19 apríl 2008

Mínar 15 mínútur af frægð

Ég er bara orðin "heimsfræg" í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Keene í New Hampshire. Það er greinilegt að ég verð að láta sjá mig á næstu Graskerjahátíð í Keene, ja það stendur a.m.k. í greininni að ég ætli að mæta ha ha ha. Matt sagði líka að nú kæmist ég ekki hjá því fyrst það væri komið á prent. Það er allavega ekki spurning að ég á eftir að skreppa í heimsókn til Alaska einn daginn enda búin að fá tvo sófagesti þaðan. Reyndar lítur í viðtalinu út eins og ég hafi verið á þönum í kringum þau sem var svo sannarlega ekki. Eitthvað hefur líka skolast til hjá blaðamanni því ég kannast ekki við að hafa kynnt þau fyrir einhverjum hljómsveitarmeðlimum. Ég skrapp með þeim á tónleika á Organ af því mig langaði að sjá og hlusta á Eivöru og Matt hitti hana svo á hátiðinni Aldrei fór ég suður og spjallaði eitthvað við hana. Hann var mjög uppnuminn yfir því hversu alþýðlegar íslenskar/færeyskar poppstjörnur eru. En það var allavega mjög gaman að hafa þau og við höldum sambandi á Facebook.

P.S: Linkurinn virkar víst ekki lengur nema fyrir þá sem eru áskrifendur :-(
þannig að mínar 15 mínútur eru greinilega liðnar ha ha ha ha

18 apríl 2008

Hárvöxtur

Keren sófagesturinn minn frá Tel Aviv benti mér á einn kost við að búa á Íslandi sem ég hafði ekki hugmynd um. Minni HÁRVÖXTUR!! Hún sagðist hafa tekið eftir því að dregið hefði verulega úr hárvextinum á fótleggjunum eftir að hún kom til Íslands og taldi ástæðuna vera kuldann hér á landi. Hitinn í heimalandi hennar gerir það víst að verkum að þrem dögum eftir að hún vaxar á sér leggina eru þeir aftur orðnir eins og á velhærðum hobbita. Þær tvær vikur sem hún var hér á landi var sprettan hins vegar nánast engin. 
Það er upplagt fyrir mig að fá þessa kenningu staðfesta þegar ég fer í hitasvækjuna á Ítalíu.

16 apríl 2008

Matarlyst

Um síðustu helgi eldaði ég tvö lambalæri og bauð öllum strákahópnum í mat ásamt Ellen kærustunni hans Vals. Að sjálfsögðu tóku allir rösklega til matar síns og ekki síst hún Ellen sem borðaði þá alla undir borðið. Viðbrögð þeirra við því minnti mig á viðbrögð Skúla Björns þegar ég var að vinna í skógræktinni og borðaði fleiri kjötbollur en hann. Það virðist nefnilega vera ákveðið karlmennskumerki að borða mikið og sú karlmennska bíður hnekki við það að vera borðaður undir borðið af konu. Annars var alveg ótrúlegt hvað ég og eiginlega við systur allar gátum innbyrt af mat á okkar yngri árum. Kolbrún man örugglega enn eftir því þegar Hói á Víðivöllum sagði við hana “ertu með orma eða hvað” þegar hún var búin að úða í sig ótæpilega af skyrsúpunni hennar Ingu ræst. Það hefur sennilega verið sæmilegur matarreikningurinn hjá foreldrum okkar miðað við það að ég tók alltaf 10 brauðsneiðar með í nesti og ég man ekki betur en Stína systir hafi verið með svipaðan skammt. Það er af sem áður var, núna má maður bara þakka fyrir að narta í tvær hrökkbrauðssneiðar.  

12 apríl 2008

Japanskur fótbolti

Ég grenjaði úr hlátri yfir þessu myndbandi!!

Geitin Skotta

Vinkona mín gaf mér þessa fallegu gulu gerberu í gær. Þegar ég kom fram í morgun sá ég mér til skelfingar að búið var að éta hana upp til agna. Það er að segja gula blómið. Ég hélt það væru bara geitur sem höguðu sér svona!!

07 apríl 2008

Stopp stopp stopp!!

Fyrir viku síðan gerðist það að öll viðvörunarljós tóku að blikka í líkamanum á mér. Minnug þess að hafa virt þau að vettugi síðasta sumar með þeim afleiðingum að ég varð eins og nírætt lasburða gamalmenni, þá ákvað ég að taka mark á þeim núna. Það voru samt þung sporin til leiðbeinandans míns að fresta útskrift enn einu sinni. Mér finnst þetta auðvitað algjör aumingjaskapur. Ég fékk bara jákvæðar viðtökur því eins og hún sagði þá skiptir ekki nokkru máli fyrir mig hvort ég útskrifast í vor eða haust. Þannig að núna er ég byrjuð að undirbúa Finnlandsferð í byrjun maí. Ég er að fara á námskeið á vegum Alþjóðahúss í tvær vikur að læra að kenna íslensku sem annað mál. Mér skilst að ég eigi að læra finnsku þessar tvær vikur og er ægilega spennt. Eins og er þá er ég að kenna þrjú íslenskunámskeið en eitt þeirra klárast næsta fimmtudag. Nú er bara að halda dampinum í ritgerðarskrifum, ég tók samt frí frá því í síðustu viku til að safna aftur kröftum.
Ég vissi ekki að kettir fengju flensu. Scarlet ræfillinn er með flensu og er búin að hnerra út í eitt síðustu daga og nætur. Svo vellur gröftur úr augunum á henni þannig að ég er í hjúkrunargírnum og þvæ augun nokkrum sinnum á dag. Ákvað í dag að prófa að nota fjallagrasaseyði til að strjúka yfir augun því ég hef tröllatrú á þeim grösum og veit að þau eru bakteríudrepandi. Sem betur fer er kattaflensan víst ekkert hættuleg. Skotta var með þetta um daginn en hún fékk ekkert í augun heldur hnerraði bara stanslaust og nuddaði á sér nefið. Scarlett er náttúrulega orðin fjórtán ára þannig að hún verður miklu lasnari, er ósköp orkulítil en sem betur fer er hún með fína matarlyst. Skottu hundleiðist að geta ekki fengið hana til að leika við sig og sýnir lítinn skilning á veikindum þeirrar gömlu. 
Vel á minnst. Vorið er komið!! Það var vorlykt þegar ég kom út í morgun og nefið á mér klikkar aldrei þegar kemur að árstíðaskiptum þ.e.a.s. vor og haust.