Í ágúst fékk ég hjálparbeiðni á sófagestasíðunni frá ítalskri konu sem hafði komið til landsins í boði gamallar vinkonu (hún er líka ítölsk) sem eins konar au pair í 3 vikur. Planið var að hún passaði börnin hennar þrjú svona 5 - 6 tíma á dag og gæti svo túristast þess á milli. Annað kom á daginn þegar hún var kominn til landsins og hún endaði í algjörri þrælavinnu 11 tíma á dag. Ekki var nóg með að hún þyrfti að passa börnin heldur stóð hún í stórhreingerningum upp á hvern dag því bæði var húsið alltaf fullt af sófagestum og gestum í Bed and Breakfast sem frúin rekur. Einn daginn eftir uppákomu milli þeirra að ítölskum sið fékk mín nóg og sendi út neyðarkall. Ég svaraði því og þannig fékk ég einn af mínum skrautlegu og skemmtilegu sófagestum í heimsókn :)
Hún mætti útkeyrð og vansvefta og næsta dag var hún orðin fárveik með hita og var rúmliggjandi í 3 daga. Frúin hringdi reglulega og reyndi að lokka hana til sín aftur án árangurs auðvitað. Hún leigir líka út heimilisbílana og þær höfðu verið búnar að ganga frá því að Vale og tveir aðrir Ítalir fengju bíl á leigu og stóð við það. Ekki leist mér nú á gripinn enda pústið ónýtt og hávaðinn eftir því. Upphófust nú hringingar og ítalskur æsingur og á endanum var bíllinn tekinn aftur og lappað upp á pústið áður en þau lögðu í hann hringinn í kringum landið og fóru fyrst suðurleiðina.
Þau komust á Mývatn en þá datt stýrið hreinlega af. Þar voru þau nú strandaglópar og Frúin sagði þetta ekki vera sitt mál, þau gætu bara skilið bílinn eftir þarna og sett lyklana í geymslu á hótelinu. Enn voru þrír dagar eftir af leigunni en hún þvertók fyrir að endurgreiða þeim þá daga.
Annar samferðamaður Vale er lögfræðingur sem skilur ekkert hvað lögfræðingar gera á Íslandi fyrst það eru ekki nema tvö til þrjú morð á ári hahhahahaha. Hann var að sjálfsögðu ekki sáttur við að fá ekki endurgreitt og eftir mörg símtöl og ítalskan æsing hafði hann það loks í gegn að fá þessa þrjá daga endurgreidda.
Nú var loks komið að því að Vale myndi yfirgefa þetta (að því að henni fannst) guðsvolaða land en nei þá tók nú ekki betra við. Daginn áður en hún átti flug fékk hún tölvupóst frá Iceland Express þar sem þeir tilkynntu að flugið hennar klukkan 7 morguninn eftir hefði verið fellt niður og hún væri bókuð klukkan 17 í staðinn. Þá fékk mín nú fyrst taugaáfall því hún átti bókað flug frá London til Bologna klukkan 15. Sú litla enska sem hún getur talað hvarf gjörsamlega og hún grét og barmaði sér svo ég tók það að mér að tala við British Airways til að reyna að fá breytt fluginu. Þeir voru afskaplega almennilegir þar og breyttu fluginu þar til morguninn eftir þrátt fyrir að búið væri að loka fyrir breytingar. Að vísu þurfti hún að borga ein 200 pund á milli því auðvitað voru bara dýrustu sætin eftir. Ég bauð henni að vera hjá mér í tvo daga í viðbót til að fá ódýrara far en í hysteríunni vildi hún bara komast frá þessu hræðilega landi strax. Þegar svo átti að borga mismuninn með kreditkorti þá reyndist hún bara vera með debetkort. Afgreiðslumaður British Airways heyrði viðbrögðin þegar ég útskýrði fyrir henni að hún gæti ekki borgað með því nema rafrænt og var svo elskulegur að bjóða henni að borga bara þegar hún kæmi á flugvöllinn í London.
Ekki er allt búið enn, ég ákvað að keyra hana á flugvöllinn til að vera viss um að hún kæmist örugglega úr landi því ef eitthvað kæmi upp á þá var hún nánast mállaus og hysterísk. Þegar við komum á völlinn þá sé ég að búið er að FLÝTA fluginu án þess að láta hana vita. Brottför var nú 16.20 í stað 17!!!! Eins gott ég var með henni! Á endanum komst hún svo úr landi og gisti á flugvellinum í Gatwick um nóttina og komst heilu og höldnu til Ítalíu daginn eftir.
13 september 2009
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)