16 janúar 2008

Ítölsk sápuópera

Ég lifi í ítalskri sápuóperu þessa dagana og hef mikið gaman af. Sófagesturinn minn sem var að passa kettina og íbúðina fyrir mig á meðan ég var úti er nefnilega ekki við eina fjölina felldur. Þessa viku sem ég var úti ákvað hann að segja upp ítalskri kærustu sinni sem tók því ekki mjög vel og hringir í hann tíu sinnum á dag. Því miður klúðraðist Erasmus skiptinámið hjá honum svo hann kemst ekki inn í HÍ og þarf að fara aftur heim. Fyrst ætlar hann að skreppa norður til Akureyrar og vera þar í mánuð hjá þýska sófagestinum mínum (sem hann kynntist mjög náið hjá mér hummm hummm). Það fór ekki mjög vel í þá fyrrverandi sem ætlar að fljúga hingað til Íslands til að ræða málin. Hún kemur á morgun og nú stendur hann á haus að þrífa íbúðina mér til mikillar ánægju. Það verður því örugglega nokkuð líflegt í Holtinu næstu daga he he he. Greyið strákurinn tekur bara um höfuðið og stynur: þvílíkt mess sem ég er kominn í!!! 

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ó, þetta er spennó. Er þýski sófagesturinn kvenvera? Þú leyfir mér að fylgjast með hvað gerist in þe next episod of sób.
Hey, þú getur selt sjónvarpið, þetta er bara veruleikasjónvarp í sinni tærustu mynd, meira að segja erlendir leikarar.
Ekki láta mig missa af næsta þætti. Kemst Ítalinn til Akureyrar eða kyrrsetur gamla spúsan hann?
kv.
Rannveig Árna

Netfrænkan sagði...

Jú jú sú þýska er kvenkyns. Reyndar hef ég ekki verið með sjónvarp síðasta árið enda hver þarf á Leiðarljósi að halda þegar maður er sjálfur þátttakandi í sápunni. Það kæmi mér reyndar ekki á óvart ef sú fyrrverandi færi með hann heim í farteskinu því mér sýnist hann vera vanur því að láta konur stjórna sér. Þar að auki er sú fyrrverandi sjö árum eldri og var yfirmaður hans á rannsóknarstofunni sem hann var að vinna á s.l. sumar. Ég set fljótlega inn myndir af aðalleikurunum í sófagestaalbúmið mitt ;-)

Arny sagði...

vá þetta er aldeilis orðið spennandi, hlakka til að fá frekari fréttir af gangi mála, hahaha...!! :-)

Unknown sagði...

Hlakka til að heyra um framhaldið!
Og takk fyrir síðast, kæra frænka!
Knús,
Ingileif.