmtilegar rabbstundir um allt milli himins og jarðar en þó helst ýmsu tengt fornsögunum. Ég var að útskrifa einn hóp í íslenskunáminu og þar vorum við að bera saman jólahefðir heimalandanna sem er mjög áhugavert og skemmtilegt. Að sjálfsögðu yfirheyrði ég Ilya þegar ég kom heim um rússneskar jólahefðir eins og þær voru á tímum kommúnismans og eins og þær eru í dag. Hann er ótrúlega góður að tala íslenskuna en það er greinilegt að hann hefur lesið mikið af fornsögum því hann er oft svolítið forn í tali :) Hann sagði mér frá svolitlu athyglisverðu um íslenskan framburð á ll eða l eins og í bíll og bíl. Þetta hljóð sem verður til þegar við berum það fram finnst bara í löndum eins og Kazakstan og Azerbajdan! Ekkert annað indóevrópskt mál hefur þetta hljóð. Það var svo gaman að tala við hann því hann er svo fróður um allt mögulegt tengt íslenska tungumálinu og víkingatímanum.
Valur er á leiðinni á sjóinn á morgun. Hann fékk afleysingapláss á línubát vestur á Rifi og verður þar næstu 12 dagana en þá fer sá bátur í slipp. Ég er einmitt að verða búin með allan fiskinn minn svo hann getur fyllt aftur á kistuna :)
Í gærkvöldi fór ég á jólahlaðborð á Fjörukránni í Hafnarfirði með honum Binna mínum. Við fórum síðast fyrir tveimur árum síðan og fáum alltaf svo frábæra þjónustu hjá sjálfum eigandanum :) Frábær matur og skemmtilegt andrúmsloft með söng og gítarspili í léttum dúr. Það var alveg troðfullt þarna og engin kreppubragur sjáanlegur á fólki.