30 apríl 2009

Heim á ný

Loksins fékk Beth að fara heim af fæðingardeildinni í dag. Það gekk eitthvað erfiðlega að ná niður blóðþrýstingnum en á þriðjudag fékk hún ný blóðþrýstingslyf sem virðast virka betur. Hún var alveg búin að fá nóg eftir viku spítalamat og sjúkrarúm. Ekki slæmt að komast heim í rúmið sitt og matinn hennar Önnu Gerðar ;) Að öðru leyti hefur hún það fínt og skurðurinn grær vel. Sá litli dafnar prýðilega og var held ég bara ánægður að koma heim til sín. Fyrsta nóttin er að vísu ekki ennþá liðin. Ég kíkti aðeins við hjá þeim í kvöld og sníkti auðvitað mat hjá Önnu. Ég var að kenna í nágrenninu en það var að byrja nýtt námskeið hjá mér sem ég kenni frá 19 - 21. Svolítið strangir dagar framundan en þetta verður nú bara þar til viku af júní.
Ég er búin að vera bíllaus frá því fyrir páska en fékk loksins hjólalegu í gær. Aron ætlar að skipta um hana fyrir mig svo kannski fæ ég bílinn um helgina. Það hefur svo sem verið fínt að labba enda hefur mér ekki veitt af hreyfingunni og orkan aukist heilmikið en það tekur óskaplegan tíma að komast á milli staða og fyrst ég er byrjuð að kenna þetta kvöldnámskeið þá verð ég eiginlega að vera á bíl annars kemst ég aldrei í háttinn fyrir miðnætti.
Valur er úti á sjó núna og enn á nýjum bát, Sighvati GK. Hann er svo heppinn að skipstjórinn á Páli Jónssyni spurði hann hvort hann mætti ekki mæla með honum við aðra skipstjóra sem Valur sagði auðvitað sjálfsagt og það hefur sannarlega skilað sér. Þetta er annar skipstjórinn sem hringir í hann. Ennþá hefur hann bara fengið afleysingar enda ekki mörg pláss sem losna en hann er nokkuð öruggur um fast pláss á einhverjum af Vísisbátunum um leið og það losnar.

24 apríl 2009

Fæðingarsagan



Beth fékk verki klukkan 8 á miðvikudagskvöldið og um 11 voru þeir orðnir reglulegir með 7 mínútur á milli. Við ákváðum því að drífa okkur á spítalann í Hreiðrið en þar sem blóðþrýstingurinn var mjög hár vorum við sendar yfir á fæðingarganginn. Þar kom í ljós að útvíkkun var ennþá bara einn sem venjulega þýðir að konan er send aftur heim en blóðþrýstingshækkunin gerði það að verkum að það var ákveðið að hún færi ekki heim að svo stöddu. Hún fékk lyf til að lækka blóðþrýstinginn og verkjalyf til að ná að sofa. Hún var með stöðugar hríðir og um morguninn var útvíkkun komin í 3 en sá litli var orðinn þreyttur og búinn að hafa hægðir í legvatnið. Þá var ákveðið að sprengja belginn, við það hörðnuðu hríðirnar mikið og blóðþrýstingurinn hækkaði aftur verulega hjá Beth. Til þess að ná honum niður var ákveðið að hún fengi mænudeyfingu, þar sem það var frídagur voru færri á vakt svo hún þurfti að bíða þó nokkurn tíma áður en mænudeyfingin kom. Allan daginn var hún með harðar hríðar en leið betur út af mænudeyfingunni. Um fimmleytið voru þau bæði orðin mjög þreytt en útvíkkun var enn bara 4 svo það var ákveðið að taka hann með keisaraskurði. 17.40 kom hann svo loksins í heiminn og ég fékk hann í fangið og hélt á honum meðan verið var að ganga frá skurðinum. Ég grét að sjálfsögðu þvílíkt en sem betur fer var ég með grímuna svo horið var ekki út um allt hahahahaha og svo byrjaði hann á að pissa á mig sem er víst mikil blessun sagði Beth :D Hún fékk hann svo í fangið um leið og við vorum komnar út af skurðstofunni og lagði hann strax á brjóst sem hann var ægilega ánægður með :D Hún fær einhverja nýja verkjameðferð sem þýðir að hún fær líklega að fara heim eftir 2 til 3 daga og fær þá ljósmóður heim daglega. Anna Gerður kemur til hennar á laugardagskvöldið og verður í einhverja daga hjá henni Beth til mikillar gleði.

23 apríl 2009

Lítill keisari kominn



Ég grét og hann pissaði á mig þegar hann fæddist :D
Núna er ég alveg búin á því eftir að vaka í nærri 40 tíma svo ég læt myndina nægja að sinni. Sá stutti var rétt rúmar 12 merkur og 50 cm. Þeim heilsast vel en eru auðvitað bæði mjög þreytt, ekki síst Beth.

20 apríl 2009

Útkallsæfing

Beth hringdi í mig á laugardagsnóttina og var á leiðinni upp á spítala. Ég hentist í föt og heim til hennar og svo upp á spítala. Hún var tengd við síritann og þar sem hríðarnar voru nokkuð reglulegar þá leit allt út fyrir að sá stutti væri loksins að láta sjá sig. Við nánari athugun reyndist útvíkkun ekki vera nema 1 og smám saman dró úr verkjunum svo við vorum bara sendar heim aftur. Aðeins smáæfing greinilega. Ég var hjá henni allan daginn í gær og nótt og ætla að vera hjá henni þar til yfir lýkur. Skrapp í vinnuna í dag enda allt í rólegheitum hjá henni bara smá verkir sem vonandi þýða að útvíkkunin sé að mallast áfram.
Á sama tíma var ég með fjóra sófagesti, krakka frá Belgíu og Sviss sem eru í skiptinámi í Noregi. Ég skildi þau bara eftir heima og hitti þau smástund í morgun áður en þau fóru. Alveg indæliskrakkar sem skildu betur við sig en þau komu að íbúðinni. Svo teiknuðu þau voða sætt þakkarkort handa mér með sjálfsmyndum af sér :)
Bíllinn er ennþá bilaður svo ég fæ nóga hreyfingu þessa dagana. Er að kenna í Borgartúni á morgnana og labba þangað (bara svona 15 mínútur) klukkan 12 rölti ég til baka á Hlemm og tek strætó í Hafnarfjörðinn á skrifstofuna sem er á besta stað í miðbænum. Svo er það auðvitað strætó til baka að Klambratúni enda stutt að labba þaðan heim. Í morgun bættist við að ég þurfti fyrst að fara heim frá Beth áður en ég fór í Borgartúnið og svo að koma við heima áður en ég fór í Hafnarfjörðinn og það í þessu hífandi roki (og smá rigningu) sem er í dag.
Nú vona ég að sá stutti fari að láta sjá sig, hann átti að koma 18. apríl svo það hlýtur eitthvað að fara að gerast. Ég set inn mynd af honum við fyrsta tækifæri þegar hann er fæddur.

05 apríl 2009

Vordísin komin :D

Já hún kom með vorið til mín frá Danmörku :D Við fórum út að borða á Santa Maria í gærkvöldi og erum að hafa það huggulegt saman að dönskum sið í dag. Á morgun byrja ég svo í 8 - 4 vinnunni minni. Það verður skrítið að vera komin með eigin skrifstofu og reglulegan vinnutíma eftir óreglu síðustu 7 ára. Staðsetningin er alveg frábær í miðbæ Hafnarfjarðar og húsið gamalt og kósý. Strax eftir páska byrja ég svo að kenna atvinnulausum útlendingum á vegum Vinnumálastofnunar.

Við Beth fórum til ljósmóðurinnar á föstudaginn og allt er klárt fyrir komu litla mannsins. Hann er búinn að skorða sig vel og getur komið hvenær sem er. Ég er að vona að hann drífi sig í heiminn um páskana og Beth er að sjálfsögðu farin að bíða með óþreyju enda kúlan orðin stór og fyrirferðamikil.

Ég á von á hefðarfrú mikilli frá Mexíkó í heimsókn næstu daga. Mamma hans Ricardo er í heimsókn á landinu og að sögn Tamöru tengdadótturinnar er hún með mikið hreinlætisbrjálæði og býr þar að auki í risavillu með þjónustufólk á hverjum fingri. Systir hennar kom með en hún er að bjóða sig fram sem borgarstjóri í borginni sem þau koma frá. Þær systur tala bara spænsku svo Ricardo verður að vera túlkur. Ég er að reyna að missa mig ekki alveg í að þrífa í hengla fyrir heimsókninna (eins og Tamara gerði), þær verða bara að lifa af rykið hjá mér hahahahaha. Ég vona bara að nágrannarnir verði á rólegu nótunum á meðan hehehehe